Hamfarakapítalisminn er mættur til Evrópu (og Bandaríkin eru næsti áfangastaður hans)

Public sector workers demonstrate in Spain. Photograph: Susana Vera/Reuters

Eitt verðum við að hafa á hreinu með ástandið í evrulöndunum sem ekki er ljóst ef við reiðum okkur á flesta fréttamiðlanna. Löndin eru ekki í „ógöngum“ vegna of mikillar eyðslu eða vegna þess að þau hafa safnað of miklum opinberum skuldum. Þau standa ekki frammi fyrir „erfiðu vali“ sem neyðir þau til að skera niður eyðslu og hækka skatta af því að efnahagslífið sé veikburða eða í lægð til að „mæta kröfum fjármálamarkaðanna“.

Það sem er að gerast er að voldugir hagsmunaaðilar í þessum löndum – jafnt á Spáni sem í Grikklandi, Írlandi og Portúgal – eru að nýta sér ástandið til að koma á breytingum sem þeir sækjast eftir. Og það sem skiptir kannski enn meira máli er að valdastofnanir Evrópu – þ.m.t. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Evópski seðlabankinn og AGS – sem stýra öllu fjármagni til stuðnings fjármálafyrirtækjunum, eru enn harðari stuðningsmenn stefnubreytingar til hægri en ríkisstjórnir einstakra ríkja. Og þessar stofnair þurfa engan veginn að axla ábyrgð á gerðum sínum gagnvart kjósendum.

Í bókinni 13 Bankers (13 bankamenn) lýsa höfundarnir, Simon Johnson (fyrrum aðalhagfræðingur AGS) og James Kwak, kreppunum í rísandi markaðsríkjum Asíu og Austur-Evrópu á tíunda áratug síðustu aldar. Þeir vekja athygli á að stjórnvöld í Washington hagnýttu sér þær til að stuðla að breytingum sem þau stemmdu að: „Þegar ráðandi fjármálaelíta hefur leitt land í alvarlega kreppu þá er kominn tími fyrir breytingar. Og kreppan sjálf er einstakt og skammvinnt tækifæri til breytinga.” Naomi Klein, höfundur The Shock Doctrine, segir okkur magnaða sögu þess hvernig kreppur hafa verið notaðar til að innleiða og efla afturhaldssamar og óvinsælar efnahagslegar „umbætur“.

Þetta er það sem er að gerast í evrulöndunum í dag þó svo að „kreppan“ þar sé mjög orðum aukin í flestum þeirra. Spánn er gott dæmi. Engin gögn styðja það að Spánn hafi lent í vanda vegna of mikillar eyðslu ríkisstjórnarinnar. Spánn lækkaði hlutfall heildarskulda af vergri landsframleiðslu (VLF) rækilega á meðan efnahagslífið var í vexti frá 2000 – 2007, úr 59% í 36% af VLF og var með tekjuafgang á fjárlögum árin þrjú fyrir hrunið 2008. Hrunið varð vegna þess að risavaxin húsnæðisbóla á Spáni sprakk sem og stóra bólan á hlutabréfamarkaðnum: verðmæti hlutabréfanna hrapaði úr því að vera 125% af VLF í nóvember 2007 í 54% af VLF ári síðar. Þessar sprungnu bólur ollu miklum samdrætti í einkaneyslu. Samdrátturinn í heiminum gerði svo ástandið verra í spænsku efnahagslífi.

Spánn er einungis með 61 milljarð evra í skuld sem gjaldfalla í ár. Valdastofnanir Evrópu gætu auðveldlega fundið lausn á þeim ef þær vildu forða Spáni frá mögulegum vaxtahækkunum á skuldir sínar. Án skyndilegrar mikillar vaxtahækkunar ræður Spánn vel við skuldir sínar því árið 2009 námu nettó skuldir þeirra einungis 45.8% af VLF og vaxtakostnaðurinn var einungis 1.8% af VLF. (Flestir fréttamiðlar tala um heildarskuldir en nettó skuldir eru betri mælikvarði. Heildarskuldir felur í sér skuldir sem ríkisstjórnin hefur á eigin hendi þannig að vaxtagreiðslur af þeim skuldum safnast saman hjá henni og bætast þess vegna ekki við skuldabyrði landsins.)

Að sjálfsögðu er mikill halli á fjárlögum Spánar, 9% af VLF í ár, og þannig getur það ekki verið til frambúðar. En það verður það heldur ekki þannig: hallinn mun dragast saman þegar ferlinu sem bjó hann til snýst upp í andhverfu sína (through the reverse process of how it got there): þegar efnahagslífið vex aukast skattatekjur, kostnaður við „sjálfvirkar jafnvægisaðgerðir“ eins og atvinnuleysisbætur minnkar og skuldir dragast saman í samanburði við efnahagslífið, sem er það sem máli skiptir. Það er ekkert vit í að draga saman útgjöld og hækka skatta nú, á meðan efnahagslífið er veikburða, verðbólgan er neikvæð og alvarleg hætta er á að lenda aftur í samdrætti.

Nema að markmiðið sé að lækka launin og bæturnar úr almannaþjónustunni, veikja stöðu launavinnufólks, auka tekjuflæðið til þeirra betur settu og draga úr umsvifum hins opinbera, þá fæst ekki betra tækifæri en það sem nú er til að þröngva þessu í gegn. Í Bandaríkjunum er staðan svipuð þó pólitíska staðan sé ekki enn orðin jafn alvarleg: greiðsluhallahaukarnir eru að hefja baráttu fyrir niðurskurði almannatrygginga jafnvel þó þær geti staðið við allar skuldbindingar sínar næstu 33 árin.

Það er kaldhæðnislegt að þeir aðilar sem vilja hagnýta sér „kreppuna“ á Spáni auka raunverulega áhættu á mun alvarlegra skuldavandamáli þar sem skuldabirðin mun aukast ef efnahagslífið lendir aftur í samdrætti eða áralangri stöðnun vegna efnahagslegra aðhaldsaðgerða. En þeir eru reiðubúnir að taka áhættuna til þess að ná fram pólitískum markmiðum sínum.

____________________________________________________________

Grein þessi eftir bandaríska hagfræðinginn Mark Weisbrot birtist í breska dagblaðinu “The Guardian” 9. Júlí 2010 © 2010 Guardian News and Media Limited