Fíllinn í stofunni. Vinstri flokkar og Evrópusambandið

Vinstri flokkar í Evrópu hafa á umliðnum áratugum æ meir gagnrýnt stjórnmálaþróun í Evrópusambandinu, sérstaklega þá niðurskurðarstefnu sem komið var á eftir fjármálahrunið 2007–2008 og evrukreppuna sem á eftir fylgdi. Niðurskurðarstefnan leiddi til mikils og viðvarandi atvinnuleysis og loforð um félagslegar aðgerðir sem gefin voru um leið voru aldrei efnd. Á sama tíma hélt hagþróun á grundvelli nýfrjálshyggjumarkmiða áfram af fullum krafti og átti þátt í vaxandi valdi markaðsafla yfir þjóðfélagsþróuninni.


Jafnvel þótt gagnrýni á Evrópusambandið af hálfu vinstri aflanna hafi vaxið, þá hefur það ekki endurspeglast í nýrri stefnumörkun á sviði stjórnmála. Það er rétt að nýjar og mikilvægar spurningar hafa verið lagðar fram, sérstaklega í tengslum við kreppu og stjórnmálaþróun í Grikklandi. Þar gaf vinstri flokkurinn Syriza pólitíska stefnu sína upp á bátinn eftir að hann komst í stjórn í janúar 2015. Stjórnin var meira og minna þvinguð til að lúta boðum og bönnum Evrópusambandsins ­– eða, eins og margir gagnrýnendur segja, Syriza stjórnin gafst upp fyrir Evrópusamandinu, í uppgjöf sem ekki er aðeins varin pólískt af Syriza flokknum sjálfum, heldur einnig af meðlimum flestra annarra vinstri flokka og innan transform! europe samtakanna.[1]Samband hreyfinga sem eru virkar á sviði stjórnmálamenntunar og gagnrýninnar vísindalegrar greiningar, sem hefur tengsl við Party of European Left. Frekari fræðslu má fá á … Continue reading

Þetta leiðir til spurningar sem lögð hefur verið fram bæði af gagnrýnendum innan Syriza og í fleiri vinstri samtökum í Evrópu, hvort yfir höfuð sé nokkur möguleiki að breyta Evrópusambandinu innan frá.[2]Ýtarlega útfærslu á þessu sjónarmiði má finna hjá Costas Lapavitsas, The Left Case Against the EU (Cambridge: Polity, 2019). Aðgerðir sem Evrópusambandið (eða „Troikan“, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanki Evrópu og AGS) hefur gripið til gegn öðrum kreppuhrjáðum ríkjum – svo sem Írlandi, Ítalíu, Portúgal og Spáni – gera þetta vandamál enn stærra. Ætti úrsögn úr efnahags- og myntsamstarfinu og þar með úr evrusamstarfinu, og mögulega einnig Evrópusambandinu, að vera meðal þess sem vinsti hreyfingin leggur til, eða er hernám og endurnýjun Evrópusambandsins innnanfrá leiðin til að skapa félagslega Evrópu? Svarið við þeirri spurningu er, auðvitað, lykilatriði varðandi stefnumótun vinstri hreyfingarinnar í Evrópu. Á hinn bóginn virðist ríkja bæði vöntun á getu og vilja til að vekja máls á þessu atriði í mörgum af hinum stærri vinstri flokkum. Afstaðan til Evrópusambandsins hefur þannig að mörgu leyti orðið fíllinn í stofunni í mörgum þessara flokka. Þetta á einnig við um afdrif Syrizastjórnarinnar, sem virðist vera erfitt að fá rædd meðal vinstri manna í Evrópu. Á bak við þessa tregðu má finna ólíkar leiðir til að skilja hlutverk og eðli Evrópusambandisn, og sérstaklega hvernig það hefur þróast í tímans rás.

Óreiðan meðal vinstri manna í Evrópu

Vinstri hreyfingin í Evrópu er veik, bæði hvað varðar stærð og innviði. Hún einkennist af þeirri stjórnmála- og hugmyndakreppu sem vinstri hreyfingin hefur átt við að stríða síðustu áratugi og sem hefur komið í veg fyrir að hún gæti orðið leiðandi í baráttunni gegn efnahagskreppu, árásum á velferðarkerfið og vaxandi misrétti og fátækt. Það eru fyrst og fremst öfl yst á hægri vængnum sem hafa náð að nýta sér vaxandi óánægju almennings. Í kosningum í ríkjum Evrópusambandsins árin 2017 og 2018 tókst hægri flokkum að meira en tvöfalda fylgi sitt, úr 10,3 í 22,1 milljón atkvæði.[3]Walter Baier, „Far Right in Austria: We Are Living in Dangerous Times,“ Europe Solidaire Sans Frontières, March 26, 2019. Á sama tíma staðnaði fylgi vinstri flokkanna með um tíu milljón atkvæði. Í kosningum til Evrópuþingsins í maí 2019 minnkaði fylgi vinstri flokkanna enn frekar, um leið og fylgi hægri öfgaflokka jókst enn.

Á síðustu áratugum hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til að endurskipuleggja vinstri öflin. Á Ítalíu er varla nokkuð eftir af hefðbundnum vinstri flokkum. Þeir hafa meira og minna útrýmt sér með misheppnuðum tilraunum til endurnýjunar. Í Frakklandi gengur þróunin í ýmsar áttir. Jean-Luc Mélenchon hefur verið leiðtogi vinstri manna alveg síðan hann gekk úr Sósíalistaflokknum og stofnaði Party de Gauche (Vinstri flokkurinn) árið 2008. Á grundvelli nýja flokksins efndi hann til kosningabandalagsins Front de Gauche (Vinstri fylkingin) 2009, með Kommúnistaflokknum og fleiri samtökum. Bandalagið milli fylgismanna Mélenchon og Kommúnistaflokksins var á hinn bóginn brothætt og leystist að lokum upp. Vinstri fylkingin var þannig formlega lögð niður 2018. Þá þegar hafði Mélenchon myndað næstu stjórnmálasamtök sín, La France Insoumise (Uppreisnargjarna Frakkland). Flokkurinn, eða hreyfingin, náði fyrst árangri í forsetakosningunum 2017 (nærri því 20 prósent í fyrri umferð kosninganna), en náði aðeins 6,3% fylgi í Evrópukosningunum 2019. Hinn hefðbundni og áður fyrr svo öflugi Kommúnistaflokkur er með sitt minnsta fylgi nokkru sinni, með aðeins 2,5% atkvæða í seinustu kosningum, og þar með útilokaður frá Evrópuþinginu í fyrsta sinn síðan 1979. Die Linke (Vinstri) í Þýskalandi náðu heldur ekki góðum árangri í seinustu kosningum, misstu fjórðung stuðnings síns og fengu aðeins stuðning 5,5% kjósenda.

Í Austur-Evrópu eru vinstri flokkar fáir og langt á milli þeirra. Aðeins í Tékklandi tókst vinstri flokki, hinum hefðbundna Kommúnistaflokki landsins, að ná sæti í Evrópuþinginu í kosningunum 2019. Í Slóveníu náði nýr vinstri flokkur, Levica (Vinstri), góðum árangri, en mistókst að ná inn á Evrópuþingið. Í Belgíu hefur fyrrum maóistaflokkurinn Parti du Travail de Belgique (Verkamannaflokkur Belgíu) náð árangri (14,5% í frönskumælandi hluta Belgíu) með skýrri tilhöfðun til verkalýðsstéttarinnar og róttækri stefnuskrá. Í Grikklandi hefur Syriza ennþá mun meira fylgi en flestir aðrir vinstri flokkar í Evrópu (rúmlega 23% fylgi í seinustu Evrópukosningum (flokkurinn fékk 36% fylgi í þingkosningum til gríska þingsins 2015). Þessum árangri náði flokkurinn þrátt fyrir hlutverk þeirra sem tryggir fylgismenn og framkvæmdaaðilar grimmilegra niðurskurðaaðgerða Troikunnar, sem skapaði meiri háttar vandamál fyrir vinstri öflin í Grikklandi rétt eins og alls staðar annars staðar í Evrópu.

