Fundur Attac um Magma-málið þann 28. júlí tókst mjög vel og var fjölsóttur, þótt hann væri haldinn í miðjum sumarfríum. Ráðherrar skrópuðu reyndar, og heyrst hefur að það hafi verið af því að þeir þorðu ekki að mæta á fundinn. Í framhaldi af fundinum stóð Attac fyrir að safna undirskriftum undir áskorun orkuauðlinda um Magma málið á Gay Pride. Viðbrögð fólks voru mjög góð og mörg hundruð manns skrifuðu undir áskorunina.
Á menningarnótt heldur Attac á Íslandi áfram að berjast gegn einkavæðingu íslenskra orkuauðlinda af miklum krafti, og nú með menningardagskrá sem stendur allan daginn og fram á kvöld. Dagskráin verður fyrir framan Hegningarhúsið á Skólavörðustíg. Fjöldinn allur af úrvals rithöfundum, tónlistarfólki, öðrum listamönnum o.fl. munu flytja fjölbreytt menningarefni allan daginn, og kórar syngja. Fólki gefst líka kostur á að undirrita áskorun orkuauðlinda.is allan daginn. Dagskráin verður undir yfirskriftinni „Ísland er ekki til sölu“, sem rímar skemmtilega við eitt helsta slagorð hinna alþjóðlegu Attac samtaka, „The world is not for sale“.
Á fimmtudagskvöld verður sjálfboðaliðafundur í Húsinu til að undirbúa framkvæmd dagskrárinnar. Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að fjölmenna í Húsið og taka þátt í undirbúningnum. Ísland er ekki til sölu!