Af víðförlum mönnum – Thor Vilhjálmsson 85 ára

Eitt regnþungt síðdegi,
á skipi úr víðförlum draumi,
kom sagnaþulurinn Hómer til Reykjavíkur.
Hann gekk frá hafnarbakkanum
og tók leigubíl sem ók með hann
eftir regngráum götum
þar sem dapurleg hús liðu hjá.
Við gatnamót sneri sagnaþulurinn Hómer
sér að bílstjóranum og sagði:
Hvernig er hægt að ímynda sér
að hér í þessu regngráa
tilbreytingarleysi búi söguþjóð?
Það er einmitt ástæðan,« svaraði bílstjórinn,
aldrei langar mann jafn mikið
að heyra góða sögu og þegar droparnir
lemja rúðurnar.

Það er ekki að ástæðulausu að ég hef mál mitt á þessum orðum því hvaðan kemur sagnalistin og hver segir söguna, úr hvaða djúpum og af hvaða tilefni, og ég vil bæta við: Ekki tala um stórar þjóðir og litlar þjóðir, útkjálka, heimshorn og jaðra. Þetta er hnöttur, miðjan hvílir undir iljum þínum og eltir þig hvert sem þú ferð. Þannig eru bókmenntirnar, í eðli sínu alþjóðlegar og sameign alls mannkyns, en um leið kenjóttar út frá stað og stund. Þær spretta út úr auðninni, rigningunni, þokunni, hinum gráa hversdagsleika, af atvikum sem orðið hafa, munu verða og eru; og sjálft orðið atvik, eitt og sér, er athyglisvert í skáldskap, augnablik og eilífð, allt í senn, þar sem þú nálgast kjarna veruleikans, og því nær honum sem þú kemst því hærra flýgur andinn. Fiskar og fuglar, vængir og sporðar; þar á milli ert þú, maðurinn, ungi maðurinn í öllum myndum, maður allra tíma, hugarflug þitt tengt veruleikanum órofa böndum. Og öfugt; það er enginn veruleiki án hugarflugs, en víða gætir þess misskilnings að jörðin skiptist í stórar þjóðir og litlar þjóðir, og við eigum að beygja okkur fyrir stóru þjóðunum og vorkenna litlu þjóðunum, og þetta er auðvitað engin landafræði, bara hagsmunagæsla. Þetta segi ég þegar við fögnum Thor Vilhjálmssyni og tímamótum hans, 85 ára, en samt er hann ungi maðurinn á öllum aldri, sem öðrum fremur getur talað um að miðjan hvíli undir iljum hans, og elti hann hvert sem hann fer, manni sem hefur brunnið af ástríðu, leitað svara og verið rekinn áfram af ákafa sem lætur engan ósnortinn og smitar út frá sér.

Ævisaga Thors Vilhjálmssonar gæti hafist með orðunum, seg mér frá þeim víðförla manni…manni sem enn siglir sinn sjó og ferðast um vegina; og ber með sér forvitni unglingsins, unga mannsins sem við hittum í bókum hans í ótal myndum á ýmsum aldri, manni sem reynir að ná utan um óreiðu tímans. Þegar hann var eitt sinn spurður að því, í nokkuð niðrandi tóni, hve margir byggju í Reykjavík svaraði hann að þar byggju álíka margir og í Flórens á tímum Dantes, því hann veit að við búum ekki í neinum hriplekum kofa við hliðina á stórhýsum menningarinnar, við þurfum enga lyftu upp í hæðirnar, því menningin er eitt stórt hús þar sem allir á jörðinni búa, en ekki bara ráðamenn sem kalla sig G-20 og koma saman í víggirtum höllum, af því að þeir eru hræddir við heiminn sem þeir stjórna, og ættu því í rauninni ekki að stjórna. Ævisaga Thors Vilhjálmssonar gæti líka hafist með orðunum, í upphafi var orðið, því tungumálið hefur verið hans annað heimili, orðin og myndirnar, og enginn veit betur að okkar gullaldarbókmenntir urðu ekki til vegna mannfjölda og það sama gildir um þá list sem við sýnum heiminum í dag.