Í Evrópuþinginu mynda flestir vinstri flokkarnir Evrópuflokk sameinaðra vinstri flokka/norrænna vinstri grænna, sem nú hefur 41 þingmann eftir Evrópukosningarnar 2019 (fækkun um ellefu þingmenn). Bandalagið samanstendur af blönduðum hópi flokka sem tilheyra mismundandi blæbrigðum vinstri stefnu, þar stundum er erfitt að henda reiður á hvað skilur flokkana að. Sumir segjast ekki vera flokkar í hefðbundnum skilningi, og aðrir hafna því jafnvel að vera vinstri flokkar í hefðbundnum skilningi. Bandalög myndast og breytast, og stundum er stefnumálum jafnvel breytt einungis til að halda þeim saman.

Á sama tíma er barist um forræði á vinstri vængnum í Evrópu með tilraunum til myndunar ýmiskonar nýrra bandalaga, þannig að sumir flokkar enda með því að taka þátt, að því er virðist vandræðalaust, í fleiri en einu bandalagi. Afstaðan til Evrópusambandsins er meira og minna grunnatriði í samkeppni milli þriggja mismunandi bandalaga vinstri flokka.

Fjöldi flokka (sem stendur alls tuttugu og sex) eru meðlimir Evrópska vinstrisins (EL), sem var myndað 2004 og hefur stöðu flokks í kerfi Evrópusambandsins. Evrópusambandið er meira eins og bandalag eða samskiptanet en vel skipulagður flokkur. Fjöldi vinstri flokka er alls ekki í þessu bandalagi. Til viðbót við EL eru tvö önnur samtök sem vinna að myndun bandalaga sem keppa við EL um fylgi vinstri flokka í Evrópu: DiEM25 (Democracy in Europe Movement 2025) og La France Insoumise samtökin sem Mélenchon stofnaði.

Mélenchon hóf að mynda nýtt bandalag vegna þess að hann var óánægður með EL, var andsnúinn uppgjöf Syriza í Grikklandi og vildi skýrari stjórnmálastefnu. Fyrir nokkrum árum dró hann Parti de Gauche úr EL eftir deilur við franska kommúnistaflokkinn. Nýi flokkurinn, La France Insoumise, hefur ekki gengið í EL. Fyrir Evrópukosningarnar 2019 vann hann að því að mynda nýjan hóp sem hefði það hlutverk að snúast gegn kverkataki nýfrjálshyggjunnar í Evrópusambandinu. Hann náði stuðningi við þetta sjónarmið frá Bloco de Esquerda (Vinstri blokkin, Portúgal) og Podemos (Við getum, nýi spænski flokkurinn), og í apríl gáfu þessir flokkar út sameiginlega yfirlýsinu sem kölluð er „Lissabon yfirlýsingin varðandi byltingu borgara í Evrópu: Alþýðan nú!“.[4]Catarina Martins, Jean-Luc Mélenchon, og Pablo Iglesias, „For a Citizen Revolution in Europe – Lisbon Declaration,“ Now the People!, April 12, 2018. Síðar bættust vinstri flokkar í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi við þá sem skrifa undir þessa yfirlýsingu.

Þriðja bandalagið er á vegum Yannis Varoufakis, sem með DiEM25 myndaði bandalag sem miðaði að því að ná árangri í Evrópukosningunum 2025 undir nafninu Vor í Evrópu.[5]Yannis Varoufakis er prófessor í stjórnmálahagfræði, fyrrverandi þingmaður á gríska þinginu fyrir Syriza, og var fjármálaráðherra í stjórn Alexis Tsipras þar til hún gafst upp … Continue reading Miðlægt í stefnuskrá þessa bandalags var verkefnið A New Deal for Europe, (Ný gjöf fyrir Evrópu), sem er innblásið af endurbótastefnu Franklin D. Roosevelt fyrir Bandaríkin á 4. áratug 20. aldar.[6]DiEM25, European New Deal (DiEM25, 2017). DiEM25, sem hvorki skilgreinir sig sem flokk né lítur á sig sem hluti vinstri hreyfingar, reyndi að ná til fylgis við sig breiðara svið samtaka en Bloco de Esquerda og Podemos, oft litlum og tiltölulega nýjum fylkingum. Þetta lýsir einnig vantrú Varoufakis á stórum, hefðbundnum vinstriflokkum. Þótt Varoufakis næði ekki inn á Evrópuþingið með framboði sínu í Evrópukosningunum í Þýskalandi, þá olli hann umtalsverðum titringi í Die Linke með því. DiEM25 náði engum sætum á Evrópuþinginu í kosningunum 2019. Á hinn bóginn vann gríska deildin níu sæti í grísku þingkosningunum skömmu síðar, þar á meðal eitt sæti fyrir Varoufakis. Það má benda á að bónapartískar tilhneigingar hafa komið í ljós í stjórnmálum í Evrópu – þ.e. einstaklingar brjóta sig út úr flokkum og byggja upp flokka eða hreyfingar sem miða að því að vinna sæti fyrir þá sjálfa. Þetta sýnir meir en nokkuð annað hina djúpu stjórnmálakreppu á öllu stjórnmálasviðinu í Evrópu. Á vinstri vængnum sýna bæði DiEM25 og La France Insoumise skýrar bónapartískar tilhneigingar þeirra Varoufakis og Mélenchon, með lauslegum samtökum sem skortir lýðræðislegt skipulag, með því að byggja á samfélagsmiðlum, einbeita sér að því að vekja athygli fjölmiðla og með sterkri stöðu öflugra foringja. Podemos er líklega einnig meira stýrt af þröngum hópi háskólamanna úr Háskóla Madridborgar, sem stofnaði samtökin, en forystan vill viðurkenna. Með þeirri af-lýðræðisvæðingu sem að lokum varð undir forystu Alexis Tsipras, hefur Syriza einnig sýnt svipaða tilhneigingu, þó sá flokkur hafi hefðbundið flokksskipulag.

Vaxandi gagnrýni á stefnu Evrópusambandsins

Sósíaldemókratar, sem og ráðandi öfl innan verkalýðssamtaka Evrópu hafa af staðfestu stutt Evrópusambandið af miklum áhuga, þótt þeir hafi stundum gagnrýnt ákveðna þætti í stefnu þess. Í mörgum löndum, sérstaklega á Norðurlöndunum, en einnig í Frakklandi (Kommúnistaflokkurinn) börðust vinstri flokkarnir gegn aðild að Evrópusambandinu þegar taka skyldi ákvörðun um aðild. Eftir því sem árin liðu hefur kröfunni um úrsögn hins vegar verið æ minna haldið á lofti af þessum flokkum.

Hvað hefur gert að verkum að afstaðan til Evrópusambandsins hefur verið svo mikið vandamál, nánast óyfirstíganlegt í mörgum vinstri flokkum Evrópu? Í fyrsta lagi má nefna hugmyndafræðilega frásögnin eða narratívið sem lagt var upp með við stofnun Evrópusambandsins (eða Efnahagsbandalags Evrópu eins og það nefndist þá), sem innihélt tvö mikilvæg markmið: Að Evrópusambandið skyldi leggja grunn að varanlegum friði í Evrópu og að það yrði verkfæri til félagslegra framfara meðal þjóðanna sem það mynduðu. Að afloknum tveimur skelfilegum heimsstyrjöldum, sem báðar hófust vegna átaka milli evrópskra þjóðríkja, voru pólitísk áform um að tryggja frið mjög aðlaðandi. Nær allir á stjórnmálasviðinu, alveg frá hægri til vinstri studdu og styðja enn þessi áform. Þessu til viðbótar fannst flestum, vegna þróunar velferðarkerfa á eftirstríðsárunum, sem félagslegar framfarir væru í gangi.

