Ræða Jóns Þórissonar á fundi Attac í Iðnó 28. júlí 2010

Ég er kominn hér sem talsmaður átaksins orkuauðlindir.is, en áskorun okkar Bjarkar Guðmundsdóttur og Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur til stjórnvalda um að stöðva söluna á HS Orku til Magma og til Alþingis um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindunum og nýtingu þeirra hefur nú verið undirrituð af nær 16.000 manns.

Markmið okkar var og er enn að vekja upp umræðuna um þennan gjörning, einkavæðingu orkuauðlindanna, áður en það væri um seinan. Fyrsti áfangi virðist hafa náðst – að fá fram umræðuna: Stjórnvöld hafa látið undan þrýstingi og nú er leikinn biðleikur sem óvíst er um hvernig fer. Efnt skal til rannsóknar og möguleikar kannaðir – það er allt gott og blessað að því gefnu að vel verði að þessari rannsókn staðið. Við bíðum niðurstöðunnar.

Hins vegar höfum við bent á að pólitískur vilji er allt sem þarf en staðreyndin er sú að stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um stefnuna – vonandi ná þeir áttum – og leggja málið í dóm þjóðarinnar . Í þessu sambandi vil ég benda á að samkvæmt skoðanakönnun sem fjallað er um í fjölmiðlum í dag og Capacent mun hafa unnið fyrir Teit Atlason bloggara eru tæplega 85% landsmanna andvígir því „að erlendir aðilar geti keypt íslenskar náttúruauðlindir“. Aðeins 4,5% voru hlynntir, en 10,6% sögðust enga skoðun hafa á málinu.


En sagan af einkavæðingu HS Orku er um margt á huldu. Við höfum lagt áherslu á að birta þurfi upplýsingar um ferlið allt og lýsa því hvernig hér er í pottinn búið.

Eins og fram hefur komið sendum við umboðsmanni Alþingis ábendingu um ýmis atrið sem við teljum ástæðu til þess að skoða varðandi þetta ferli allt – við því höfum við ekki fengið önnur svör en þau að Umbi taki sér lögformlegan tíma (allt að fjórar vikur) til þess að kanna hvort hann ætli að taka ábendinguna til greina.

Þá höfum við sent 3 ráðuneytum, Orkuveitu Reykjavíkur og þeim sveitarfélögum sem tengast málinu, beint eða óbeint, beiðni um að fá afhent öll gögn: “er varða samskipti viðkomandi yfirvalda og starfsmanna þess við Magma Energy Sweden AB, Magma Energy Corp Canada, Ross Beaty, Geysir Green Energy, Ásgeir Margeirsson, HS Orku og tengda aðila

Einnig óskuðum við eftir “afritum af minnsblöðum af fundum með ofangreindum aðilum, og afritum af minnisblöðum og greinargerðum starfsmanna er varða Magma Energy, HS Orku, GGE og tengda aðila.” eins og segir í bréfi okkar.

Svar hefur borist við þessari beiðni – frá Orkuveitu Reykjavíkur en eins og fram hefur komið virðist sala OR á hlut sínum í HS Orku skila OR 9 milljarða króna tapi – þetta eru útreikningar Birgis Gíslasonar sem birst hafa víða á bloggsíðum – og þeir hafa ekki verið hrakir. Ástæðan, segir mér talnaglöggir menn, er sú að þessir útreikningar muni vera réttir.

En OR segir m.a. í svari sínu:

…..Um er að ræða upplýsingar er varða viðskipti með hlutabréf og munu þær ekki afhentar. Rétt er að benda á að samningur um sölu Orkuveitu Reykjavíkur á hlutabréfum í HS Orku til Magma Energy Sweden hefur verið birtur og er aðgengilegur á netinu.

Síðdegis í dag barst okkur svo svar frá Viðskiptaráðuneytinu um að ekki væri hægt að taka beiðni okkar til skoðunar fyrr en 9. ágúst – vegna sumarleyfa.

Við vonum að hinni nýju rannsóknarnefnd gangi betur – en við munum að sjálfsögðu halda þessu vakandi! Það er ljóst að það er nauðsynlegt að halda uppi þrýstingi á stjórnvöld og það gerum við best með því að varpa ljósi á sem flestar hliðar þessa ferlis, um þær ákvarðanir stjórnvalda sem komu ferlinu af stað, gjörðir einkavæðinarnefndar sem svaraði kalli Bjarna Ármannssonar þegar hann óskað eftir því að kaupa hlut ríkisins í HS Orku, eða Hitaveitu Suðrnesja – eins og fyrirtæið hét svo púkalega árið 2006.

Það þarf að skoða úrskurð Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2008 sem bannaði OR að eiga hlut í Hitaveitu Suðurnesja – úrskurð þar sem vitnað er til amerískra laga og reglugerða einkavæðingunni til stuðnings!

Það þarf að rekja leikfléttuna um GGE og REI, sölu OR til GGE og síðan viðskipti GGE við Reykjanesbæ á síðasta ári. Þar vekur athygli að GGE, sem var komið í hendur Glitnis, og í verulegum fjárhagserfiðleikum, stóð í stórræðum við kaup á hlutum í HS Orku – og verður athyglisvert að skoða lögmæti þeirra gjörninga. Hvar fær gjaldþrota fyrirtæki milljarða lán? Hvert var umboð þeirra manna sem stóðu að þessu fyrir hönd GGE?

Allt þetta er þarft og gott að skoða –en söluna til Magma er hægt að stoppa strax – til þess þarf engar rannsóknir eða yfirlegu enda virðist augljóst að úrskurður nefndar um erlenda fjárfestignu er gallaður– nefndin reifar ekki allar hliðar málsins og nefnir ekki einu orði lögfræðiálit sem henta ekki þeirri niðurstöðu sem varð ofaná.

Ef ríkisstjórnin vill, getur hún, eða viðskiptaráðherra réttara sagt, snúið við úrskurði nefndar um erlenda fjárfestingu – og í framhaldinu getur þingið sett lög sem koma í veg fyrir að svona leikur endurtaki sig.

Önnur leið út úr þessu máli er greiðfær samkvæmt 12. grein laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, þar sem segir:

Nú telur ráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahags-egir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvað slíka fjárfestingu…

12. grein laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri

Ég spyr: er ráðherra ekki skylt að stöðva sölu á auðlindanýtingu sem framkvæmd er í örvæntingu af hálfgjaldþrota bæjarfélögum, slitastjórnum og gjaldþrota fyrirtækjum?

Að lokum vil ég hvetja landsmenn til þess að sýna stjórnvöldum vilja sinn með því að undirrita áskourn okkar um að stöðva þetta einkavæðingarferli og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um hverning við viljum haga eignarhaldi og nýtingu orkuauðlindanna.