Thor fagnar ekki bara 85 ára afmæli sínu á þessum dögum heldur 60 ára höfundarferli; með vissri einföldun mætti segja að hann hefði verið að skrifa lengur en elstu menn myndu og vegna þess hve nærvera Thors Vilhjálmssonar er sterk og ég vil leyfa mér að segja sjálfsögð er ég ekki viss um að allir geri sér ljóst hve fjölbreytilegur sá ferill er. Við sjáum ekki alltaf það sem við blasir og nútíminn þarf umfram allt að einfalda hlutina og helst eiga bara nokkur stikkorð sem fundin eru í uppsláttarritum og leitarvélum. Ferill Thors Vilhjálmssonar skiptist í margar bækur og mörg tímabil, fyrst ljóðrænar smásögur, jafnvel örsögur, á mörkum ljóðs, ferðabækur, sem eru allt í senn, skáldsögur, smásögur, sagnfræði og blaðamennska, síðan bókin um Kjarval, sem nú er endurútgefin í tilefni afmælisins, í þriðja sinn, og boðar að einhverju leyti heimkomu Thors, hins víðförla manns sem ferðast hafði um löndin og borgirnar og fært okkur heiminn í gleði sinni og sorg, en er allt í einu mættur til Íslands, hingað út í ballarhaf þar sem örfáar hræður þrífast á hundaþúfu undir Grænlandsjökli, á staðnum sem fóstruðu hinn mikla málara.

Þegar bókmenntir eru annars vegar er alltaf erfitt að sjá hvað er framhald af hverju, og eflaust má skoða fyrstu bækurnar sem tilhlaup að þeim næstu, fyrstu skáldsögunum, um flýti fuglsins og óp bjöllunnar og þær sem á eftir fylgdu. Bókin um Kjarval kom út árið 1964 en frá 1968 til 1980 birtast eftir hann fimm skáldsögur, tvö sagnasöfn og þrjú greinasöfn, en með þeim ryður Thor tignarlegustu aðferðum nútímabókmenntanna inn í okkar heim, flytur lærdóma stóru meistaranna á borð við William Faulkner og André Malraux og Albert Camus til okkar sem og boðskap nýstefnumanna. Það er þessi eilífa vangavelta um stöðu mannsins í heiminum og fyrirbærin og fræðin um þau, hvernig hin hlutlæga ytri veröld fellur að huganum og hugurinn að henni, heimurinn skynjaður gegnum orðin og byggður upp sem ljóð, hljómfagurt einsog symfónía. Goðsögur spegla nútímann og nútíminn verður goðsaga þar sem einstæðingar ráfa um veröldina og athafnir endurtaka sig á ólíkum tímum, mismunandi skeiðum, en eru í grundvallaratriðum sömu athafnirnar, allir tímar að eilífu til staðar.

Á sínum tíma þóttu þessar bækur torræðar af því að þær stönguðust á við hið viðtekna og fastmótaða, hugmyndina um söguna sem sagði ekki lengur söguna, en það sem er flókið á einum tíma virkar ekki svo flókið á öðrum, það sem fólki finnst flókið í sögum horfir það á í bíó eða upplifir í augnablikum eigin lífs, auk þess sem nútíminn hefur misskilið aðgengileika, þeir sem lifa hann reyna að flýja hann, inn í draumaveröld kerfisins, og þeir sem flýja hann geta tjáð hann, í rauninni svipað og sú kenning André Malraux að þú heyrir eigin rödd í hálsinum en annarra með eyrunum. Að minnsta kosti þurfti hið viðtekna nýja nálgun og þá tekur skilningsleysið við um hríð, þar til nýjungin er orðin viðtekin, en skáldskapurinn smíðar brýrnar þarna á milli, og þær hrynja, og þeim er rutt burt, eða smiðurinn gleymir sér við smíðarnar, handverkið, natnina, nákvæmnina, en einhvern tíma eða alltaf eða aldrei verður brúin til, hún er kannski alltaf í smíðum, og þá aka atvikin inn í lýsingarnar og lýsingarnar renna inn í atvikin og það verður árekstur, upplausn og ást… Það er sama hvernig á málin er litið: Thor Vilhjálmsson og hin nútímaskáldin eins og Guðbergur Bergsson, Svava Jakobsdóttir, Steinar Sigurjónsson og fleiri, atómskáldin, ljóðskáldin, Birtingsmenn, þau stokkuðu spilin upp á nýtt, því það var vitlaust gefið, en við sem á eftir komum tókum við þeim og lögðum nýja kapla, sem sumir gengu upp en aðrir ekki eða þeir eru enn í biðstöðu. Það er þannig sem tímarnir tala saman.