Annar sögulegur viðburður var stjórn Francois Mitterand í Frakklandi frá 1981 til 1995. Mitterand hóf að framkvæma róttæka, vinstrisósíalíska lýðræðisstefnuskrá sem fól í sér víðtæka þjóðnýtingu, kjarabætur í gegnum skattkerfi og ýmis frekari stjórnmálamarkmið af því tagi á mörgum sviðum. Verkalýðshreyfingin leit á þetta sem upphafið að því að byggja upp sósíalíska Evrópu. Eftir aðeins tæp tvö ár var endurbótaáætlun Mitterands hins vegar lögð á hilluna. Enn er deilt um orsakir fyrir þessu hruni vinstri stefnu, sem og um það hvort unnt sé að endurreisa þessi stefnumið. Hér skipti hinsvegar máli að Frakkland hafði þegar lofað að taka þátt í myntbandalagi Evrópu, og það réði úrslitum varðandi framgang hinnar róttæku stefnuskrár, takmarkaði þá eins og nú hina pólitísku möguleika vinstri stefnu.

Mitterand beygði sig því fyrir kröfum Evrópusambandsins, og forsetatíð hans var síðasta tilraun af sósíaldemókratískum toga þar sem reynt var að framkvæma altækar sósíalískar umbætur í Evrópu (mögulega með undantekningu nokkru síðar þegar launþegasjóðaáætlun sænskra sósíaldemókrata mistókst seinna á níunda áratugnum). Mitterand dró ásamt með fjármálaráðherra sínum Jaqcues Delors þá ályktun af þessari reynslu að framtíð sósíalískrar stefnumótunar (eða sósíaldemókratískrar, stefnu byggðri á keynesisma) yrði að tengjast þróun Efnahagsbandalagsins fremur en einstakra þjóðríkja. Þar af leiðandi varð það markmið franskra sósíalista, og síðan sósíaldemókrataflokka í Evrópu, að vinna að aukinni samþættingu evrópskra hagkerfa. En eins og félagfræðingurinn Martin Höpner í Max Planck stofnuninni í Köln segir, „það er goðsögn að segja að ´meiri Evrópa´ leiði okkur nær félagslegri Evrópu.“[7]Martin Höpner, „Social Europe Is a Myth,“ Social Europe, November 5, 2018.

 Þessi hugmynd um Evrópusamband friðar og félagslegs réttlætis hefur fram að þessu verið ráðandi. Smám saman hafa bæði franskir sósíalistar og aðrir farið að spyrja spurninga í tengslum við þessa goðsögn. Þeir sáu að hagkerfin voru samþætt – og „höft“ afnumin – en lítill árangur náðist varðandi þar sem þeir kölluðu félagslega stoðin. Um leið og yfirlýst markmið var að ná tökum á markaðsöflunum með sterkari stjórnmálaafskiptum og reglugerðum í gegnum Evrópusamandið, reyndist raunin sú að markaðsöflin styrktust stöðugt, en félagslegt réttlæti var varla sjáanlegt.

 Það er enn ósvöruð spurning hvernig sósíalistar og sósíaldemókratar gátu trúað því svo auðveldlega að yfirþjóðleg stofnun eins og Efnahagsbandalag Evrópu – byggt á fjórfrelsinu (frjáls hreyfing fjármagns, vöru, þjónustu og einstaklinga) sem eru kjarnaþættir grundvallarsáttmála hennar (Rómarsáttmálinn frá 1957), og algjör fjarvist lýðræðislegra ferla – gat verið verkfæri félagslegs réttlætis í Evrópu. Enn dularfyllra er hvernig þeirri trú var viðhaldið, jafnvel eftir tilurð innri markaður Evrópusambandsins 1986, eftir Maastrichtsáttmálann (1992, sem leiddi til frekari samþættingar og myndunar Evrópusambandsins), Lissabonsáttmálans (2007, uppdubbuð útgáfa af stjórnarskrá sem bæði Frakkar og Hollendingar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2005) og langa röð annarrar löggjafar af nýfrjálshyggjusauðahúsi, sáttamála og samninga af sama tagi. Tvenns konar þróun er mikilvægt að skilja til að átta sig betur á vaxandi gagnrýni á Evrópusambandið af hálfu vinstri flokka á síðari árum. Annars vegar er þróun stofnana Evrópusambandsins og stjórnmálastefnu þess eftir fjármálahrunið 2008 og kreppuna í gjaldeyrissamstarfi Evrópu árið 2009. Hin er þáttur Evrópusambandins í því að brjóta á bak aftur vinstri stefnumið Syriza stjórnarinnar eftir kosningarnar 2015.

Til að bjarga fjármálamörkuðum, og jafnvel kapítalismanum, frá djúpri fjármálakreppu og evrukreppu, þá mokuðu ríkisstjórnir og Evrópusamband peningum inn í einkabanka. Þetta leiddi til mikils halla á ríkissjóðum og gríðarlegrar aukningu ríkisskulda í mörgum aðildarlöndum. Með stöðugleika- og vaxtarsáttmálann að vopni krafðist Evrópusambandið endurnýjunar efnahagslegs jafnvægis, eða jafnvægis í ríkisfjármálum, sem leiddi til gríðarlegs niðurskurðar í útgjöldum, mikillar lækkunar á launum í opinbera geiranum, sprengingar í atvinnuleysi og umfangsmikilla árása á réttindi verkalýðs, eftirlaun og vinnuaðstæður (sem kallað er innri gengisfelling, við aðstæður þar sem þjóðríki á evrusvæðinu gátu ekki lengur fellt gengi gjaldmiðils síns). Ekki var aðeins um að ræða að félagsleg réttindi í Evrópusambandinu væru vanrækt rétt eina ferðina, þau sættu nú gríðarlega hörðum árásum, og gagnrýni frá vinstri öflunum og óánægja almennings jókst mjög.

Hegðun Troikunnar gagnvart Syriza stjórninni leiddi til frekari gagnrýni frá vinstri. Sú staðreynd að Seðlabanki Evrópu beitti einokunarvaldi sínu til að stöðva flæði peninga til grískra banka með það að markmiði að knésetja ríkisstjórnina sýndi greinilega hvar valdið lá, hve grimmilega mætti beita því, og hversu valdalaust eitt (og lítið) ríki gat verið þegar það var beitt slíku ofbeldi. Sú staðreynd að ríkisstjórn Tsipras hafði hvorki getu né vilja – né hafði hún undirbúið nokkuð slíkt – til að snúast gegn þessu ofbeldi með eina tækinu sem hún gat beitt, að draga sig úr efnahags- og myntbandalaginu og þar með úr evrusamstarfinu, leiddi til uppgjafar hennar.

Er unnt að endurnýja Evrópusambandið innanfrá?

