Submitted by admin on Lau, 11/09/2010 – 00:00 Höfundur: Einar Már Guðmundsson
Þriðja plata Megasar heitir Fram og aftur blindgötuna. Nafn hennar gæti verið lýsing á ríkisstjórninni og ekki bara þessari ríkisstjórn heldur mörgum öðrum ríkisstjórnum, en það merkilega við ríkisstjórnir er að þær rata oft ágætlega um eigin blindgötur. Stefnuleysið er stefna, afskiptaleysið afstaða. Það er til að mynda útbreiddur skilningur – eða eigum við að segja misskilningur – að hrunastjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafi sofið á verðinum. Þvert á móti, það var beinlínis stefna þeirrar stjórnar að ganga í svefni og skipta sér sem minnst af fjármálakerfi þjóðarinnar. Að því leyti var sú ríkisstjórn fullkomlega á vakt í svefni sínum. Ríkisstjórn Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur kennir sig við félagshyggju og norræna velferð, en hún er engu að síður ríkisstjórn fjármálafyrirtækjanna. Hún hlustar af mun meiri athygli á skilanefndir bankanna en fólkið í landinu og fjármálafyrirtækin eiga huga hennar og hjarta. Samt er þetta fyrsta hreinræktaða vinstristjórnin. Hún var kosin sem slík í kjölfar mestu uppþota sem orðið hafa í landinu. Því skyldi maður ætla að alvöruvinstristefnu hefði verið hrint í framkvæmd. Að tekið yrði á auðkýfingunum, eignarhaldsfélögunum, spillingunni, auðlindamálunum og lýðræðinu, sem og hinum almenna forsendubresti í lána- og fjármálakerfinu. Til þessa hafði ríkisstjórnin umboð kjósenda.
En ríkisstjórnin ákvað frekar að ganga fram og aftur blindgötuna eða eiginlega upp og niður bankastrætið, bæði í bókstaflegri merkingu og sögulegri. Bankastræti sögunnar, það er hennar leið. Hún hverfur niður í Bankastræti núll, gamla almenningssalernið, sem í kaldhæðni sinni stendur við hliðina á stjórnarráðinu. Kannski lætur ríkisstjórnin fjarlægja almenningssalernið, leggja niður Bankastræti núll, til að breiða yfir hreingerningarnar. Fjármálaráðherrann hrópar: Allir að þrífa, en í rauninni eru það bara nokkrir óknyttapiltar sem hafa rústað almenningssalernið, en þeir eru löngu sloppnir og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af hreingerningunum því fjármálaráðherrann og stjórn hans hafa ráðið okkur öll, alla þjóðina til þeirra verka. Er til dæmis eðlilegt, bara svo dæmi sé tekið, að gömlu Baugs- og FL-auðjöfrarnir geti verið með tugi ef ekki hundruð eignarhaldsfélaga á sínum snærum og hagað sér eins og börn í feluleik við yfirvöld, að hægt sé að láta eignir hoppa á milli félaga eins og í tölvuleik, og ef yfirvöld mæta á vettvang er allt tómt og lok lok og læs og allt í plati. Og af hverju eru allir aðstoðarmenn samfylkingarráðherranna gamlir jaxlar úr Landsbankanum, sumir jafnvel illa skemmdir? Og hvað eru sömu mennirnir að gera inni á öllum skrifstofum sem opnaðar eru? Spunameistarar úr gamla fjármálkerfinu spinna fyrir ríkisstjórnina; og allt er þetta mikill spuni.
Á meðan þessu öllu fer fram talar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra við okkur eins og duglegur verkstjóri: Svona drífið ykkur út að vinna! Sýnið hvað í ykkur býr! Svona! Brettið upp ermar! Enga leti! Við höfum þetta! Já já já, ég veit þetta er erfitt, en við erum að moka okkur út úr haugnum. Sjáið þið ekki skaflinn? Og niðurstaðan er sú að eini flokkurinn sem ekki tók þátt í sukkinu situr með sukkið í fanginu. Þetta viðhorf sýnir uppgjöfina gagnvart verkefninu sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir. Stjórnarflokkarnir eru tilbúnir að velta sukkinu yfir á almenning og fjármálaráðherrann fær sitt klapp á bakið þó að hann uppskeri líka vanþakklæti sem ekki birtist síst í því að fulltrúar hrunflokkanna láta svipuhöggin dynja á baki hans, en af því að fjármálaráðherrann er hraustmenni, sem lætur sig ekki muna um að ganga með bakpoka yfir landið þvert og endilangt, þá kveinkar hann sér ekki og axlar ábyrgðina á verkum hrunverjanna sem standa spjátrungslegir og vilja ekkert kannast við eigin fortíð. Vinstri græn, flokkur fjármálráðherra styður við bakið á sínum manni – eða það gerir stór hluti hans – og hluti þjóðarinnar tekur ofan fyrir honum fyrir þá dirfsku að sigla skipinu út úr skerjagarðinum, löskuðu og leku, en samt á floti. Steingrímur J. er eins og skipstjóri í stórmynd, bjargvættur, en því miður glatast öll félagshyggja, öll velferðarhyggja og vinstristefna á leiðinni, því skipstjórinn ætlar að bjarga öllu einn og vill ekki hafa neina nálægt sér. Sérstaklega ekki samherja sína, sérstaklega ekki almenning.
