Spánn í gíslingu Evrusvæðisins

Síðan efnahagssamdrátturinn hófst á Spáni hefur það komist í tísku að bera hagkerfi Spánar saman við hagkerfi Þýskalands, sem hefur náð að vinna bug á kreppunni og er nú á eindregnum batavegi. Hugmyndin er sú að Þjóðverjar hafi farið í gegnum endurskipulagningu, náð stjórn á kröfum verkalýðshreyfingarinnar, og með þessu gert hagkerfi sitt samkeppnishæfara. Samkvæmt hinum ríkjandi söguþræði er þetta lykilinn að efnahagslegri velgengni þeirra – og því ættu Spánverjar að taka sér Þjóðverja til fyrirmyndar, þ.e. ef spænska hagkerfið á að eiga sér viðreisnar von.

Þessi söguþráður fellur vel við ríkjandi staðalímyndir af þýsku þjóðinni sem agaðri og vinnusamri, fúsri til að gera það sem þarf til að verða samkeppnishæf í heimshagkerfinu, á meðan íbúar á jaðri Evrópu eru óagaðir og undanlátssamir. Þessi saga passar hins vegar ekki eins vel við efnahagslegar staðreyndir.

Flest vandamál Spánar tengjast með einum eða öðrum hætti við evruna, og slæmum hagstjórnarmistökum, en hafa ekkert að gera með ‘ósveigjanleika vinnumarkaðarins’, styrk verkalýðsfélaga, eða ríkisútgjöld. Og efnahagsbatinn er hægur vegna ákvarðana sem teknar eru af evrópskum yfirvöldum: Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Evrópska Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).

Þegar Spánn varð aðili að evrusvæðinu árið 1999 var framleiðni spænsks efnahagslífs um það bil 63.3% af framleiðni þýsks efnahagslífs. Á næstu 10 árum var aukning framleiðni nokkurn vegin hin sama í báðum löndum, þannig að árið 2009 var hlutfallið það sama: 63%. Laun í iðnaði hækkuðu líka álíka mikið í báðum löndum, þannig að Þýskaland hélt framleiðniforskoti sínu á Spán. Auðvitað hefur þetta fyrirkomulag komið miklu betur út fyrir Þýskaland – í uppsveiflunni 2002-2007 mátti rekja meira en 120% af hagvexti í Þýskalandi til útflutnings – og meirihluti þessa útflutnings var til annarra landa innan evrusvæðisins.

Þetta er grundvallarvandamálið sem kemur upp þegar land tekur upp sameiginlegan gjaldmiðil með öðrum löndum sem búa við mun meiri framleiðni. Raunveruleg samkeppni getur ekki átt sér stað með framleiðsluvörur – og vandamálið er ekki bundið við útflutningsvörur, heldur einnig iðngreinar sem framleiða fyrir innanlandsmarkað og eiga þar í samkeppni við innfluttan varning. Ef að Spánn hefði haft sinn eigin gjaldmiðil, hefði verið hægt að láta verðgildi hans falla og gera innlendan iðnað þannig samkeppnishæfan. Þegar samdráttur er í hagkerfinu, eða þegar það er veikt, – hagkerfi Spánar dróst saman um 0.2% árið 2010 – getur aukningin á útflutningi og samdráttur innflutnings sem yrði afleiðing slíkrar aðgerðar, hjálpað hagkerfinu að vaxa á ný.

Þess í stað hafa yfirvöld í Evrópu fyrirskipað það sem kalla má ‘innri gengisfellingu’- látið hagkerfi landa skreppa saman og atvinnuleysi þeirra aukast nægilega til að þau geti að nýju orðið samkeppnishæf, verðlag þrýstist þannig niður og laun sömu leiðis, án þess að breyta þurfi gengi gjaldmiðilsins (þ.e. að halda evrunni). Atvinnuleysi á Spáni er nú 20%, og jafnvel þó að útflutningur hafi aukist eitthvað á síðasta ári, er sú aukning ekki nándar nærri nógu mikil til að koma hagkerfinu upp úr þeirri lægð sem það er í. Spánn þarf á þenslu í ríkisfjármálum og peningastefnu að halda til að glæða hagkerfið lífi. En peningamálastefnunni er stjórnað af Seðlabanka Evrópu – sem tilkynnti í síðustu viku að það kæmi til greina að hækka vexti, þrátt fyrir hægan efnahagsbata Evrópu og hið hræðilega atvinnuleysi í veikustu hagkerfum evrusvæðisins (á Spáni, Írlandi og í Portúgal).