Viðbrögð margra var að Evrópusambandinu þyrfti að breyta, og að þetta yrði að gera með baráttu sameinaðra vinstri afla í Evrópu. Um leið fóru hins vegar nýjar móthverfur að birtast. Sumir á vinstri vængnum fóru að spyrja úrslitaspurningar: Væri yfirhöfuð mögulegt að endurbæta Evrópusambandið innanfrá? Hvað gerist ef vinstri öflin vinna sigur í kosningum í okkar landi og okkur er ekki leyft að framkvæma stefnu okkar? Uppgjöf Syriza frammi fyrir Evrópusambandinu og Troikunni ýtti mjög undir þessa umræðu, þar sem bent var á þann möguleika að draga sig úr evrusamstarfinu eða jafnvel úr Evrópusambandinu sjálfu. Varoufakis hefur orðið öflugur talsmaður þess að endurnýja Evrópusambandið innanfrá. Stofnskjal DiEM25, sem hann stofnaði eftir að hafa sagt sig úr Syriza, innihélt eftirfarandi þrjár kröfur á hendur Evrópusambandinu: (1) umsvifalaust verði komið á fullkomnu gegnsæi í vinnu allra miðlægra ES stofnana, (2) Ábyrgð verði aftur tekin upp á opinberum skuldum, bankakerfinu, fjárfestingum, innflytjendum og stjórn á dreifingu af hálfu þjóðþinga innan árs, sem framkvæmd verði af þeim stofnunum sem fyrir eru með skapandi túlkun á sáttmálum og samningum; og (3) komið verði á fót stjórnarskrárþingi innan tveggja ára, sem hafi það hlutverk að umbreyta Evrópu í fullkomið lýðræðisríki með fullvalda þingi sem virði þjóðlegt sjálfstæði og deili völdum með þjóðþingum, og svæðaþingum og sveitastjórnum í síðasta lagi árið 2025.[8]DiEM25, The EU Will Be Democratised, or It Will Disintegrate! (DiEM25, 2016)

Í viðtali við Jacobin segir Varoufakis eftirfarandi um markmið sín og DiEM25 varðandi umbreytingu Evrópusambandsins innanfrá: „Þannig er skylda okkar að sýna Evrópubúum að það sé fullkomlega mögulegt (en auðvitað ekki auðvelt) að taka yfir stofnanir ES, endurbæta stjórnarhætti og stefnu þeirra varðandi það hvað Evrópa ætti að vera, og hefja umræðu í grasrótinni um hvers konar lýðræðisstofnun Evrópusambandið ætti að vera.“[9]Yanis Varoufakis, „How Should the Left Approach Europe? Interview, along Manuel Bompard, by Jacobin (France),“ Yanis Varoufakis (blog), September 12, 2018.

Ekkert minna en það! Það hlýtur að verða að segja að þetta hljómar nokkuð einfeldningslegt, sérstaklega þar sem þessi stefna er hvorki studd af greiningu á valdatengslum og valdainnviðum innan Evrópusambandsins, né af vel útfærðum tillögum um hvernig eigi að að berjast fyrir og fá þessi áform í gegn – og hverjir eigi að berjast.

Sumir á vinstri vængnum hafna öllum hugmyndum um að yfirgefa Evrópusambandið út frá grundvallarsjónarmiðum og hugmyndafræði. Þeir líta svo á Evrópusambandið, og jafnvel efnahags- og myntsamstarfið sé í sjálfu sér sögulega framsækin þróun sem hefur yfirunnið þjóðríkin sem fyrirbæri og ætti því að verja. Það að segja sig úr efnahags- og myntsamstarfinu eða yfirgefa Evrópusambandið er í þessu samhengi ekki aðeins talið tilgangslaust, heldur einnig hættulegur leikur sem leiðir til stuðnings við þjóðernisleg og einræðisleg öfl yst á hægri væng. Evrópusambandið verði að verja í nafni alþjóðahyggju, en um leið að berjast gegn nýfrjálshyggju þess. Margir þeir sem þessu halda fram eru sósíaldemókratar, þótt lítið hafi sést til baráttu þeirra innan ES gegn nýfrjálshyggju. Margar þessara hugmynda má einnig finna í stórum hlutum vinstri hreyfingar.

 Costas Lapavistas, prófessor í hagfræði í University of London, sem var kjörinn á þing í Grikklandi af lista Syriza í janúar 2015, en sem sagði sig úr þeim flokki og sagði skilið við Tsipras eftir uppgjöf hans fyrir Troikunni, hefur tekið mikinn þátt í umræðunni. Við þá sem líta á Evrópusambandið sem alþjóðahyggju holdi klædda sem þarf að styðja, segir hann:

Þar liggur hundurinn grafinn varðandi evrópska vinstri hreyfingu nú á tímum. Tryggð þess við ES sem framsækið fyrirbæri í sjálfu sé hindrar hana í því að vera róttæk, og samsamar hana nýfrjálshyggjuburðarvirkjum evrópsks kapítalisma. Vinstri hreyfingin hefur æ meir misst tengsl við sögulega umbjóðendur sína, verkamenn og fátæklinga Evrópu, sem að sjálfsögðu hafa leitað fyrir sér annars staðar með að öðlast pólitíska rödd. … Tómarúmið sem vinstri hreyfingin hefur þannig skapað hefur stöðugt verið fyllt af einhverjum verstu stjórnmálaöflum í Evrópu, þar á meðal öfgahægriöflum.[10]Lapavitsas, The Left Case Against the EU, 129–30.

Lapavistas, eins og margir aðrir á vinstri vængnum, lítur nú á Evrópusambandið sem hindrun á þeirri vegferð að framkvæma framsækna vinstri stefnu, ekki síst í ljósi reynslunnar í Grikklandi. Þau halda því fram að bæði Evrópusambandið og Efnahags- og myntsamstarfið hafi öflugar innbyggðar stofnanalega hindranir. Í grein sem ég hef áður skrifað benti ég á sex slíkar hindranir:

  • Lýðræðishalla, sem hefur aukist fremur en minnkað á síðustu árum.
  • Stjórnarskrárbundna nýfrjálshyggju, sem bannar með lögum sósíalisma og keynesisma í Evrópusambandinu.
  • Óafturkallanlega löggjöf, þar sem 100 prósent samþykki þarf til að breyta sáttmálum.
  • Evran sem efnahagsleg spennitreyja, með seðlabanka sem ekki lýtur lýðræðislegri stjórn.
  • Ójöfn þróun einstakra ríkja innan sambandsins, sem gerir samstillta andspyrnu erfiða.
  • Hið mikla hlutverk Evrópudómstólsins, með hinn svokallaða Laval-kvartett sem gott dæmi (2007 og 2008 dæmdi stóllinn í fjórum mikilvægum málum verkalýðshreyfingu og varðandi réttindi verkalýðsfélaga verkalýðshreyfingunni í óhag).[11]Ýtarlega framsetningu á þessu viðhorfi má finna í Asbjørn Wahl, „European Labor: Political and Ideological Crisis in an Increasingly More Authoritarian European Union,“ Monthly Review 65, … Continue reading
  • Nú má bæta við: Víðtækt kerfi fjárhagslegra refsiaðgerða ef nokkur dirfist að brjóta sáttmála, þótt nú hafi COVID-19 kreppan leitt til þess að refsiaðgerðir sem taldar eru mögulegar samkvæmt Stöðugleika- og vaxtarsáttmála ES hafa verið felldar úr gildi í bili.

Plan B: Að segja upp sáttmálunum

Á hinn bóginn er sú afstaða að berjast fyrir endurbótum, að ekki sé sagt byltingu, á Evrópusambandinu innanfrá er líklega afstaða meirihluta vinstri hreyfingarinnar, að minnsta kosti í verki, sem leið til að gera aðra Evrópu að raunveruleika. Önnur afstaða hefur smám saman orðið til í kring um það sem kallað er Plan B, sem Mélenchon mótaði fyrstur manna. Þessi stefna hefur nokkuð breyst og skipt um innihald síðan hún var fyrst mótuð. Hugmyndin var lögð fram út frá reynslunni af ósigri Syriza í Grikklandi – með það markmið að tryggja að slíkt gæti aldrei nokkurn tímann gerst aftur.

Stefnan hefur tvo meginþætti. Fyrst er um að ræða skýra áætlun um hvað eigi að gera til að takast á við stofnanir Evrópusambandsins ef vinstri hreyfingin sigrar í einhverju aðildarríki. Síðan er þörf á að mynda bandalag í Evrópu, bandalag flokka, hreyfinga og hagfræðinga sem mótað gætu sameiginlega stefnu í slíkum átökum – stefnu sem samþættir viðræður og möguleika á því að draga ríki út úr evrusamstarfinu, sem og úr sáttmálum, samningum og öðru samkomulagi.

