Skattlagning fjármagnsflutninga

Carlos. A. FerrerCarlos. A. FerrerATTAC félögin hafa yfir lengri tíma bent á tvöföld áhrif gjalds á viðskipti með fjármagn, þótt það væri ekki hærra en 0.1%. Annars vegar myndi gjaldið afla ríkinu tekna sem væru kærkomnar nú þegar það þarf að gjalda fyrir "skuldir óreiðumanna", eins og nafntogaður embættismaður komst að orði í kjölfar bankakreppunnar á Íslandi. Hinsvegar myndi gjald sem þetta koma í veg fyrir að stór hluti skammtímaviðskipta með erlenda mynt borgaði sig og því stýra viðskiptunum á aðrar brautir.

Fjármálamarkaðir og þjóðarhagur

"Í ófyrirsjáanlegan tíma munum við þurfa að búa við þjóðlega gjaldmiðla og laga okkur að þeim. Stórkostlegar upphæðir fjár eru lagðar til reiðu að jafna út þann mun sem er á vöxtum í einstökum löndum og notaðar til að stunda spákaup með gjaldmiðla og gengi þeirra. Hér eins og á svo mörgum sviðum hefur tæknin hlaupið af sér þær stofnanir sem samfélagið hefur byggt upp í kringum fjármál, stjórnmál og velferð almennings."(James Tobin, A Currency Transactions Tax, Why and How, Open economies review, 7: 493 - 499, 1996,)

Annars vegar eru fjármálastofnanir sem geta brugðist við aðstæðum nánast tafarlaust og án þess að vera bundin í aðra klafa en ávinningskröfu hluttakenda, hinsvegar þjóðir og samfélög, bundin af samfélagssáttmálum, lögum, reglum og í kerfi sem ekki er hægt að breyta án mikils tilkostnaðar og án þess að mikill tími fari í umþóttun og umræðu.

Þetta getur orðið að vandamáli þar sem hagsmunir (fárra) fjárfesta og hagsmunir (heillar) þjóðar fara ekki saman. Slík staða kemur upp t.d. þegar staða er tekin gegn tilteknum gjaldmiðli og keðjuverkun komið í gang til að tryggja að gengið lækki.

"Mikilvægt er að gera þjóðlega gjaldmiðla þolanlega og að gera alþjóðlegt fjármagn og fjármálamarkaði samræmanlega við hófstillt sjálfræði einstakra þjóða í peningamálum og hagstjórn þeirra. Þar í liggur áhugi hagfræðinnar til þess að henda dálitlum "sandi í tannhjól" ofvirkra alþjóðlegra fjármálamaskína." (Tobin 1996)

Sandurinn sem James Tobin, Nóbelsverðlaunahafi og fyrrum prófessor í hagfræði við Yaleháskólann lagði til að dreift yrði á fjármálahjólin, er örlítill skattur af flutningi fjármagns í hvert sinn sem það er flutt frá einni mynt til annarrar. Fé spákaupmanna fer oft á ári í hringferðir, þangað sem vaxta- og gengismunur kallar á það. Fjármálaflutningaskattur gæfi stjórnvöldum á hverjum stað þar sem það lendir tækifæri á að heimta sinn toll af því. Í stuttu máli skiptir hann litlu, ef stór upphæð er flutt einu sinni og síðan geymd í langan tíma á því gengi sem keypt var. Séu stórar upphæðir fjár fluttar oft á ári, magnast skatturinn þannig að brátt verður ávinningurinn af gengismun tveggja gjaldmiðla og af vaxtamun í tveimur löndum lítill sem enginn.

"Talið er að nú fari jafnvirði allt að 144.000 milljarða króna milli landa á degi hverjum og þar af eru yfir 80% hrein spákaupmennska. Umfang þessarar verslunar hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og nífaldaðist á árunum 1986–98. Um 40% fjármagnsins fara hringinn í viðskiptaheiminum á þremur dögum og 80% komast aftur á byrjunarreit á aðeins einni viku,"

sagði Ögmundur Jónasson í greinagerð með þingsályktunartillögu um upptöku Tobin-skatts á löggjafarþingi 2000 (126. löggjafarþing 2000–2001. Þskj. 11 – 11. mál, skoðað 27.12.2009). Smáskattur á stóra upphæð sem leggst á í hvert sinn sem hún er hreyfð verður að umtalsverðri summu þegar árið er gert upp, benti Tobin á í athugasemd með ræðu sinni (Tobin 1996).

Kreppuviðbrögð, barátta eða þarft réttlætismál?

