Fréttatilkynning frá grasrótinni

Nú hafa nokkrir grasrótarhópar ákveðið að standa fyrir kröfugöngu frá Hlemmi laugardaginn 6. mars kl 14. Gengið verður niður Laugarveginn og að lokinni göngu verður haldinn útifundur á Austurvelli kl. 15.

Ræðumenn verða Andrés Magnússon læknir og Júlíus Valdimarsson húmanisti.
Áfundinum verður Alþingi götunnar stofnað. Magnús Þór Sigmundsson mun syngja.

Hljómsveitin Stjörnuryk mun flytja lag.

Helstu áhersluatriði Alþingis götunnar eru:

Leiðrétting höfuðstóls lána, afnám verðtryggingar, fyrningu lána við þrot, jöfnun ábyrgðar og að fjárglæframenn Íslands séu hvorki stikkfrí né endureistir, AGS úr landi, manngildið ofar fjármagni, aukin völd til almennings, bættur neytendaréttur.

Trommusláttur og lúðrablástur mun fylgja með niður Laugaveginn. Mælst er til þess að göngumenn taki með sér potta, pönnur, flautur eða annað sem getur framkallað hóflegan hávaða. Takið með kröfuspjöld.

Gerum næsta laugardag að sögulegum degi. Fjölmennum við formlega stofnun Alþingis götunnar. Gefum skýr skilaboð til umheimsins, lýðræðið er númer eitt, valdið er fólksins.

Gerum Alþingi götunnar að stórviðburði. Ekki láta þig vanta. Tölum einum rómi með samtökunum okkar. Látum það ekki fara neitt á milli mála hver vilji okkar er. Kjósum með fótunum í göngunni niður Laugaveg.

Hagsmunasamtök heimilanna,


Nýtt Ísland,


Attac samtökin á íslandi,


Siðbót,


Húmanistafélagið,


Rauður vettvangur,


Vaktin,


Aðgerðahópur Háttvirtra Öryrkja.