Um stöðu stórveldanna

Sovétríkin voru mjög öflug fram til 1956. Það var vegna gríðarlega öflugs „mjúkvalds“ þeirra. Það hrundi frá 1956-1968. ´68 kynslóðin var mikilvæg vegna þess að hún mótaði hugmyndir um nýja tegund mjúkvalds.

Bandaríkin náðu smám saman sterkri stöðu sem handhafi Hollywood, rock ´n roll og álíka mjúkvalds. Aðallega þó í Evrópu, ekki eins í Suður-Ameríku eða Asíu. Síðan kom netvæðingin og hrun Múrsins; mjúkafl Bandaríkjanna virtist mikið en það hrundi eftir 2003. 

Nú er mjúkvald Bandaríkjanna mjög á undanhaldi. Veraldarvefurinn er nú kominn undir yfirráð örfárra tæknirisa, Amazon, Google, Mega. Þessir risar fylkja sér undir MAGA-hugmyndafræði Trumps. Trump eyðileggur allt sem heitir mjúkvald Bandaríkjanna – en kemur um leið að því að lýsa yfir vopnahléi í Palestínu. 

Um leið hefur hrunið afhjúpað enn frekar eðli kapítalismans, nú með því að kapítalið sér sína helstu leið út úr kreppunni og eftirmálum hrunsins, vaxandi alþýðuhreyfingum, að koma á einhvers konar fasisma. 

Það ríki sem tók við af Sovétríkjunum, Rússland Pútíns, hefur endurreist hluta af stöðu Sovétríkjanna sem stórveldis, aðallega í krafti þjóðernisstefnu og vopnavalds. Rússland hefur ekki snefil af þeim áhrifum sem Sovétríkin höfðu allt fram undir hrun þeirra um 1990. Sovétríkin höfðu gríðarlegt áhrifavald um allan heim fram yfir 1956 og héldu miklum áhrifum í suðurhluta heimsins lengi eftir það, þótt evrópskir vinstri menn misstu á þeim trúna eftir innrásina í Ungverjaland.

Kína féll undir yfirráð kommúnisma árið 1949, í þeirri bylgju andfasisma og alþýðuvaldeflingar sem þá gekk yfir heiminn. Það var eftir síðari heimsstyrjöld og sigur Bandamanna (sósíalísku ríkjanna/hreyfinganna og borgaralegu lýðræðisríkjanna) á nasisma og fasisma. Það féll ekki um 1990 eins og Sovétríkin, heldur tók stefnuna á iðnvæðingu og náði að nútímavæðast á næstu 20-30 árum.  

Það var hins vegar valdataka kommúnista í Kína sem hleypti af stað ógnaröld á vegum Bandaríkjanna, fyrst í Kóreu, síðan víða í Íran, víða í Suður-Ameríku, í Víetnam. Svo varð nokkuð hlé þangað til Bandaríkin fóru af stað aftur með ógnarherferð, fyrst í fyrrum Júgóslavíu, svo Afganistan og Írak og nú stutt viðbjóðslega herferð Ísraelsmanna í Palestínu. Bandaríkin vildu ekki að fleiri ríki féllu fyrir kommúnisma og sáu sína sæng upp reidda ef svo yrði. 

Bandaríkin hafa síðustu 75 ár vaðið um heiminn, drepið og myrt eða látið drepa og myrða andspyrnufólk og almenning sem vill hafa það betra í friði fyrir heimsvaldasinnum og gróðarhringum. Þau hafa verið helsti aflvaki ógnar og skelfingar í heiminum á þessum tíma.