Spurningar og svör (Q&A) - European Greece Solidarity Petition

grískar skuldir minnkuð.jpg

Hversu miklar eru skuldir Grikklands?

Þátttaka Grikklands í björgunarpakkanum svokallaða hófst árið 2010 þegar skuldir Grikklands höfðu náð 310 milljörðum evra, eða 133% af vergri landsframleiðslu. Í dag eru skuldir gríska ríkisins 317 milljarðar evra. Alls eru 78% skuldarinnar við Troikuna; Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópusambandið og Evrópska Seðlabankann.

Hvað hefur átt sér stað í björgunaraðgerðunum?

Björgunarpakkinn hefur fyrst og fremst nýst evrópska fjármálageiranum. Minna en 10% af upphæð björgunarpakkans hefur runnið til grísks almennings, á meðan 90% hafa runnið til þátttakenda á evrópskum fjármálamarkaði, sem höfðu tekið óhóflega áhættu með útlánum til gríska ríkisins; evrópskra banka, vogunarsjóða, lífeyrirssjóða og annarra fjárfesta.

Hver hafa áhrif grísku skuldakreppunnar og björgunarpakkans verið?

Yfirstandandi skuldakreppa og niðurskurðarstefnan, sem sett hefur verið sem skilyrði fyrir aðstoð, hafa lagt grískt hagkerfi og samfélag í rúst. Krafan um sparnað hins opinbera hefur leitt yfir landið gríðarlegar launalækkanir, sem og lækkun á lífeyrisgreiðslum, og hrun heilbrigðiskerfisins.

Milljónir Grikkja lifa nú í fátækt vegna kreppunnar og treysta á hjálparstofnanir og félagasamtök til að komast af. Atvinnuleysi í Grikklandi er meira en 25% og næstum tvö af hverjum þremur ungmennum eru atvinnulaus.

Hvað er Sannleiksnefndin um grískar skuldir?

Forseti gríska þingsins, Zoe Konstantopoulou, stofnaði nýverið Sannleiksnefnd um opinberar skuldir Grikklands. Nefndin, sem er skipuð alþjóðlegum hópi skuldasérfræðinga, fer nú yfir skuldirnar með það í huga að ákvarða hversu mikið af þeim eru réttmætar og löglegar.

Hefur áður verið haldin Evrópsk skuldaráðstefna?

Tillögur um skuldaráðstefnu eru byggðar á Lundúnaráðstefnunni sem var haldin árið 1953 og hafði það hlutverk að gefa eftir skuldir Þjóðverja. Á þeirri ráðstefnu var ákveðið að fella niður 50% af skuldum Þjóðverja við ríkisstjórnir, einstaklinga og stofnanir utan Þýskalands, og gert var að skilyrði að endurgreiðsla þess sem eftir stæði ylti á því að gjaldeyristekjur Þjóðverja stæðu undir afborgunum. Grikkland var eitt þeirra landa sem tók þátt í skuldaráðstefnunni.

Eru skuldakreppur algengar?

Skuldakreppum hefur fjölgað gríðarlega síðan ríkisstjórnir hófu að slaka á reglum sem snúa að hinu alþjóðlega fjármálakerfi á áttunda áratugnum. Á milli áranna 1941 og 1970 varð sex sinnum greiðslufall hjá ríkjum, en á árunum 1971 til 2004 gerðist það 129 sinnum.

Skuldakreppur níunda og tíunda áratugar síðustu aldar og krafan um niðurskurð sem sett var sem skilyrði fyrir lánum frá AGS og Alþjóðabankanum gerðu það að verkum að tveir áratugir af samfélagslegri framþróun glötuðust í hinum svokallaða þriðja heimi. Á milli 1980 og 1990 jókst fjöldi þeirra sem lifa í fátæki í Rómönsku Ameríku úr 144 milljónum í 211 milljónir. Í Afríku jókst fjöldi þeirra sem búa við örbirgð (lifa af minna en 1,25$ á dag) úr 205 milljónum, árið 1981, í 330 milljónir árið 1993.

Hafa skuldaniðurfellingar áhrif?

Í kjölfar alþjóðlegra herferða hafa samtals 130 milljarðar dollara af skuldum verið afskrifaðar, fyrir 36 lönd, aðallega í Afríku sunnan Sahara, fyrir tilstilli the Heavily Indebted Poor Countries initiative. Þetta hefur sparað milljarða á ári hverju og gert það að verkum milljónir manna hafa nú aðgang að menntun og læknisþjónustu sem þeir hefðu ella orðið af. Aftur á móti gátu ekki öll lönd sem þurftu á niðurfellingu að halda nýtt sér úrræði HIPC, sem voru útbúin af lánadrottnum og höfðu ýmis íþyngjandi skilyrði. Það er ein af ástæðunum þess að nauðsynlegt er að Sameinuðu þjóðirnar samþykki nýjar reglur til að takast á við skuldakreppur á skjótan og sanngjarnan máta.

Nefnd um slíkar reglur var stofnuð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna snemma árs 2015, en fram að þessu hafa bæði Bandaríkin og Evrópusambandið sniðgengið fundi hennar.

Heimildir

Sannleiksnefnd um skuldir Grikklands: http://greekdebttruthcommission.org/

6 atriði um skuldir Grikklands: http://jubileedebt.org.uk/reports-briefings/briefing/six-key-points-gree...

Ákall frá grískum félagasamtökum um samtöðu í Evrópu: http://www.change4all.eu/change-in-greece/detail/call-for-a-european-bot...

Nefnd Sameinuðu þjóðanna um skuldir: http://www.unctad.info/en/Debt-Portal/Events/Our-events/GA-events-on-Leg...

ViðhengiSize
Skýrsla Sannleiksnefndarinnar um opinberar skuldir Grikklands.pdf1.08 MB