Eitt ár er langur tími, sérstaklega á Íslandi, þó að árin hlaupi áfram og stundum séu hlaupár. Menn taka hamskiptum og fara heljarstökk. Haustið 2008, þegar allt hrundi, reis Steingrímur J. Sigfússon upp og sagði að það yrði uppreisn í landinu ef gengið yrði að skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá var Steingrímur J. Sigfússon þingmaður en nú er hann ráðherra. Þetta þýðir að ef hann ætlaði að taka sjálfan sig á orðinu yrði hann að gera uppreisn gegn sjálfum sér. Þá stæði Steingrímur J. Sigfússon fyrir utan þinghúsið í bjarma rauðra blysa og mótmælti Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra inni í þinghúsinu. Fjármálaráðherrann fer að verða eins og fólkið í megrunar- og líkamsræktarauglýsingunum, fyrir og eftir, nema hvað hann lítur alveg eins út og ber aldurinn vel. Hver er munurinn á ráðherra með hugsjónir og ráðherra án hugsjóna? Getur sami maðurinn verið bæði raunsær og óraunsær? Eða er veruleikinn óraunsær og allt ruglið raunveruleiki? Rithöfundur sem fyrir nokkrum árum hefði látið sér detta í hug allt sem stendur í Rannsóknarskýrslu Alþingis hefði verið talinn skýjaglópur. Það er í sjálfu sér engin mótsögn fólgin í þeirri stöðu sem ríkisstjórn fjármálaráðherrans er í og því hvernig jafnaðamenn fara með völd sín. Þeir hafa fólkið með sér en vinna gegn fólkinu. Svo snýst fólkið gegn þeim og veðjar þá jafnvel á enn verri hest. Bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins standa á hliðarlínunni og halda að þeir séu prinsarnir sem beðið er eftir. Samt sjá allir að þeir eru bara froskar og klæði þeirra tötrar nýfrjálshyggju og spillingar. Þeir myndu fylgja nákvæmlega sömu stefnu og stjórnvöld gera nú, eða réttara sagt, stjórnvöld fylgja þeirra stefnu, gömlu fjármálastefnunni sem veltir kostnaðinum og kreppunni yfir á almenning en slær skjaldborg um fjármálafyrirtæki og auðjöfra. Þess vegna á Steingrímur J. fjármálaráðherra að vita að við sem höfnum afarkostum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins viljum ekki hrunverjana aftur. Framsóknarflokkurinn á ekkert erindi í stjórnmál fyrr en hann hefur gert upp við fortíðina. Það nægir ekki að skipta bara um andlit og fara í önnur föt. Framsóknarmenn þurfa að gera upp við hrunverjana, kalla þá inn á teppið og láta þá bæta fyrir brot sín. Fyrr er tómt mál að tala um endurnýjun í Framsóknarflokknum.
