Ég veit að við Hörður hittumst áður en haustið örlagaríka rann upp, haustið þegar sporbaugur raunveruleikans færðist til.
Einhversstaðar í djúpinu eru minningar úr hversdagslegri veröld, en ég finn þær ekki núna.
Í staðinn finn ég ótal minningar úr nýju veröldinni, þessari sem í fyrstu gerði okkur agndofa, en fyllti okkur svo af óþreyju og löngun í eitthvað betra.
Ég man eftir því að ganga samferða Herði og Sigrúnu niður á Austurvöll, af einum fundi á annan. Leiðir skilja, en að ræðuhöldum loknum hittumst við aftur og stöndum nú og horfum á Alþingishúsið. Hvenær ætli eitthvað gerist? spyrjum við hvert annað. Það er snjór og við köstum nokkrum snjóboltum í áttina að þessu musteri afneitunar og afglapa. Hörður er með gott mið og hittir gluggana með glæsibrag. Stemmningin er næstum barnsleg. Við flissum öll, bæði að okkur sjálfum en aðallega að keisaranum, sem er svo ótrúlega allsber. Við erum í stuði, einhverskonar byltingarstuði. Undir niðri kraumar vitneskjan um alvarleika ástandsins.
Að vera með Herði var hrein tilfinning, ómenguð af tilgerð eða sýndarmennsku. Og hann var líka svo skemmtilegur. Það er ekki auðvelt fyrir fullorðna manneskju að horfast í augu við að samfélagið sem henni hefur verið úthlutað er Pótemkíntjald, að meindýr hafa sest að á háaloftinu. Það er ekkert skrýtið að fólk gefist upp fyrir vandanum, og ákveði að rækta bara sinn prívat garðskika. En hann Hörður var ekki sú manngerð. Hörður horfðist í augu við ástandið, keikur og hvikaði ekki. Hann sá að fjöldasamstaðan er okkar eina vopn. Og jafnvel eftir öll vonbrigðin, eftir að við vorum búin að sjá að efniviðurinn sem nýja Ísland er byggt úr er bara spýtnabrakið úr því gamla, varð enginn var við uppgjöf eða vonleysi hjá Herði. Öðru nær. Hann tvíelftist af baráttumóð.
Síðasta sumar, þegar landsöluprógram auðvaldsins komst í hámæli, stóð Hörður vaktina með Sigrúnu. Við sátum saman ótal upplýsingafundi og skipulagsfundi. Og við eltumst við samborgara okkar til að safna undirskriftum, og enginn stóð sig betur en Hörður og Sigrún, þau voru tilbúin til að útskýra og spjalla, þau voru hrein og bein, og þau trúðu á mikilvægi verkefnisins.
Hörður tilheyrði kjarnanum, tilheyrði þeim hópi sem á endanum skiptir öllu máli, þeim sem standa vaktina, þeim sem þreytast ekki. Hann meinti það sem hann sagði, og stóð við loforð. Hann hafði það skapferli sem hæfir best aktivistum, aðgerðarsinnum. Hugrekki og þrautseigja prýddu hann. Og sköpunargáfan. Með Dalla var Hörður mótmælagjörningalistamaður.
Í góðu kvæði eftir góðann mann segir:
Lýður, bíð ei lausnarans,
Leys þig sjálfur!
Þegar ég var lítil stelpa var mér kennt að stjórnleysingjar væru í raun göfugastir allra, að þeir biðu einskis, leystu sig sjálfir úr fjötrum. Og einhvernveginn finnst mér að Hörður hafi verið stjórnleysingi. Hann lét ekki að stjórn, hann beið ekki leyfi frá neinu valdi, hann tók ekki við skipunum. Hörður sá að valdið er hlægilegt og þá er best að hlægja að því. Valdið svífst einskis og við þurfum að vera útsjónarsöm og sniðug og ósvífin. Valdið er grimmt og þá mætum við því með hugrekki.
Og engann mann annan sá ég stíga fram af jafnmiklu hugrekki. Þegar Sigrún bað Hörð að fara varlega svo að hann yrði ekki handtekinn var fullvissan algjör: ég verð ekki handtekinn. Og tilhugsunin er líka fáránleg. Hver hefði handtekið Hörð, sett á hann járn?
Hörður með eld í hjarta og eld í augum, hvað gerum við án hans?
Við tendrum eld í okkar eigin hjörtum, við höldum bálinu lifandi, við sjáum eins og Hörður að á endanum er þetta ekki flókið. Réttlætið er eini sannleikurinn: Ef þú átt tvo kyrtla, þá gefurðu annan, ef farísear hafa yfirtekið musterið þá hendir þú þeim út, ef landið þitt hefur lent í klónum á svikurum og þjófum, þá vinnurðu að því öllum stundum að endurheimta það. Og hættir ekki fyrr en sigur hefur unnist.
Á Facebooksíðu Harðar er svarið við spurningunni um trúarskoðun: “Það er betra að vera góður en vondur“. Og Hörður var bestur allra, Hörður sá best af öllum að sannleikurinn er betri en lygin, það er betra að vera frjáls en þræll og að vitneskjan er alltaf betri en fáfræðin.
Síðasta skiptið sem ég hitti Hörð var í aktivistabíói, hann og Sigrún sátu með okkur hinum á föstudagskvöldi og horfðu á mynd um argentínsk baráttusystkin okkar. En það er skiptið þar á undan sem ég hugsa um í dag, eins og alla dagana sem á undan hafa farið. Fyrir utan Alþingishúsið stöndum við einu sinni enn, 8. desember og nú er árið 2010, og hann og Dalli taka utan um mig og við föðmumst öll þrjú, örugg og glöð í þeirri fullvissu að réttlætið sigri að lokum.
Elsku Sigrún, kæra fjölskylda, ég samhryggist ykkur af öllu hjarta.
Lengi lifi minningin um þennan besta dreng allra, okkar kæra félaga Hörð Ingvaldsson.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Íslandsdeildar Attac.