Modernisminn hlaut að verða umdeildur hér á landi, en hann var jafn nauðsynlegur fyrir því. Þetta tólf ára tímabil frá 1968 til 1980 er tímabil mikillar frjósemi hjá Thor Vilhjálmssyni. Þessir tímar eru líka átakatímar hámenningar og lágmenningar, þegar hugtök einsog fjöldamenning, menningariðnaður, sönn list og ósönn list, og tími kalda stríðsins, tími þjóðfélagskerfanna, ef þú studdir ekki annað kerfið þá studdir þú hitt, einsog ekki væri hægt að vera á móti þeim báðum, trúa á spurningarmerkið og ímyndunaraflið, vera raunsær og framkvæma hið ómögulega. Sem betur fer leysist þetta allt upp í kjölfar ’68 uppreinanna sem nú koma til okkar á ný, í öðru samhengi, á öðrum tíma…einsog innblásinn andi skáldskapar, þegar heimurinn, ekki síst fjármálaheimurinn er orðinn hreinn skáldskapur sem draga þarf niður á jörðina, ekki síst með skáldskap, frjósemi og ímyndunarafli… »Hann hafði lært að varast hætturnar og vissi að þær gætu sigrað hann ef hann gleymdi þeim,« segir í Fljótt, fljótt, sagði fuglinn.

Thor bjó í Karfavoginum og býr enn spölkorn frá Vogaskóla, mitt á milli listfræðingsins sem miðlaði heimslistinni og unga kvikmyndaleikstjórans, sem leitaði til Thors og stofnaði kvikmyndaklúbb og gerði síðan bíómyndir. Þessar bækur sem ég nefndi er Thor að skrifa þegar ég er að alast upp í Vogahverfinu einsog synir hans, í hverfi þar sem börnin í skólanum töldu eitt prósent þjóðarinnar. Ég geri ég mér ekki ljóst hvaða áhrif allur sá gauragangur hefur haft á Thor Vilhjálmsson, en hitt man ég vel hve eftirminnileg persóna hann var, og bar með sér andblæ, annan andblæ, andblæ umheims og sólar, einskonar bítnikk í heimi skólastjóra, presta og múrara, en samt hluti þessa sama heims, einsog tattóveruðu sjómennirnir sem gengu um göturnar, konurnar sem kunnu tungumál kattanna, skrýtnu sendisveinarnir og allur fjölbreytileikinn sem býr í mönnunum og börnunum. Einhver sagði að það hefði verið þorpshálfviti í hverri götu, og hverfið sem var einsog eitt þorp var því eiginlega mörg þorp, þar sem sögurnar gerðust hver með sínu sniði en endurtóku sig, ekki ósvipað og í bókum Thors, bara á öðru plani. Á þessum tíma vissi maður ekkert hvar maður var staddur, hlutirnir bara gerðust, en sem unglingur hitti ég Thor oft í bíó, í kvikmyndaklúbbunum, á mótmælafundum og mannamótum ýmsum. Ég mætti honum í Austurstrætinu. Ég hef eflaust reynt að selja honum fréttablaðið Vísi og síðar Neista, blað ungra sósíalista, en þegar ég kynntist Örnólfi gátum við setið með honum og reifað hugmyndir okkar. Orð einsog kynslóðabil voru hlægileg… Sumir okkar reyndu að sannfæra hann um yfirburði sósíalismans, en auðvitað þekkti hann kosti hans og ókosti miklu betur en við. Hann sagði okkur frá skáldunum í París, þegar hann las ljóð Sigfúsar Daðasonar við Signubakka og þannig mætti lengi telja, en ekki skipti minna máli hvað hann hafði mikinn áhuga á okkur og því sem við vorum að hugsa; og sumir nokkuð ósparir á hugsanir sínar, einsog verða vill og fara gerir. Orðin eru einsog atómið sem sundrast og sameinast á ný. Saga kemur og saga fer, og þegar hún kemur aftur, er hún allt öðruvísi en hún var… það er ekki um að ræða neitt afturhvarf, og ekki heldur nýtt plan, heldur annað plan… En sagan sem hvarf í brotum sínum og upplausn, einhvers staðar leyndist hún og sneri aftur með öll brotin í farteskinu sem svo eftirminnilega vaknaði til lífs á næsta söguskeiði Thors sem hefst með Grámosinn glóir og lifir enn í jafn ólíkum verkum og Morgunþula í stráum og Raddir í garðinum. Með nýjum aðferðum nálgast Thor eldri stef, hér er hinn víðförli maður dómari og skáld sem togast á milli heimabyggðarinnar og heimsins. Eins eru réttarhöldin sem áður voru huglæg togstreita við tilveruna nú sótt í raunveruleg dómsskjöl þar sem sakborningar standa andspænis lífsvandanun, já skáldið og dómarinn líkist á margan hátt unga manninum, í togstreitu sinni við heiminn og umheiminn, einsog eyjabúi sem hverfur á vit ævintýranna. Til að verða ekki of nærsýnn snýr hann sjónaukanum við, en uppgötvar svo að ævintýrin voru allan tímann í kringum hann og andinn býr í auðninni, grámosanum, já hvert sem maðurinn fer skilur hann eftir sig slóða af orðum og þegar hann snýr aftur er hann með fjarskann í farangrinum.

