Evrópunet Attac-samtakanna styður Suður-evrópska allsherjarverkfallið, 14. nóvember.
Þann 14. nóvember, 2012, mun eiga sér stað sögulegt allsherjarverkfall í Suður-Evrópu – þ. á m. í Portúgal, Spáni, Grikklandi, Ítalíu, Möltu og Kýpur. Frá Evrópusambandi verkalýðsfélaga (ETUC) berst ákall um að morgundagurinn verði dagur aðgerða í Evrópu allri, í samtöðu með verkfallinu.
Um gjörvalla Evrópu halda íbúar og meðlimir verkalýðsfélaga á götur út til að mótmæla hrikalegri niðurskurðarstefnu, framkvæmdri af stjórnvöldum undir þrýstingi frá Troikunni (Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum).
Evrópunet Attac lýsir yfir samstöðu með þeim sem leggja niður vinnu, og tekur jafnframt virkan þátt í aðgerðum um alla Evrópu. Ásamt öðrum félagslegum fjöldahreyfingum sem koma saman í Flórens í tilefni af afmæli Evrópska samfélagsvettvangsins (European Social Forum), munum við standa af öllum kröftum vörð um lýðræðið og gegn niðurskurði.
Krísur og skuldir eru notaðar sem skálkaskjól til að lækka laun, lífeyri og skerða opinbera þjónustu. Þetta gerir að verkum að Evrópa sundrast og efnahagslegar, félagslegar og lýðræðislegar kreppur dýpka enn frekar. En til eru raunverulegar lausnir á vandanum!
Nú, fremur en nokkru sinni fyrr, þurfum við algjöran viðsnúning í stefnu Evrópu. Sá viðsnúningur getur orðið ef við tökumst á við raunverulegar orsakir krísunnar og leggjum til alvöru valkosti fyrir náttúruvæna, félagslega og lýðræðislega Evrópu:
- Tökum umsýslun ríkisfjármála úr höndum fjármálamarkaða: leyfum lýðræðislega reknum seðlabönkum að lána beint til stjórnvalda.
- Sleppum úr skuldagildrunni: segjum skilið við niðurskurðarstefnuna og setjum af stað endurskoðun skulda sem leiðir til niðurfellinga. Bankarnir og þeir sem taka þátt í markaðsbraski þurfa að taka á sig sinn skerf af tapinu.
- Útbúum sjálfbæran grundvöll fyrir ríkisfjármál: samræmda hækkun skatta á auðsöfnun og hagnað fyrirtækja svo hægt sé að ná samstöðu um að stöðva undirboð í skattamálum. Stöðvum skattsvik og tökum upp fjárhagslegt viðskiptabann á skattaskjól.
- Afvopnum fjármálamarkaðina og komum bankakerfinu undir eftirlit almennings: bönnum skaðleg spákaupmennskuviðskipti (t.d. sjálfvirk forrituð viðskipti, nakta skortsölu, spákaupmennsku með afleiður og viðskipti með fjármálagjörninga utan verðbréfamarkaða og leggjum skatt á öll viðskipti með fjármagn, að lágmarki 0.1%; setjum strangt regluverk á allan bankarekstur (m.a. aðskilnað almenns viðskiptabankareksturs frá fjárfestingarbankarekstri, skiptum upp fjármálafyrirtækjum sem teljast “of stór til að verða gjaldþrota”).
- Leyfum lýðræðislega fjármögnum hagkerfisins: byggjum upp samvinnumiðað bankakerfi undir lýðræðislegri stjórn, til að tryggja fjármögnum á því sem er félagslega og efnahagslega nauðsynlegt, eins og umskipti á orkugjöfum. Viðskiptasamninga og opinbera stefnu skal endurskoða í því skyni að fylgja þessum markmiðum, í samstarfi við þróunarlönd.
- Evrópa fyrir fólk, ekki fyrir gróða: vinnum að samræmdri, framsækinni stefnu í efnahags- og félagsmálum, og aukum opinbera þjónustu undir eftirliti almennings, til að draga úr ójafnvægi, stuðla að umhverfisvænum breytingum á hagkerfinu, stuðla að mannvænum og góðum störfum, auka jafnrétti kynjanna og auka félagsleg og efnahagsleg grunnréttindi (aðgang að heilbrigðiskerfinu, menntun, húsnæði, hreyfanleika, aðgang að matvælum vatni og orku, upplýsingum, menningu, félagslegri velferð osfrv.). Tryggjum að þjónustan sé í eigu almennings og undir lýðræðislegri stjórn.
- Raunverulegt lýðræði strax: beina þátttöku almennings í stjórnskipun ríkisins sem stefnir að því að auka lýðræðislega þátttöku á öllum stigum; stuðning við þátttöku almennings í gegnsæu og ábyrgu ferli í endursköpun lýðræðislegrar Evrópu og lýðræðislegum valkosti við stefnu ESB.