Sú fyrsta af mörgum Plan B ráðstefnum var haldin í París í janúar 2016, og var skipulögð af Mélenchon ásamt með, meðal annarra, Varoufakis, Stefano Fassino fyrrum fjármálaráðherra Ítalíu, og fyrrum sósíaldemókratanum, þýska fjármálaráðherranum og síðar leiðtoga Die Linke Oskar Lafontaine. Varoufakis dró sig út úr samstarfinu eftir fyrsta fundinn þegar hann setti á stofn DiEM25 – nákvæmlega með það fyrir augum að endurbæta Evrópusambandið innanfrá. Plan B hefur starfað sem nokkuð lauslegt og sveigjanlegt samband samtaka, sem hafa tekið misoft þátt í ráðstefnum. Upphafleg var á ráðstefnunum blandaður hópur frá vinstri sinnuðum stjórnmálaflokkum, verkalýðsfélögum, félagshreyfingum og öðrum samtökum. Smám saman hefur samstarfið þróast út í að vera takmarkaðra við vinstri flokka.

Enn er nokkuð óskýrt hvernig samtökin ætti að skilja, og ekki síst, hvernig ætti að nýta þau ef pólitískt ástand gerir það mögulegt. Eftirfarandi atriði, þótt ekki séu tæmandi, gefa hugmynd um hvað Plan B snýst.

  • Það einbeitir sér að því að skoða hvað má og á að gera þegar vinstri öflin hafa náð að komast í ríkisstjórn í einu eða fleiri meðlimaríkjum og hefja að framkvæma stefnu sem stangast á við reglur og reglugerðir Evrópusambandsins.
  • Framkvæma á Plan B ef Plan A verður hafnað. Hið síðara er einfaldlega venjulegar viðræður við stofnanir ES, með það að markmiði að ná sátt um hvaða stefnu má framkvæma innan þeirra marka sem sáttmálar og lög ES leyfa.
  • Framkvæmd Plans B þýðir að vinstri ríkisstjórnir fallast ekki á hindranir sem Evrópusambandið reynir að beita, en stefna opið og skipulega að því að brjóta þá sáttmála sem við eiga með það að markmiði að framkvæma eigin efnhagsumbætur og stjórnmálalegar endurbætur innan ramma þjóðríkisins, og um leið leita stuðnings við slíka framkvæmd um Evrópu alla til að styðja slíka þróun.

Stundum fær maður það á tilfinninguna að Plan B eigi fyrst og fremst að vera til aðvörunar, eða til að nota í viðræðum Plans A. Kannski trúir Mélenchon því að Frakkland sé nógu stórt og mikilvægt til að geta komið í gegn stefnu sem gengur gegn regluverki Evrópusambandsins með hótunum eingöngu. Kapítalísk öfl hafa náð sterkri stöðu og stofnanavaldi á löngu tímabili árása nýfrjálshyggjunnar á samfélögin og með því að efla stöðugt æ einræðislegri, yfirþjóðlegri og nýfrjálshyggjulegri ríkisgerð í gegn um Evrópusambandið. Þessi öfl munu ekki svo auðveldlega gefa slíkt upp á bátinn án mótspyrnu.

Skortur á greiningu og mati á þessu valdakerfi er veikleiki við Plan B, sem verður að taka með í reikninginn möguleikann á hörðum átökum við Evrópusambandið ef slíkri stefnu á að vera unnt að koma í verk. Ríkisstjórn sem velur að taka slíkt skref verður þess vegna að vera tilbúin að gefa bæði aðild að efnahags- og myntbandalaginu (evrunni) og Evrópusambandinu upp á bátinn. Þetta er ekki síst vegna þess að Evrópusambandið hefur eftir fjármálakreppuna og evrukreppuna sett nýjar reglugerðir og gert sáttmála sem setja aðilalöndum mjög þröngar skorður, þar á meðal harðar refsingar við öllum brotum. Plan B verður því að vera miklu nákvæmara og ákveðnara, sem og betur kynnt meðal almennings, ef það á að gagnast í framtíðinni til góðra verka.

Það er einnig spurning hversu djúprættur stuðningurinn við Plan B er í mörgum flokkanna. Fyrir suma flokka sem eiga langt í land með að komast í ríkisstjórn virðist það aðeins óraunveruleg kenning eða líkan. Fyrir aðra, þá er ekki samstaða um afstöðuna til Evrópusambandsins sem vel kom í ljós á Plan B ráðstefnu í Stokkhólmi í apríl 2019, þegar fulltrúar frá litlum pólskum vinstri flokki, Razem, breski Verkamannaflokkurinn og írski flokkurinn Sinn Fein komu fram sem dyggir stuðningsmenn Evrópusambandsins. Þáttakendur í ráðstefnunni ræddu ýmis pólitísk vandamál Evrópu nú á tímum, en sjálft Plan B var ekki mikilvægt efni, þótt gagnrýni á nýfrjálshyggju Evrópusambandsins væri mikil.[12]„Plan B,“ Vänsterpartiet, April 12, 2019.

Fallbyssufóður fyrir rasista og þjóðernissinna

Á meðan vinstrihreyfingin hefur skerpt gagnrýni sína á Evrópusambandið og að sumir flokkar séu því hjartanlega sammála að nauðsynlegt geti orðið að rjúfa sáttmála Evrópusambandsins við ýmsar aðstæður, þá bendir önnur stjórnmálaþróun í þveröfuga átt. Ýmsir vinstrisinnaðir stjórnmálamenn og aktívistar, sem voru upphaflega mjög gagnrýnir á Evrópusambandið, hafa átt í vandræðum með þá gagnrýnu afstöðu vegna vaxandi andúðar hægri aflanna í garð  Evrópusambandsins. Þetta var sérstaklega áberandi á meðan á kosningabaráttunni fyrir  Brexit kosningarnar í Bretlandi stóð. Á meðan baráttan stóð, fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní 2016, hitti ég töluverðan fjölda af vinstrisinnuðu fólki sem hefði við eðlilegar aðstæður bæði barist fyrir og kosið að Bretland færi úr Evrópusambandinu, en gerði það ekki vegna þess að það vildi ekki vera fallbyssufóður fyrir rasista og þjóðernissinna. Röksemdin var sú að flokkar og hreyfingar yst á hægri væng væru hreyfiöflin á bak við Brexithreyfinguna, og rasismi, útlendingahatur og hægri þjóðernisstefna væru ráðandi viðhorf.

Þessi ótti við að ganga í lið með hægri öfgaöflum í andstöðu við Evrópusambandið hafði komið í ljós meðal evrópskra vinstrimanna jafnvel áður en Brexitkosningarnar fóru fram. Ég hef oft og lengi orðið var við þennan ótta á fundum og ráðstefnum hinna ýmsu vinstrihreyfinga eða samtaka í Evrópu. Til viðbótar því að hafa áhyggjur af því að vera bendlaðir við rasisma og þjóðernisstefnu af hægri gerð, þá trúa sumir því að hvers konar úrsögn eða sundrun í Evrópusambandinu myndi aðeins styrkja þessi hægri öfl, sem sagan sýnir raunar að er hættuleg blanda í Evrópu. Rökrétt niðurstaða sé þá sú að Evrópusambandinu verði að breyta innanfrá með aðgerðum félagshreyfinga.

Sænski Vinstriflokkurinn er nýlegt dæmi um það hvernig slíkar röksemdir hafa náð fótfestu meðal vinstri aflanna í Evrópu. Annars vegar er flokkurinn hluti af Plan B samtökunum. Hins vegar ákvað flokkurinn á ráðstefnu í febrúar 2019 að falla frá fyrri stefnu um að Svíþjóð ætti að ganga úr Evrópusambandinu. Í viðtali gaf flokksleiðtoginn Jonas Sjöstedt þrjár ástæður fyrir stefnubreytingunni.[13]Ingrid Grønli Åm, „Vi stiller oss ikke på samme side som rasister og nasjonalister,“ Morgenbladet, 27. mars, 2019. Í fyrsta lagi hefðu pólitískar aðstæður breyst, ekki síst vegna slæmrar loftslagskreppu, en einnig vegna vaxandi hægri öfga. Í öðru lagi vildi Vinstriflokkurinn ekki „vera í sama liði og rasistar og þjóðernissinnar“ – þar var átt við Brexit hreyfinguna. Í þriðja lagi hefði evrópska vinstrihreyfingin orðið gagnrýnni en áður á Evrópusambandið, svo Vinstriflokkurinn hefði fengið bandamenn við greiningu sína á Evrópusambandinu. Af þessum ástæðum ættu vinstri menn í Evrópu að takast á við Evrópusambandið og berjast fyrir betra sambandi, sagði Sjöstedt.