Stjórnvöld ætla ekki að vísa skaðanum til þeirra sem ollu skaðanum heldur þeirra sem urðu fyrir honum. Ég hef áður vísað í sjónvarpsviðtal við Steingrím J. Sigfússon. Það var tekið fyrir kosningarnar árið 2007 og hann spurður að því hvort hann væri sósíalisti. Honum var greinilega brugðið og túlkaði ég viðbrögð hans svo að hann væri svo óvanur að heyra orðið sósíalismi af vörum fréttamanna að hann vissi ekki hvaðan á sig stæði veðrið. Hann var á svipinn eins og hann hefði aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Og nú er það ég sem verð að biðjast afsökunar. Það var ég sem misskildi málið. Maðurinn hafði ekki heyrt aðra eins vitleysu og þá að hann væri sósíalisti. Menn þurfa ekki að staldra lengi við hjá Vinstri grænum til að sjá að þar ríkir enginn pólitísk heildarhugsun. Þar ægir saman ólíkum sjónarmiðum og sum þeirra byggjast alls ekki á því að misréttið búi í þjóðfélagsgerðinni. Ég er ekki að segja að þessi sjónarmið séu eitthvað röng í sjálfu sér en í þeim er ekki að finna neina heildstæða vinstristefnu. Ég vil taka það strax fram að þessi gagnrýni mín beinist ekki gegn Steingrími J. sem slíkum. Ég met Steingrím J. mikils sem persónuleika og vil endilega sjá hann við stjórnvölinn. Hann þarf bara að breyta um stefnu, eða réttara sagt, taka upp stefnuna sem hann var kosinn til að fylgja. Ég vísa til hins fornkveðna að vinur er sá er til vamms segir. Vandi stjórnmálamanna er ekki þeir sem gagnrýna þá heldur jáhirðin í kringum þá, bitlingasnatarnir, metorðstritararnir og þeir sem halda að þeir eigi alltaf að vera þægir og að gagnrýni lýsi óánægju. Það er andi gamla nýfrjálshyggjutímans að tortryggja gagnrýnendur; þeir eru beiskir og bitrir af því þeir standa ekki inni í hitanum hjá hirðinni. Þess vegna er engin umræða í stjórnmálaflokkunum, bara valdabarátta. Ég vil sjá stjórnmálamenn sem þora að segja: Mig hefur borið af leið. Ég ætla að mótmæla sjálfum mér. Alvörustjórnmálamenn segja eins og Roosevelt Bandaríkjaforseti sagði við verkalýðsleiðtogana sem komu til hans með kröfur sínar. Roosevelt sagði: »Ég get ekki gert þetta fyrir ykkur, en þið getið látið mig gera þetta.« Slíkir stjórnmálamenn óttast ekki fólkið, óttast ekki aðgerðir og mótmæli, heldur hlusta og taka undir þær kröfur sem fá hljómgrunn. Þannig fá þeir einnig hljómgrunn og verða minnisstæðir stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn okkar gera öfugt við þetta, þeir eru í sjálfsvörn og gera alltaf það sem hentar kerfinu og tileinka sér sjónarmið sem hæfa stöðu þeirra. Gylfi Magnússon sem gagnrýndi bankakerfið sem fræðimaður og mótmælandi var allt í einu orðinn einn helsti verjandi þess. Það er eins og bankakerfinu hafi verið sparkað upp í fangið á stjórninni og hún varið það og sé svo ánægð með vörn sína að hún sleppi ekki af því takinu nema þegar það hentar henni, þá kemur henni það ekki við.
Það er ákveðin kaldhæðni að allt í einu er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem búið var að dæma úr leik, mættur á svæðið og tekinn til óspilltra málanna. Það er sagt að kreppan hafi komið eins og himnasending fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Áður en hún skall á var hann stofnun í gjörgæslu. Fæst þróunarlöndin virtu hann viðlits. Skopast var að getuleysi hans til að sjá fyrir kreppur í nýmarkaðslöndum Asíu og Austur-Evrópu. Og ekki nóg með það: Svör hans við þessum kreppum juku oftast á vandann. Hann var jafnvel kallaður inn á teppið af eftirlitsaðilum vegna lélegrar stýringar á sínum eigin sjóðum. Stefna hans og fyrirmæli var álitin ósveigjanleg og hugmyndasnauð, sömu nálguninni var beitt á gjörólík hagkerfi og aðstæður. Bæði tíundi áratugurinn og fyrstu ár þessarar aldar voru sjóðnum sérstaklega erfið: hagfræðingar hans og pólitískir ráðgjafar skildu næsta lítið í kreppunum sem þeim var falið að fást við. Þar eru nefnd til sögunnar lönd eins og Taíland, Suður-Kórea, Tyrkland og Argentína. Þar sem kreppan stafaði af takmarkalausri sóun einkaaðila kröfðust þeir aukins afgangs á fjárlögum. Þar sem kreppan stafaði af eignarýrnun lögðu þeir áherslu á háa vexti og aðhaldssama peningastefnu. Til að mæta efnahagslegum samdrætti ráðlögðu þeir aðhaldssöm fjárlög með niðurskurði í opinberum útgjöldum. Ríkisstjórn sem vill að við fórnum okkur fyrir fjármálaelítu heimsins og ríkisstjórnir á hennar snærum, er ekki að hlusta eftir félagslegum lausnum. Almenningur hefur ekkert verið spurður, enda fer hann í vaxandi mæli út á götur heimsins og segir: »Við neitum að axla ábyrgð á kreppu fjármálaelítunnar.« En við erum með ríkisstjórn sem heyrir ekki glamrið í pottunum sem kom henni til valda, tekur ekki mark á Nei-inu sem þjóðin sagði í atkvæðagreiðslunni í byrjun mars. Það er því ekki við miklu að búast, nema bráðum á að dimma og þá kann að hitna í kolunum.