"Upphaflega markmiðið með slíkum skatti var að renna stoðum undir sjálfstæða efnahagsstefnu ríkja heims og draga úr gengissveiflum einstakra gjaldmiðla. Á síðari árum hefur Tobin-skatturinn einnig verið nefndur sem leið til að verja gjaldmiðla fyrir árásum spákaupmanna og til að fjármagna aðkallandi alþjóðaverkefni. Í stuttu máli má segja að útgangspunkturinn með slíkri skattheimtu sé að treysta efnahagslegt öryggi hvarvetna í heiminum," sagði Ögmundur Jónasson í áðurnefndu þingsskjali.

"Fjármálaþjónusta er eini geiri efnahagslífsins sem er undanþeginn virðisaukaskatti t.d. Slíkur skattur dregur úr óþarfa braski með fjármagn og stuðlar að meiri stöðugleika á fjármagnsmarkaði," bætti Þór Saari við níu árum síðar (Ræða á 138. löggjafarþingi).

Ýmis samtök hafa risið upp, sem gera hugmyndir Tobins um skattlagningu fjármagnsflutninga að baráttumáli. Þeirra á meðal eru ATTAC samtökin víðsvegar um heim. Þar sem þau eru frjáls og óháð samtök, eru þau í stakk búin að safna upplýsingum, ráðleggja og berjast fyrir því samfélagslega réttlætismáli, sem jafnari dreifing þeirra byrða sem óheft fjármagnsflæði leggur á þjóðarhag.

Tobin vissi að hann synti gegn stríðum straumi þeirra sem engan áhuga hafa á því að hefta frjálsa flutninga fjármagns með nokkru móti. Hinsvegar er það svo, að fjármálakreppur koma upp með reglulegum hætti og þá liggja oft í valnum þjóðir sem ekkert hafa til þess unnið að þurfa að taka á sig byrðar sem aðrir leggja á þær. Þótt hann væri því andsnúinn því að leikmenn tækju hugmyndina um fjármagnsflutningaskattinn (a "crackpot idea") og veifuðu henni vanhugsað, er þörfin á því að ræða þennan skatt, vinna honum brautargengi augljós.

Það er helst þegar kreppir að eða hrun hefur orðið, sem umræðan um skatt á fjármagnsflutninga verður merkjanleg. Það var þannig á árum í kringum 1972 þegar Bandaríkjadalur hætti að standa á gullfæti (í kjölfar hruns vegna spákaupmennsku). Það var þá sem Tobin orðaði hugmynd sína um fjármagnsflutningaskattinn fyrst. Þannig varð það í banka- og fjármagnskreppunni 2008, að ýmsir málsmetandi stjórmálamenn og aðrir tóku að dusta rykið af Tobin-skattinum (Alþjóðlegur skattur á banka? 3. október 2009, http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item304421 ; Gísli Freyr Valdórsson, "Skattalögum Brown hafnað", Viðskiptablaðið 12. nóvember 2009, http://www.hr.is/media/hr/skjol/vidskiptabladid-2009-11-12.pdf ; "Tekinn verði upp svokallaður Tobin-skattur", 7. október 2000, http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=563496 ; "Tobin skatt á fjármálagerninga", 20. september 2009, http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/09/20/tobin_skatt_a_fjarmala... ).

Gagnrýni og mótspyrna

Á sama tíma rísa upp andmælendur þessara hugmynda og benda á vankanta þess að grípa til skattsins. Meðal þeirra er Dominique Strauss-Kahn, yfirmaður Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem benti fjármálaráðherrum G20 ríkjanna á það á fundi þeirra í Skotlandi 7. nóvember 2009, að erfitt væri henda reiður á fjármagnsflutninga og því væri auðvelt að sniðganga slíkan fjármagnsflutningaskatt (Lukewarm reaction to UK tax plan, http://news.bbc.co.uk/2/hi/uk_news/8348653.stm). Hann segist ekki vera á móti því að skattleggja fjármagnsflutinga í sjálfu sér, en Tobin-skattur væri ekki besta leiðin. Spurning er hvaða leið er hentug að hans mati?

Angela Knight, formaður breska bankasambandsins benti í þessu samhengi á að skattur af þessum toga þurfi að leggjast á allan heiminn í einu, til að ekki verði hægt að sniðganga hann (G20 vows to spur fragile growth, http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/8348121.stm).

Þá geta tvísköttunarsamningar milli ríkja gert skatt af þessu tagi óleyfilegan eða dregið úr áhrifum hans.

