Andstaða við einkavæðingu og fjármálavæðingu samfélagsins er gríðarleg. Nýjasta dæmið er könnun Rúnars Vilhjálmssonar félagsfræðings, sem fjallað var um í fréttum RÚV 25. apríl. “Þegar litið er á heildina þá kemur í ljós að um 82% telja að heilbrigðisþjónustan eigi fyrst og fremst að vera rekin af hinu opinbera. Nú þegar spurt er um fjármögnun að þá vilja 94% hvorki meira né minna að hið opinbera verji meiru fé,” segir Rúnar.
Vandamál kjósenda er í hnotskurn að enginn flokkur, amk. enginn hinna sex stóru, er tilbúinn til að styðja í raun slíka pólitík. Allir þessir flokkar eru mótaðir af nýfrjálshyggju og hafa ekki á nokkurn hátt gert upp við þann thatcherisma sem einkennt hefur stjórnmálalíf síðustu áratuga. Kjósendur hafa þannig engan valkost. Nýju flokkarnir Björt framtíð og Píratapartíið hafa engan skýran prófíl í þá veru að gera upp við einkavæðingu og fjármálavæðingu.
Vinstri grænir brugðust í síðustu ríkisstjórn að því leyti að þaðan kom ekki ákall um skipulegt uppgjör við nýfrjálshyggju, einkavæðingarstefnu eða fjármagnsvæðingaráherslur. Það á við um hægriarm Vinstri grænna, sem ekki gerði athugasemdir við thatcheríska pólitík flokks sem kallaður er jafnaðarmannaflokkur en er það einungis á forsendum sem urðu til 1997 þegar Tony Blair komst til valda í Bretlandi. Stefna Blairs var ljósrit af stefnu Margaret Thatcher, en jarðneskar leifar hennar voru nýlega jarðsettar og ætti að jarðsetja alla hennar pólitík og Blairs líka um leið. Stefna Samfylkingarinnar var síðan ljósrit af stefnu Blairs.
Hægri og ráðandi armur Vinstri grænna lagðist sem sagt flatur fyrir pólitík Samfylkingarinnar þegar þessir flokkar fóru saman í stjórn 2009. Vinstri armurinn í VG barðist af hörku og mikilli alvöru gegn þessum svikum, því að í VG er að finna fjölda heiðarlegs baráttufólks. Þetta var svo stimplað sem klofningspólitík og sagt hafa veikt flokkinn mjög. Öðru nær. Barátta vinstri armsins var eina tilraunin til að gera upp við nýfrjálshyggjufortíð íslenska stjórnmálakerfisins, þeirri pólitík sem leiddi til hrunsins. Því miður leiddi sú barátta ekki til þess að á slíkum grundvelli uppgjörs við fortíðina yrði til öflugt nýtt stjórnmálaafl sem hefði skýra stefnu í þessa veru, þrátt fyrir ýmsar tilraunir eins og stofnun Samstöðu og Regnbogans.
Þessi barátta bar ekki árangur og nú hafa kjósendur fáa valkosti – þrátt fyrir að vilji þeirra sé mjög skýr í að hafna einkavæðingarstefnu og frjálshyggjustefnu. Það er miklu skýrara nú en í kosningunum 2009. Enginn flokkur af þeim sex sem hafa verulegt fylgi, vill hins vegar gera upp við arfleifð nýfrjálshyggjunnar. Þetta er furðuleg þversögn og sýnir hversu vel auðmagninu gengur að stýra umræðunni í samfélaginu.
Ímyndum okkur að Vinstri grænir hefðu hafnað þáttöku í ríkisstjórn með thatcheristunum í Samfylkingunni 2009 og rekið markvissa baráttu gegn áhrifum fjármálakerfisins og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar á síðasta kjörtímabili. Hver væri þá staða Vinstri grænna? Sennilega væru Vinstrigrænir ekki að berjast örvæntingarfullri baráttu við að komast yfir 10% fylgi í skoðanakönnunum og búnir að hrekja frá sér stóran hóp öflugra liðsmanna, heldur einhvers staðar í grennd við þá stöðu sem Syriza er nú í í Grikklandi: með 30-40% fylgi og ráðandi stöðu í íslenskum stjórnmálum.