Attac á Íslandi óskar þjóðinni til hamingju með þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave á morgun. Með því að krefjast þess að greidd verði atkvæði um Icesave hefur almenningur sent þau skilaboð bæði til stjórnvalda á Íslandi og til umheimsins að hann borgi ekki þegjandi og hljóðalaust skuldir einkabanka. Íslenska þjóðin hefur sýnt að hún samþykkir ekki umyrðalaust að stjórnvöld þjóðnýti tap fjárglæframanna og sendi almenningi rekninginn. Hvergi í heiminum hefur þetta mikla tækifæri gefist áður: að almenningur hafi tækifæri til að koma með lýðræðislegum hætti að “björgunaraðgerðum” þeim sem stjórnvöld hafa ráðist í vegna fjármálakreppunnar. Augu heimsins beinast því að Íslandi.
Stjórn Attac á Íslandi hvetur íslenska kjósendur til að hafna Icesave samningnum og senda með því afdráttarlaus skilaboð um að almenningur; launþegar, námsfólk, eftirlaunafólk, atvinnulausir, kærir sig ekki um að borga stöðugt reikninginn fyrir kreppur fjármálakapítalismans. Stjórn Attac hvetur íslenska kjósendur til að sýna almenningi í veröldinni allri að hægt er að neita að borga skuldir þær sem auðstéttirnar stofna til.
Attac á Íslandi minnir á að íslenskum almenningi ber engin siðferðileg né lagaleg skylda til að borga Icesave. Íslenskur almenningur var ekki spurður álits á því þegar Landsbankinn stofnaði til svimandi skulda í hans nafni. Íslenskur almenningur var blekktur af stjórnvöldum sem töldu kjósendum trú um að hér á landi væri laga- og stofnanaumgjörð sem sæi til þess að fjármálakerfið “virkaði”.
Íslenskur almenningur ber ekki ábyrgð á því að eftirlitsstofnanir evrópska efnahagssvæðisins voru ekki betur gerðar en svo að fjárglæframenn gátu rænt evrópska sparifjáreigendur. Íslenskur almenningur ber ekki ábyrgð á því að tryggingarsjóður innistæðueigenda stóð ekki undir nafni. Íslenskur almenningur var blekktur af fjármálastofnunum sem fölsuðu bókhald, stunduðu markaðsmisnotkun og sögðu ósatt um áhættuna sem fylgdi starfsemi þeirra, fjármálastofnunum sem, í skjóli spilltra og markaðsvæddra stjórnvalda, voru rændar innan frá af stjórnendum og helstu eigendum. Íslenskur almenningur tók aldrei þátt í glæpastarfsemi fjármálastofnana og deildi aldrei í ránsfeng stjórnenda þeirra og getur ekki borið neina ábyrgð á þeim skuldum sem þeir hafa skilið eftir sig.
Attac á Íslandi hvetur kjósendur til að sýna alþýðu heimsins fordæmi og neita að borga skuldir fjárglæframanna kasínókapítalismans. Fjármálakerfi heimsins byggist á því að einkabankar fái að leika lausum hala á kostnað almennings og að tapið sé ævinlega þjóðnýtt. Til þess að borga þessa reikninga er svo miskunnarlaust skorið niður í almannaþjónustu. Þessu eigum við að hafna. Við segjum nei! Nei við því að hagnaður sé einkavæddur og tap þjóðnýtt. Nei við heimsauðvaldinu. Nei við Icesave.
Stjórn Attac á Íslandi, 8. apríl, 2011.