Þá skiptir máli að pólítískur vilji sé fyrir hendi að nota skattkerfið til að jafna út áhrif sem viðskipti kunna að hafa. "Laissez faire" (látið það gera sig sjálft) hefur verið dagsskipunin sem skatta- og eftirlitsstofnanir störfuðu eftir í fjármálamiðstöðvum heimsins. Stjórnmálaforysta og embættismenn sem starfa á þeim nótum hafa tilhneigingu til að standa gegn nýjum sköttum og benda á að oft tapast viðskipti umfram ávinning sem hafa má af höftum og sköttum.

Fjármagnsflutningaskattur, viðskiptaskattur eða stimpilgjald?

Þótt Tobin-skatturinn sé í sjálfu sér ekki framkvæmanlegur að óbreyttum breytanda hafa samtök á borð við WEED (weed-online.org) bent á að tilteknar leiðir séu færar. Þeirra á meðal er Spahn-skatturinn (endurskoðaður Tobin-skattur) og alþjóðlegt samstöðugjald.

Peter Wahl, talsmaður WEED í alþjóðaviðskiptum, vistfræði og þróunaraðstoð tók saman minnispunkta fyrir fjarmagnsflutningaskatt . Hann bendir á að nú, í kjölfar bankahruns sé að myndast hreyfing í áttina að því að gera fjármálamiðstöðvarnar ábyrgari fyrir eigin gjörðum, enda hafi þeir skaðað skattgreiðendur með óábyrgu athæfi sínu sem leiddi til falls mikilsvirkra fjármálastofnana. Meðal stjórnmálamanna sem hafa ljáð máls á þessu eru forsetisráðherrar Bretlands, Frakklands og Þýskalands, forseti Bandaríkjanna (Wahl 2009).

Wahl bendir á að fleira en fjármagnsflutninga megi og þurfi að leggja álögur á, verðbréfaviðskipti, viðskipti með tryggingar, ábyrgðir o.s.frv. Best væri að skattleggja öll viðskipti en líkast til væri ásættanlegt að leggja álögur á ein eða tvö velvalin svið þeirra.

Óþarfi sé að bíða eftir að heimur nái samstöðu um að leggja skatt á viðskipti, þar sem skattur af því tagi þurfi að vera lægri en sá kostnaður sem fylgir því að flytja viðskiptin annað, t.d. í skattaskjól. Hann bendir auk þess á nokkur lönd sem hafa slíkan skatt, þ.e. Bretland og New York ríki í BNA hafa stimpilgjald (0.003 - 0.5%). Þá hafa nokkur lönd fjármagnsflutningaskatta sem gilda aðeins þar, þeirra á meðal eru Luxenburg, Sviss, Hong Kong, Kína og Singapore.

Hliðstætt þessu má ná til stærsta hluta spákaupmennsku ef gjöld eru lögð á í helstu viðskiptamiðstöðvum þeirra. Um áttatíu prósent þeirra fara fram í sjö borgum og kauphallir í London, New York og Tokio ná yfir tæplega 60% þeirra (Robin Round (January-February, 2000). "Time for Tobin!". New Internationalist. Sótt 17. 12.2009).

Tæknilega séð er hægt að leggja gjöld af þessu tagi á rafrænt og hugbúnaður gæti séð um að koma þeim til skila þangað sem þau eiga heima. Upphæð þessara gjalda geta orðið jafnhá bresku stimpilgjöldunum (0.5%).

"Bankarnir verða að borga fyrir kreppuna!"

ATTAC félögin hafa yfir lengri tíma bent á tvöföld áhrif gjalds á viðskipti með fjármagn, þótt það væri ekki hærra en 0.1%. Annars vegar myndi gjaldið afla ríkinu tekna sem væru kærkomnar nú þegar það þarf að gjalda fyrir "skuldir óreiðumanna", eins og nafntogaður embættismaður komst að orði í kjölfar bankakreppunnar á Íslandi. Hinsvegar myndi gjald sem þetta koma í veg fyrir að stór hluti skammtímaviðskipta með erlenda mynt borgaði sig og því stýra viðskiptunum á aðrar brautir.

Þeir sem vilja beita sér fyrir réttlátari skiptingu auðæfa verða að skoða hvernig skattar leggjast á fólk og viðskipti. Það hlýtur að vera forgangsmál að láta ekki þau sem ekki stofnuðu til skulda greiða fyrir óreiðu annarra. Frjáls félagasamtök geta stutt við þá viðleitni stjórnvalda að finna tekjustofna sem leggja gjöld á sem réttlátastan veg. Þessi leið sem James Tobin nefndi nánast í framhjáhlaupi fyrir fjörtíu árum síðan hlýtur að vera ein þeirra sem stjórnvöld verða að skoða af mikilli alvöru.

Höfundur er kennari og fv. sóknarprestur.