Ekki er ljóst af fjölmiðlaumfjöllun eða viðtalinu við Sjöstedt hvort stefnubreytingin varðandi útgöngu úr Evrópusambandinu er aðeins skammtíma, taktísk ákvörðun byggð á aðstæðum nú, eða hvort um er að ræða varanlega stefnubreytingu. Munurinn á þessum tveimur viðhorfum er gríðarlegur, þar sem um er að ræða algerlega ólíkt mat á því hversu gerlegt er að umbylta Evrópusambandinu. Það eru margar ástæður fyrir því að leggja ekki mikla áherslua á slagorð eins og „út úr Evrópusambandinu“ við núverandi ástand í Svíþjóð. Við aðstæður eins og í Grikklandi, þar sem vinstri hreyfingin kemst í stjórn, er um að ræða úrslitaspurningu. Kröfur um að draga sig úr evrunni eða Evrópusambandinu eru ekki bara draumórar, þær ákveða möguleika vinstri stjórnar á að framkvæma stefnu sína, eða gefast upp.

Sjöstedt var spurður beint hvort það væri „sniðugt að falla frá stefnumáli vegna þess að einhver sem þú ert ósammála er á sama máli?“ Svar hans vekur nýjar spurningar: „Ég held að framsækin gagnrýni á Evrópusambandið sem er ráðandi á Norðurlöndunum verði að draga skýra línu gegn þjóðernisstefnu og rasisma. Við erum ekki bandamenn Ukip [hægri flokkur í Bretlandi sem fyrst og fremst var myndaður til að berjast fyrir Brexit]. Ekki í sama liði og rasistar sem gagnrýna ES. Við höfum gjá sem skilur okkur að. Það verður að vera skýrt.“[14]Grønli Åm, „Vi stiller oss ikke på samme side som rasister og nasjonalister.“

Þessa stjórnmálaspeki er ekki auðvelt að skilja. Ef það er gjá sem skilur að gagnrýni Vinstriflokksins á Evrópusambandið og gagnrýni rasista og þjóðernissinna, hvað er þá vandamálið? Af hverju þarf Vinstriflokkurinn að breyta hluta af Evrópusambandsstefnu sinni til að forðast að lenda í sama liði og rasistar og þjóðernissinnar? Er ekki mikilvægt að Vinstriflokkurinn haldi fram vel grundaðri gagnrýni á Evrópusambandið og stjórnarfar þess, jafnvel þótt það myndi leiða til útgöngu úr Evrópusambandinu, ef það er nauðsynlegt til að ný stefna beri árangur?

Sú staðreynd að baráttunni fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var stjórnað með þjóðernisstefnu og útlendingaandúð að markmiði, eins og Sjöstedt bendir á, er mjög góð ástæða til að gagnrýna bæði Verkamannaflokkinn, Momentum (sem studdi Verkamannaflokkinn í kosningum), og verkalýðshreyfinguna fyrir að hafa ekki lagt fram eigin gagnrýni á bæði Evrópusambandið og öfgahægriöflin. Þessir aðilar hefðu getað tjáð réttláta óánægju almennings með Evrópusambandið og stefnu þess, breytt henni í nýja stjórnmálahreyfingu og snúið henni upp í baráttu gegn stöðugt ólýðræðislegra Evrópusambandi, sem þar að auki markast æ meir af nýfrjálshyggju.

Á hinn bóginn þá eru stórir hlutar Verkamannaflokksins og Momentum, og enn stærri hlutar verkalýðshreyfingarinnar í Bretlandi dyggir stuðningsmenn Evrópusambandins. Þannig svipta þeir sig tækifærinu til að tjá raddir hinnar gríðarlegu óánægju almennings sem er réttmæt og hefur hlaðist upp gegn nýfrjálshyggju Evrópusambandsins á síðustu áratugum. Með öðrum orðum þá gáfu þeir ysta hægrinu einkarétt á hörðustu gagnrýninni á Evrópusambandið, og gáfu um leið frá sér möguleikann á að há baráttuna út frá eigin stjórnmálaramma og hugmyndafræði. Það er ekki undarlegt að baráttan fyrir útgöngu Breta úr ES hafi einkennst af þjóðernisstefnu og útlendingahatri.

Lágvær stéttabarátta

Stjórnmálaþróun samfélagsins verður ekki skýrð ef ekki er tekið tillit til þróunar stéttabaráttunnar. Það eru ekki nýjar fréttir að vinstri hreyfing og verkalýðshreyfing í Evrópu séu í vanda, þótt aðstæður séu ólíkar eftir löndum. Það sem sérstaklega einkennir hlutverk og eðli Evrópusambandsins varðandi þennan vanda er þróun þess frá keynesísku forræði til forræðis nýfrjálshyggjuhugmynda bæði á stjórnmálasviði og á efnahagssviði. Upptaka sameiginlegs gjaldmiðils, evrunnar, og sú leið sem var farin við það var afgerandi skref í þróun nýfrjálshyggju í Evrópusambandinu. Þetta hefur einnig styrkt stöðu kapítalista í baráttu þeirra við verkalýðshreyfinguna, sem auðvitað hefur haft áhrif á vinstriflokkana í Evrópu.

Eftir fjármála- og evrukreppuna 2007–2009, var afturhaldssinnuð niðurskurðarstefna Evrópusambandsins efld og tók um leið æ ólýðræðislegri form, sem voru njörvuð niður í stofnanir með nýrri lagasetningu (svo sem „six-pack“, „two-pack“, „European Semester“, Fjármálasáttmálinn o.s.frv.) og hlutverk Evrópudómstólsins var aukið með Laval kvartettinum áðurnefnda. Niðurrif velferðarríkja og undirokun verkalýðshreyfingarinnar hefur þannig orðið inngróinn hluti af nútímastefnu Evrópusambandsins og stofnana þess, sem er mjög langt frá ætlaðri félagslegri framsækni þess.

Þetta hefur leitt til stórkostlegrar veikingar verkalýðshreyfingarinnar, sem hefur misst helming meðlimafjölda síns milli 1980 og 2015. Hnignunin hefur verið mest í einkageiranum. Afiðnvæðing eða flutningur iðnfyrirtækja til Asíu og annarra láglaunalanda (alþjóðavæðing auðmagns) hefur enn fremur átt þátt í að veikja verkalýðshreyfinuna á svæðum þar sem hún hefur vanalega verið sterkust, best skipulögð og baráttuglöð. Þessu til viðbótar hefur vaxandi atvinnuleysi veikt samningsstöðu verkalýðsfélaga, um leið og grafið hefur verið undan réttindun verkalýðsfélaga með lagabreytingum, þar á meðal takmörkunum á samningsrétti og rétti til verkfalla.

Við þessar aðstæður eru verkalýðsfélagin í vörn og í djúpri stjórnmálalegri og hugmyndafræðilegri kreppu. Sérstaklega hafa margar af stofnunum verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu fjarlægt sig frá meðlimunum sem þær ættu að vera að verja. Þær halda enn í sögulegu sáttina milli verkalýðs og auðmagns, sem var stjórnmálagrundvöllur hagvaxtar og auðlegðar á eftirstríðsárunum, en hefur verið rofin af atvinnurekendum eftir því sem valdataflið hefur snúist þeim í hag. Gróf niðurskurðarstefna Evrópusambandsins er þannig túlkuð sem röng stefna, ekki sem einkenni ólíkra stéttahagsmuna. Verkefnið verður þá að sannfæra ríkisstjórnir og vinnuveitendur, með félagslegu samtali, um að stefna þeirra sé röng og verði að breyta, fremur en að kveða út liðsafla og berjast fyrir því að breyta jafnvægi stéttakraftanna.