Já, minnið mig bara á, það er margt sem ég minnist ekki á, margt sem ég gleymi, eða kem ekki fyrir. Það liðu sex ár frá Turnleikhúsinu þar til Grámosinn glóir kom út, en Thor sendi frá sér ljóðabækur, málaði myndir og þýddi stórvirki, var iðinn, en dugnaðurinn er ekki bara bróðir hans og systir, dugnaðurinn er hann, án þess að ég ætli að fara út í íþróttaferil eða sjómennsku eða styrkleikann sem gat brotið borð, bara með því að banka í þau og biðja um sörvis, en borðin bara hrynja niður og brotna, ekki síst meðal þjóða sem lagt hafa heiminn í rúst en æsa sig svo yfir einu borði, en ég get ekki skilið við Thor án þess að nefna ferðalög sem við höfum farið í saman, um Norðurlönd, Þýskaland, Ítalíu og einu sinni hitti ég hann á Hólmavík, á bensínstöðinni, en ég skildi hvað ég hafði lært af Thor þegar ég fór sjálfur að skrifa, sjálf aðferð hans og nútímaskáldanna, hjá henni varð ekki komist, hún var lykillinn að þeim sagnaheimum sem ég gekk inn í, fyrir mér var ljóðið og sagan sami hluturinn, og ég held einmitt að þessi nútími kallist á við fortíðina, þá tíma þegar ljóð og saga var sami hluturinn, og sagt var í bundnu máli frá víðförlum mönnum sem hröktust mjög víða, sáu borgir og þekktu skaplyndi margra manna og trúðu á annað líf og önnur, að hér og nú sé þar og þá og þar og þá sé hér og nú.


Hér lýkur hinni eiginlegu umfjöllun en mig langar ljúka máli mínu á smábroti úr Hvítu bókinni, en þá erum við staddir í Færeyjum:

Þegar ég hugsa um Færeyinga hugsa ég um norðurljósin. Þess vegna byrja ég á norðurljósunum og læt þau varpa bjarma sínum á síður þessa kafla, en fátt er fegurra en stjörnubjartur himinn og svífandi norðurljós þegar úti er kalt en lygnt. Þá ávarpar einveran heiminn og hjartað fyllist ljóðrænum töfrum. Þetta er jóga norðursins, afslappað samband við alheiminn. Þótt norðurljósin skreyti oft himininn yfir Íslandi finnst mér Færeyingar eiga þau og kannski borgum við þeim lánið með norðurljósum eða hlutabréfum í þeim. Það væri ekki ólíkt okkur miðað við allt sem gengið hefur á. Ég hef aldrei heyrt að nokkur Færeyingur hafi reynt að selja norðurljósin einsog skáldið Einar Benediktsson, sem bauð þau til kaups í London fyrir hundrað árum, þó ekki hefði það brölt sömu afleiðingar og Icesave-reikningarnir, enda ekki búið að finna upp hryðjuverkalögin þá.

Ég nefndi Juan Rulfo frá Mexíkó og Gabriel Garcia Marquez frá Kólumbíu. Færeyingar eiga jafn stóran höfund og þessa tvo. Hann heitir William Heinesen, fæddur árið 1900, dáinn árið 1992. Þegar ég les lýsingar Williams Heinesen á bænum Þórshöfn fæ ég á tilfinninguna að götur bæjarins séu lýstar upp með norðurljósum, að þau streymi frá ljósastaurunum. Það er einhver undarlegur alheimur sem William Heinesen hefur skapað úr Þórshöfn, svo ljóðrænn og tær, fullur af dulrænni einveru sem um leið fær á sig blæ samkenndar með öllu sem er til. Ég hef sjálfur orðið vitni að þessu eina febrúarnótt þegar unglingarnir í Þórshöfn fögnuðu mér og skáldinu Thor Vilhjálmssyni einsog þjóðhöfðingjum einmitt á meðan norðurljósin svifu yfir bænum og stjörnurnar fylgdust með okkur einsog augu úr öðrum heimi.

Þetta var árið 1993. Í blöðunum stóð að við værum tveir þekktir rithöfundar sem myndu lesa upp í Norðurlandahúsinu, en orðið þekktur á færeysku er kenndur, sem þýðir á íslensku ölvaður eða drukkinn. Fyrirsögnin í blaðinu var: Tveir kenndir rithöfundar lesa upp í Norðurlandahúsinu. Hentu landar okkar gaman að.

Einar Már Guðmundsson Hvíta bókin Forlagið 2009, bls. 50-51