Hvað var Búsáhaldabyltingin? Hver urðu afdrif hennar? Og hver eru verkefni byltingarmanna nú?

Á tímabilinu 2009-2016 náði almenningur tvisvar að koma frá ríkisstjórn. Í fyrra skiptið eftir þriggja mánaða mótmælahreyfingu sem myndaðist vegna algers gjaldþrots íslensks kapítalisma, sérstaklega á sviði fjármálastarfsemi, en einnig á sviði hugmyndafræði og markmiða. Mótmælahreyfingin náði ýmsum af markmiðum sínum fram umfram það sem var yfirlýst, að koma ríkisstjórninni frá, og vinstri stjórnin sem tók við tók upp ýmis góð mál. Það stóð raunar ekki lengi, og næsti sigur mótmælahreyfingarinnar var að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin semdi landið af sér vegna Icesave-deilunnar. Það var gert í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum 2010 og 2011. 

Auk þess sem vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur voru mislagðar hendur í Icesave-málinu urðu tvö önnur mál til að kosta hana mikið fylgi. Annars vegar lagði stjórnin upp í ferli sem átti að enda í aðild að Evrópusambandinu, og var það ekki vinsælt við þær aðstæður sem voru uppi eftir hrunið, og hins vegar stóð stjórnin sig mjög illa þegar kom að því að verja almenning fyrir afleiðingum hrunsins, sérstaklega hvað varðandi gjaldþrot heimila. 

Fjöldamargt annað gerðist í tengslum við hrunið. Sett var af stað rannsóknarnefnd Alþingis og skilaði hún rannsóknarskýrslu sem reyndist vel unnin. Þá var efnt til mikillar vinnu um gerð nýrrar stjórnarskrár, sem síðan var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, en Hæstiréttur feldi hana svo úr gildi. 

Árið 2016 hafði ríkisstjórn Sigmundar Davíðs setið í þrjú ár þegar Panama-skjölin voru afhjúpuð. Í ljós kom að forsætisráðherra átti leynireikninga í Panama, og varð sú afhjúpun til þess að mikill mannfjöldi mætti á Austurvöll og mótmælti. Síðan féll ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Sigurður Ingi tók við sem forsætisráðherra. Framhaldið var skammlíf ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar, og svo ríkisstjórnir Katrínar Jakobsdóttur. Sú stjórn fór að lokum frá, fyrst og fremst vegna hneykslismála tengdum Bjarna Benediktssyni. 

Nú er aftur komin til valda stjórn undir forystu Samfylkingarinnar, miðjusækin og Evrópusækin stjórn. Sú hreyfing almennings sem myndaðist veturinn 2008-2009 hafði úrslitaáhrif á gang mála á opinberum vettvangi allt fram yfir 2016, og hún hafði aldrei á stefnuskrá að ganga í Evrópusambandið. Ómögulegt er að skilja myndun stjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nema í ljósi þess. Henni var ætlað að svipta þessa hreyfingu krafti sínum, m.a. með því að láta allar Evróputilraunir vera. Stjórnmálastéttin settist á samfélagið og neitaði að standa upp þótt tilveran væri ansi kæfandi undir þeim rassi. Að lokum sá Sjálfstæðisflokkurinn um að grafa undan stjórninni þannig að henni var ekki lengur sætt á síðasta ári. 

ReplyForwardAdd reaction