Kreppu stjórnmálarms vinstri hreyfingarinnar verður að skoða í samhengi við þessa þróun í stéttabaráttunni – með verkalýðshreyfingu sem hefur djúpar rætur í þeirri hugmyndafræði sem grundvallaði samfélagssáttmála eftirstríðsáranna og almennt lágværri stéttabaráttu. Þannig er auðvitað engin sérstök pressa á vinstri flokkana utan frá heldur, og þá er æ meiri hætta á því að þeir flækist í net stjórnarstofnana Evrópusambandsins í Brüssel.

Evrópska vinstrihreyfingin: Greining

Eins og komið hefur fram að ofan er evrópska vinstrihreyfingin blandaður hópur samtaka. Lengst af síðustu öld voru tvær meginstefnur í stjórnmálum ráðandi í verkalýðshreyfingunni: kommúnismi og sósíaldemókratismi. Við hrun austurblokkarinnar og samfélagssáttarinnar í Vestur-Evrópu virðast báðar þessar stefnur hafa beðið skipbrot. Hefðbundnir kommúnistaflokkar í Vestur-Evrópu, allt frá þeim sem voru hvað hollastir Moskvulínunni til evrókommúnista sem höfðu gert upp við Sovétríkin að einhverju marki (eins og á Ítalíu og Spáni), misstu smám saman fylgi. Á undanförnum árum hafa svo hefðbundnir sósíaldemókrataflokkar hrunið einn af öðrum. Þeir sem enn standa, yfirleitt minni en áður, hafa gefið hefðbundna stefnu sína upp á bátinn og tekið upp eins konar mjúka útgáfu af nýfrjálshyggju.

Margir núverandi vinstriflokka í Evrópu eru nýrri af nálinni, þar á meðal flokkar sem hafa orðið til við samruna ýmissa smærri hópa og flokka, en hafa ekki sérstaklega sterk tengsl við eldri hefðir. Flestir þeirra reka tiltölulega hófsama stefnu. Margir þeirra hafa litla fótfestu í verkalýðsstétt eða verkalýðshreyfingu. Mjög fáir þessir flokkar hafa skýra sósíalíska stefnu eða greiningu á efnahagsmálum eða valdakerfum. Miklu fremur einkennast þeir af frjálslyndi og sósíaldemókratískum hneigðum (rými fyrir slík viðhorf hefur stækkað á undanförnum árum, eftir að hefðbundnir flokkar hafa tekið upp æ fleiri stefnumið nýfrjálshyggjunnar).

Með ákveðnum undantekningum eru þessir flokkar fyrst og fremst þingpallaflokkar og einbeita sér að fáum vinsælum málum sem unnt er að ná athygli í fjölmiðlum út á, um leið og getan til að efla félagshreyfingar meðal almennings er lítil. Það má segja að við séum í miðju augnablikinu sem Gramsci lýsir, þar sem hið gamla er deyjandi og hið nýja nær ekki að koma í heiminn.

Wolfgang Streeck, sem er þýskur félagsfræðiprófessor, forstjóri Max Planck stofnunarinnar og fyrrum sósíaldemókrati, lýsir veikleikum vinstri hreyfingarinnar og frekari hnignun í Evrópusambandskosningum á árinu 2019 með eftirfarandi hætti:

Nú eru tímar þegar stjórnmálabandalög breytast ört. En hvenær ætti vinstri hreyfingin að gera sér vonir um að aukið fylgi meðal verkafólks í Evrópu og endurbótasinnaðra hluta millistéttarinnar, ef ekki nú? Það er brýn þörf á að skýra hversu hörmulega illa hefur tekist til með það. … Fyrsta ástæðan og aðalástæðan er að því er virðist fullkominn skortur á raunsæislegri andkapítalískri, eða að minnsta kosti andnýfrjálshyggjulegri, vinstri stjórnmálastefnu hvað varðar Evrópusambandið. Það er ekki einu sinni rætt um það mjög svo brýna mál hvort Evrópusambandið geti yfir höfuð verið vettvangur fyrir andkapítalísk stjórnmál.[15]Wolfgang Streeck, „Four Reasons the European Left Lost,“ Jacobin, May 30, 2019.

Markmið margra vinstri flokka í Evrópu er að komast í ríkisstjórn, oftast sem hluti af samsteypustjórn þar sem stór nýfrjálshyggjusinnaður sósíaldemókrataflokkur ræður ferðinni. Fyrir mikinn meirihluti vinstriflokka sem hafa reynt þetta – í Frakklandi, Ítalíu, Noregi og Danmörku – hefur reynslan verið allt frá neikvæðri til hrikalegrar.[16]Greiningu á þessu fyrirbæri má finna í Asbjørn Wahl, „To Be in Office, but Not in Power: Left Parties in the Squeeze between People´s Expectations and an Unfavourable Balance of Power,“ í … Continue reading Þrátt fyrir þetta virðist svo sem flestir vinstri flokkar, hvort sem þeir hafa verið í stjórn eða ekki – svo sem þýski og hollenski, sem og norrænir vinstri flokkar (nema Enhedslisten í Danmörku) – hafi þetta að markmiði. Spænski Podemos flokkurinn, sem var myndaður 2014 sem hvorki hægri né vinstri og í andstöðu við elítuna og stjórnmálastéttina (eins og þau kölluðu það), fór í bandalag með vinstri flokknum Izquierda Unida, og náðu svo samkomulagi við og gengu í samsteypustjórn með Sósíalistaflokknum [sósíaldemókratískur og nýfrjálshyggjusinnaður flokkur, þýð.]. Slíkar pólitískar sjálfsmorðstilhneigingar er erfitt að skýra, ekki síst þegar það er ljóst að vinstri flokkar sem ekki ganga til liðs við slíkar stjórnir, en halda sig við að styðja stjórnir sósíaldemókrata með gagnrýnum hætti, frekar en stjórnir hægri flokka, að þessum flokkum farnast miklu betur. Þessir flokkar hafa sýnt að þeir hafa mun betra tækifæri til að færa fram eigin stefnu, þar á meðal möguleika á því að virkja þrýsting meðal almennings frekar en hætta á að útvatna stefnu sína í bakherbergjum þinghúsa. Sænski sagnfræðingurinn, ritstjórinn og rithöfundurinn Åsa Linderborg hefur fjallað um þetta vandamál í grein um þróun Vinstriflokksins í Svíþjóð:

Það er ekki auðvelt að taka saman lýsingu á því sem Vinstriflokkurinn hefur verið að gera. Þetta er eini flokkurinn sem heldur fram andkapítalískri gagnrýni á valdhafa, en í 25 ár hefur hann unnið að því að ná lögmæti sem samstarfsflokkur Sósíaldemókrata. Í mörg ár hefur flokkurinn stutt hægri stjórn Sósíaldemókrataflokksins sem hefur lækkað skatta og veikt endurdreifingarstefnuna. Vinstriflokkurinn hefur greitt atkvæði með fjárlagaákvæðum sem stefna sænsku efnahagslífi í hættu. Niðurstaðan hefur orðið dýpri stéttaskil og misrétti og gríðarleg samþjöppun auðs. Velferð og lýðræði eru þannig lögð í hættu.[17]Åsa Linderborg, „At Vänsterpartiet kalles „ekstremistisk“ er både latterlig og provoserende,“ Klassekampen, 12. januar, 2018.

Åsa Linderborg, „At Vänsterpartiet kalles „ekstremistisk“ er både latterlig og provoserende,“ Klassekampen, 12. januar, 2018.

Margt bendir til að afstaða margra vinstri flokka til Evrópusambandsins skorti samhengi. Til dæmis styðja fleiri og fleiri vinstri flokkar Plan B, sem er bæði krefjandi og býður upp á harða árekstra. Á sama tíma leggja þeir litla áherslu á að útfæra þessa stefnu, en fylgja stefnu í Evrópuþinginu og á þjóðþingum sem endurspeglar ekki slíka áherslu á átök, heldur, annaðhvort óvart eða ekki, er hluti af stefnu sem beinist að því að endurbæta Evrópusambandið innanfrá.

Það að fylgja því að brjóta Evrópusambandssáttmála þarf ekki að þýða að „brjótum sáttmálann!“ þurfi að vera meginkrafa vinstriflokka alltaf og alls staðar. Þar skiptir máli bæði strategía og taktík. Átak til að efla vinstrihreyfinguna verður að byggja á raunsærri greiningu á raunverulegu ástandi, þar á meðal raunverulegum valdahlutföllum samfélagsins. Við ástand þar sem stéttabaráttan harðnar, getur hvaða vinstri flokkur sem er lent í því sem Syriza lenti í, nefnilega að stofnanir Evrópusambandsins og sáttmálar þessi leggi óyfirstíganlegar hindranir í veg fyrir framsækna þróun. Möguleikinn eða nauðsynin á að yfirgefa evruna, eða jafnvel Evrópusambandið, kemur upp hvort sem okkur líkar það eða ekki. Valkostirnir eru grimmilegt: annaðhvort að hætta að berjast fyrir félagslegum umbótum og vera áfram í Evrópusambandinu, eða ganga úr því til að eiga möguleika á að halda áfram þeirri baráttu. Uppgjöf er ekki vænleg leið fyrir nokkurn raunverulegan vinstri flokk         

Enginn vafi er á að brot gegn Evrópusáttmálum eða það að yfirgefa evrusamstarfið, og jafnvel sjálft Evrópusambandið, er barátta sem krefst öflugrar þáttöku og baráttu almennings og fjölþjóðlegrar samstöðu til að geta orðið að veruleika. Til að það sé unnt þarf bæði flokkur, stofnanir hans og meðlimir, sem og bandamenn að vera reiðubúnir að há slíka baráttu. Það er því miður ekki raunin eins og er.

 Vandræði vinstri hreyfingarinnar með Evrópusambandsstefnu sína eykst aðeins ef flokkar vilja ekki fylgja stefnu sem er andvíg ES af ótta við að vera flokkaðir með rasistum og þjóðernissinnum, þótt þessi sérstaka afstaða hafi ef til vill verið bundin við Brexit-atkvæðagreiðsluna. Hið andstæða er hið sanna. Ef vinstri hreyfingin vill raunverulega veikja Evrópusambandið vegna lýðræðishalla þess, og vegna þess að hún er núna orðin valdamiðstöð nýfrjálshyggjumanna, þá er úrsögn mikilvægt og nauðsynlegt tól að beita. Það eru ekki hreyfingar fyrir úrsögn sem hafa búið til og styrkt öfgahægrihreyfingar í hverju landi á fætur öðru í Evrópu, né hafa þær leitt slíka flokka til að ná stjórnartaumunum á Ítalíu, í Austurríki, Ungverjalandi og Póllandi. Það er ekki róttæk gagnrýni á Evrópusambandið frá vinstri sem hefur eyðilagt líf milljóna vinnandi fólks og kynt undir vaxandi óánægju og síaukinni tilfinningu fólks fyrir því að það hafi engin völd.

Eina leiðin út úr þessari krísu vinstrihreyfingarinnar er að gangast fyrir eigin baráttu gegn og gagnrýni á ólýðræðislegt og nýfrjálshyggjusinnað Evrópusamband með því að leggja fram alþjóðasinnaða, sólidaríska og andrasíska stefnu hinum megin við gjá gagnrýni öfgahægrisins. Myndun alþjóðasinnaðrar, sólidarískrar og sameinaðrar Evrópu hefur sem forsendu ósigur stofnanavæddrar, ólýðræðislegrar og nýfrjálshyggjusinnaðrar Evrópu, en í stað þess kemur sameinuð Evrópa sem hefur að leiðarljósi lýðræði, samstöðu og sjálfsákvörðunarrétt.

Til að ná því markmiði þarf að viðurkenna hve pólitísk og hugmyndafræðileg kreppa vinstri hreyfingarinnar í Evrópu er djúp. Hlutverk og eðli Evrópusambandsins verður að rannsaka og greina, og leggja verður grunn að raunverulega andkapítalískum stjórnmálum.  Í þessu samhengi er mikilvægt að styðja og efla Plan B. Þetta þarfnast skýringar á greiningu og stefnumiðum, en sé rétt að farið, þá verður slíkt ferli til að stuðla að nauðsynlegri róttækniþróun meðal evrópska vinstrisins.


References

References
1 Samband hreyfinga sem eru virkar á sviði stjórnmálamenntunar og gagnrýninnar vísindalegrar greiningar, sem hefur tengsl við Party of European Left. Frekari fræðslu má fá á transform-network.net.
2 Ýtarlega útfærslu á þessu sjónarmiði má finna hjá Costas Lapavitsas, The Left Case Against the EU (Cambridge: Polity, 2019).
3 Walter Baier, „Far Right in Austria: We Are Living in Dangerous Times,“ Europe Solidaire Sans Frontières, March 26, 2019.
4 Catarina Martins, Jean-Luc Mélenchon, og Pablo Iglesias, „For a Citizen Revolution in Europe – Lisbon Declaration,“ Now the People!, April 12, 2018.
5 Yannis Varoufakis er prófessor í stjórnmálahagfræði, fyrrverandi þingmaður á gríska þinginu fyrir Syriza, og var fjármálaráðherra í stjórn Alexis Tsipras þar til hún gafst upp fyrir Troikunni eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurskurðartillögur ES í júlí 2015. Eftir að hafa sagt skilið við Syriza, þá stofnaði hann hreyfinguna Democracy in Europe Movement 2025 (DiEM25).
6 DiEM25, European New Deal (DiEM25, 2017).
7 Martin Höpner, „Social Europe Is a Myth,“ Social Europe, November 5, 2018.
8 DiEM25, The EU Will Be Democratised, or It Will Disintegrate! (DiEM25, 2016
9 Yanis Varoufakis, „How Should the Left Approach Europe? Interview, along Manuel Bompard, by Jacobin (France),“ Yanis Varoufakis (blog), September 12, 2018.
10 Lapavitsas, The Left Case Against the EU, 129–30.
11 Ýtarlega framsetningu á þessu viðhorfi má finna í Asbjørn Wahl, „European Labor: Political and Ideological Crisis in an Increasingly More Authoritarian European Union,“ Monthly Review 65, no. 8 (January 2014): 36–57.
12 „Plan B,“ Vänsterpartiet, April 12, 2019.
13 Ingrid Grønli Åm, „Vi stiller oss ikke på samme side som rasister og nasjonalister,“ Morgenbladet, 27. mars, 2019.
14 Grønli Åm, „Vi stiller oss ikke på samme side som rasister og nasjonalister.“
15 Wolfgang Streeck, „Four Reasons the European Left Lost,“ Jacobin, May 30, 2019.
16 Greiningu á þessu fyrirbæri má finna í Asbjørn Wahl, „To Be in Office, but Not in Power: Left Parties in the Squeeze between People´s Expectations and an Unfavourable Balance of Power,“ í The Left in Government: Latin America and Europe Compared, ed. Birgit Daiber (Brussels: Rosa Luxemborg Foundation, 2010).
17 Åsa Linderborg, „At Vänsterpartiet kalles „ekstremistisk“ er både latterlig og provoserende,“ Klassekampen, 12. januar, 2018.