Ríkisstjórn Jöhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er ekki aðeins söguleg fyrir þær sakir að vera fyrsta hreina “vinstristjórn” Íslands – heldur líka vegna þess að hún er fyrsta ríkisstjórnin sem kemst til valda hér á landi í kjölfar einhverskonar byltingar. Í “búsáhaldabyltingunni” veturinn 2008-9 reis íslenskur almenningur upp og krafðist réttlætis. Í kjölfar kosninga vorið 2009 komust Vinstrihreyfingin grænt framboð og Samfylkingin til valda vegna loforða um að slá skjaldborg um íslensk heimili, og verja þau ágangi fjármálafyrirtækja.
Ljóst er orðið að “vinstristjórnin” ætlar ekki að standa við gefin loforð. Ríkisstjórnin hefur gripið til ýmissa sértækra aðgerða sem stoppa í eitt og eitt gat – en ekkert bólar á því að markviss skref verði tekin til að skapa réttlátt samfélag.
Það á ekki að reisa skjaldborg um heimilin. Í staðinn hefur ríkisstjórnin ákveðið að henda hagsmunum almennings á ruslahaugana og gera hagsmuni fjármálafyrirtækja að sínum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leyfa þeim að halda áfram að blóðmjólka almenning. Og í tilraun til að verja óhæfuna er gripið til orðræðunnar úr Icesave-fíaskóinu: Hér fer allt á versta mögulega veg ef íslenskur almenningur axlar ekki ímyndaða siðferðislega skyldu og borgar eins og fyrir er lagt. Að baki þessa siðaboðskaps stendur svo Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.
Hefur ríkisstjórnin enga sýn aðra en að friðþægja fjármálakapítalismann?
Það er nú augljóst sem flestallir sáu fyrir og hin alþjóðlegu Attac samtök hafa sagt í áraraðir: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn starfar allstaðar eftir sínum gömlu og margprófuðu aðferðum. Allar reglur lýðræðisins eru sniðgengnar, upplýst umræða er engin, og þá skiptir engu hvort ríkisstjórnin segist vera norræn velferðarstjórn, eða framvarðasveit frelsis- og gróða-elskandi grillara. Enda virðist ríkisstjórnarsáttmálinn marklaust plagg, saminn í þeim einum tilgangi að blekkja kjósendur. Svokallaðar vinstri stjórnir, hvort sem átt er við þá íslensku, eða þá grísku eða spænsku, hafa enga raunverulega efnahagsstefnu aðra en að gera það sem þeim er sagt, ekki af kjósendum, sem kusu jú til vinstri, heldur ólýðræðislegum alþjóðastofnunum.
Niðurstaða Norrænu velferðarstjórnarinnar er nákvæmlega sú sama og G20 fundarins: Almenningur skal borga fyrir krísu skapaða af auðugustu forrétindastéttum veraldar. Fólk sem lifir af þvi að selja vinnuafl sitt skal hneppt í skuldafjötra. Engar raunverulegar tillögur hafa komið fram um að hefta starfsemi bankaauðvaldsins eða leggja háa skatta á þau fyrirtæki sem hagnast á þvi að selja almenningi lán. Lán sem almenningur þarf að taka, vegna þess að ógerlegt er fyrir hinar vinnandi stéttir að koma undir sig fótunum nema með yfirgengilegri skuldsetningu.
Sama Fjármálaeftirlit og það sem áður leyfði að hér yrði egnd gildra fyrir almenna borgara með ólöglegum lánum er nú látið stíga fram ásamt “sjálfstæðum” Seðlabanka og beina tilmælum til þeirra sem hlusta: Við þurfum öll að leggjast á eitt til þess að viðhalda óbreyttu ástandi.
Krafa stjórnvalda er í raun að skuldarar, almenningur, slái skjaldborg um fjármálafyrirtækin!
Fram hefur komið að takmörkuð lögfræðileg álit og útreikningar liggja að baki tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, og þau gögn sem unnið var eftir við gerð tilmælanna verða ekki lögð fram. Þetta er algjörlega óþolandi. Íslenskur almenningur getur ekki látið bjóða sér svona framkomu – sérstaklega ekki eftir það sem á undan er gengið.
Bundnar voru vonir við að kosningar yrðu upphaf á nauðsynlegum breytingum, en vinstri stjórnin virðist sátt við að feta áfram leiðina sem mörkuð var: Ríkið á áfram að starfa sem aðalstoð auðvaldsins.
Skuldir sem ekki er hægt að greiða verða ekki greiddar að fullu. En fjármálafyrirtæki geta, að fengnu leyfi stjórnvalda, gengið fram af fullkomnu miskunnarleysi kapítalismans til þess að hafa af fólki aleiguna, jafnvel þó sömu fyrirtæki byggi tilveru sína á lögbrotum.
Við slíkt verður ekki unað.
Stjórn Attac á Íslandi styður því baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna, og hvetur fólk til að fara að tilmælum þeirra. Þau er að finna á ve
Að lokum:
Hulunni hefur verið svipt af tálsýninni: Hér munu engir brauðmolar falla af borðum hinna ríku. Aftur á móti er þess krafist eins og alltaf að hinar vinnandi stéttir taki á sig allar byrgðar hins ósanngjarna hákapítalíska samfélags, til þess að ólögleg fyrirtæki, og fólk eins og Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, og Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, geti haldið áfram að græða og grilla. Almenningur hefur því engu að tapa nema hlekkjunum og heilan heim að vinna.