Með þrýstingi koma yfirvöld í Evrópu í veg fyrir þensluhvetjandi stefnu í ríkisfjármálum – og ýta í raun og veru á Spán að gera hið gagnstæða; með öðrum orðum, krefjast niðurskurðar og skattahækkana – og sú staðreynd að landið hefur ekki eigin peningamálastefnu kemur í veg fyrir að Spánn geti lækkað vexti og aukið peningamagn í umferð, líkt og Bandaríkin hafa gert að undanförnu, eða Japan áratugum saman, til að fjármagna ríkisútgjöld án þess að auka við skuldastöðu ríkissjóðs.

Hugum aftur að áratugar langri reynslu Spánar af evrunni. Með upptöku evrunnar hófst tímabil bóluhagvaxtar, með miklu innstreymi fjármagns frá öðrum löndum Evrópu sem kom af stað eignaverðsbólu, risavaxin húsnæðisbóla blés út og hlutabréfaverð rauk upp. Hagkerfi Spánar óx um þriðjung á milli áranna 1999 og 2007, og hreinar skuldir ríkissjóðs lækkuðu í 26.5% af landsframleiðslu árið 2007. En hagvöxturinn var keyrður áfram af bólum: hlutabréfaverð náði hámarki árið 2007 þegar það stóð í 125% af landsframleiðslu, og féll niður í 54% af landsframleiðslu ári seinna. Húsnæðisbóla jók hlut byggingariðnaðarins úr 7.5% í 10.8% af landsframleiðslu (2000-2006), og húsnæðisverð hrundi um 87% þegar bólan sprakk.

Ástæðan fyrir því að hagkerfi Spánar hrundi og ástæðan fyrir alvarlegri stöðu ríkissjóðs er ekki óvarkár stefna í ríkisfjármálum, heldur að þessar bólur sprungu. Og það er undirgefni spænskra yfirvalda gagnvart evrópskum yfirvöldum sem kemur í veg fyrir að notuð séu þrjú mikilvægustu hagstjórnartækin sem völ er á til að komast upp úr lægðinni: ríkisfjármál, peningamál og gengismál. Og þó að það hafi verið fræðilega mögulegt fyrir Spánverja að minnka bilið á milli framleiðni spænska hagkerfisins og hins þýska, (vegna þess að framleiðnistig Spánar var miklu lægra í byrjun) þá er vöxtur sem keyrður er áfram af bólum, eins og sá á síðasta áratug, og sem knúinn er áfram af upptöku evrunnar og mikils innstreymis fjármagns, ekki vöxtur sem hvetur til aukningu framleiðni.

Semsagt, nýfrjálshyggjuöflin hafa að venju snúið öllu á hvolf: það var hagstjórnarstefna sem negld var niður með upptöku evrunnar sem er ástæðan fyrir bæði kreppunni og áframhaldandi vandamálum efnahagslífsins. Spánn ætti að neita að framfylgja nokkrum þeim stefnumarkmiðum sem framlengja lægðina og koma í veg fyrir að hægt sé að draga úr atvinnuleysi. Ef að það þýðir að kostirnir eru að yfirgefa evrusvæðið eða endurskipuleggja allar skuldir, þá ættu þeir kostir að koma að borðinu í samningaviðræðum við Evrópsk yfirvöld. Þessir kostir eru betri en að þjást í mörg ár enn vegna hægs vaxtar og mikils atvinnuleysis.


Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir