Sýrland og Íran eru peð í tafli um heimsyfirráð

443px-Coat_of_arms_of_Syria.svg_.png

1. Brennuvargar þinga um brunavarnir

Enn og aftur gerist það: Blóðug uppreisn studd af vestrænum stórveldum er notuð af þeim sjálfum sem tilefni til íhlutunar í viðkomandi land. Mikil diplómatísk herferð er nú farin gegn Sýrlandi, afar lík þeirri sem var undanfari árásarinnar á Líbíu í fyrra. Þann 30. júní var ráðstefna í Genf og önnur í París 6. júlí til að beita Sýrlandsstjórn þrýstingi. Frú Clinton beindi spjótum að Rússum og Kínverjum fyrir að vinna gegn herferðinni og hótaði að "þeir muni gjalda fyrir þetta". Fremstir í flokki á fundum þessum voru fulltrúar þeirra ríkja (einkum vesturvelda og arabískra stuðningsríkja þeirra) sem stutt hafa vopnaða uppreisn í Sýrlandi á annað ár með því m.a. að veita straumi vopna og erlendra leiguhermanna inn í landið. Allan þann tíma hafa vestrænir leiðtogar boðað nauðsyn valdaskipta í Sýrlandi. Að vanda er öllu snúið á haus: fundir til undirbúnings innrás eru kallaðir "friðarráðstefnur". (www.globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=29234)

Boðskapurinn endurómar hér heima: "Rússland og Kína standa í vegi fyrir valdaskiptum í Sýrlandi" (Ólafur Þ. Stephensen, leiðari Fréttablaðsins 7. júlí)

Aðförin að Sýrlandi fylgir margendurteknu munstri, allt frá falli Múrsins. Sería stríða er háð í Miðausturlöndum og aðliggjandi svæðum (Írak, Bosnía, Kosovo, Afganistan/Pakistan, aftur Írak og Líbía). Fórnarlömbin eru ríki sem á einhvern hátt trufla hnattvæðingarprógramm USA og Vesturveldanna. Árásaraðilinn er í öllum tilfellum Vesturveldin, NATO-veldin. Stórveldi hanna atburðarás í smáríkjum. Atlagan er gerð í skrefum. Fyrst er fórnarlambið (fórnarlandið) útnefnt, svo skapa árásaraðilarnir sér skálkaskjól og tilefni til íhlutunar gegnum herferð fjölmiðla og vestrænt sinnaðra "mannréttindasamtaka" (innan fórnarlandsins og alþjóðlega), gjarnan er alið á trúar- eða þjóðernasundrungu. Tilgangurinn er annars vegar að grafa undan stjórnvöldum fórnarlandsins, skapa þar upplausn, og hins vegar að skapa herskáa stemmningu í þeim löndum sem standa að herferðinni. Markmiðið er dipómatísk og viðskiptaleg einangrun landsins og ef þetta nægir ekki til að steypa stjórnvöldum er gerð "mannúðarinnrás."

2. Hnattræn pólitísk og hernaðarleg sókn Vestursins

Í viðbót við framantalin innrásarstríð NATO-veldanna hefur NATO sjálft eftir fall Múrsins þanist gífurlega út: um alla Austur Evrópu og líka inn fyrir mörk gömlu Sovétríkjanna. Árið 1999 afnam NATO sín landfræðilegu mörk og breytti sér í hnattrænt hernaðarbandalag Vesturveldanna með allan heiminn sem starfsvettvang. Í framhaldi af því hefur það boðið ríkjum "samtarfsaðild" (kallað "partnership" og "dialogue") um alla Norður-Afríku (Líbía var þar eina ríkið sem stóð utan við) Miðjarðarhafsbotn (nema Sýrland og Líbanon) og Persaflóa og loks um Asíulýðveldi gömlu Sovétríkjanna allt austur að landamærum Kína. (http://en.wikipedia.org/wiki/NATO)

SýrlandSýrland

Í öðrum heimshlutum, eins og Suður Ameríku og Afríku sunnan Sahara gegnir herafli Bandaríkjanna enn sem komið er þessu hlutverki NATO og bein bandarísk hernaðarsamvinna og "hervernd" í flestum ríkjum þeirra svæða er stórlega aukin, og NATO sýnist vera á leiðinni þangað. Bandarískar herstöðvar - sumar tengdar NATO, aðrar ekki - spretta upp eins og gorkúlur

Ný og þrengri innikróun Rússlands vekur athygli. Nýtt bandarískt eldflaugavarnarkerfi er nú byggt upp í nýju NATO-ríkjunum Póllandi, Rúmeníu og Tékklandi, kerfi sem Pútin segir að ógni öryggi Rússlands. Og nú hafa Bandaríkin og/eða NATO herstöðvar í flestum nágrannaríkjum Rússlands.

Áherslan á að innikróa Kína er þó enn meiri. Nú í júní lýsti bandaríski varnarmálaráðherrann Leon Panetta yfir á heimasíðu Pentagon að jafnvel áherslan á Miðausturlönd félli í skuggann af hinu rísandi verkefni: "Washington þyngir nú áhersluna á Asíu og Kyrrahafið á kostnað Evrópu og Miðausturlanda" og "Bandaríkin ætla að auka hernaðarstarf sitt á því svæði, heræfingar og hernaðarsamvinnu með þáttöku fleiri ríkja, þ.á.m. Ástralíu, Filipseyjum, Singapore og Tælands, og meiri herútbúnaði, þ.m.t. að minsta kosti 40 nýjum skipum." (www.eurasiareview.com 11. júní "Southeast Asia: US Revives And Expands Cold War Military Alliances Against China"). Bandaríski Kyrrahafsheraflinn var þó fyrirfram öflugasta herstjórnareining heims.

Þann 4. júlí sl. hélt Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, ræðu hjá Konunglegu stofnuninni um alþjóðamál í London. Hann ræddi hlutverk og framtíðaráform NATO: "Við sjáum ólgu og óöryggi í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Við sjáum ný stóveldi koma fram - efnahagsleg, stjórnmálaleg og hernaðarleg. Og við heyrum marga fréttaskýrendur spá undanhaldi Vestursins eins og við þekkjum það…" En NATO-Rasmussen telur að svar sé til við þessum áskorunum: "Skilaboð mín hér og nú eru að NATO sé lykillinn að svarinu. Á þessum tímum óöryggis er NATO uppspretta öryggis. Framlag bandalagsins er meginþáttur í alþjóðlegu öryggi og stöðugleika. Í krafti þess getum við mætt áskorunum samtímans af styrk." (www.nato.int/cps/en/natolive/opinions_88886.htm)

3. Efnahagslegar rætur stríðsins

Það er augljóst þeim sem sjá á annað borð að ófriðlegt er í heiminum. Sérstaklega eru það Bandaríkin og Vesturblokkin sem sýna fádæma árásargirni og útþensluhneigð. Gamall marxisti spyr sig hvort finna megi kenningar og hugtök í verkfærabúri marxismans sem skýri þá þróun sem hér var lýst. Til þess þarf að taka ofurlítinn krók yfir í þjóðhagfræði.

Þegar Marx skrifaði Auðmagnið setti hann fram nokkrar tesur um "hreyfilögmál" kapítalískra framleiðsluhátta. Hér skulu nefnd tvö slík lögmál: Eitt þeirra, það sem Marx hafði fremst, er lögmálsbundin þörf auðmagnsins til að hlaðast upp. Það lögmál leiðir beint af gróðasókninni. Auðmagn er peningahaugur sem verður að stækka í framleiðsluferlinu, annars er framleiðslan tilgangslaus fyrir auðherrann. Upphleðsla auðmagnsins veldur líka vaxandi þörf þess fyrir bæði auðlindir og markaðssvæði. Af því leiðir að kapítalisminn hefur innbyggða útþensluhneigð. Annað lögmál er tilhneiging auðmagnsins til samþjöppunar. Áðurnefnd þensluhneigð leiðir af sér samkeppni og í henni vinna sumir en aðrir tapa og hrapa niður um stétt. Einingum fjármagns og framleiðslu fækkar og þær stækka. Það lögmál er sívirkt síðan og afleiðingin er heimur einokunar, risaauðhringa, hlutabréfamarkaða og fjármálafáveldis. Í þeim heimi er trú hægri manna á séreignarréttinn út frá hugmyndum um framtak einstaklinganna og hugguleg fjölskyldufyrirtæki fjarstæðukenndur draumur úr fortíðinni. Að lýsa arðránskerfi sem frelsi kostar lygar. Að lýsa afætukapítalisma nútímans sem kerfi lýðræðis og framfara kostar tröllaukinn hugmyndafræðiiðnað og heimsmyndarsmíði sem afbakar veruleikann ofan í okkur án afláts.

Lenín bætti við nokkrum lögmálsbundnum þróunareinkennum kapítalisma á stigi einokunar og heimsvaldastefnu, þegar "drottinvald einokunar og fjármálaauðvalds festir sig í sessi, þegar fjármagnsútflutingur hefur fengið áberandi áhrif, þegar hafin er skipting heimsins milli alþjóðlegra hringa og lokið er skiptingu á öllum löndum jarðarinnar milli voldugustu auðvaldsríkjanna." (Heimsvaldastefnan, hæsta stig auðvaldsins, bls. 117). Lenín sagði ójafna þróun efnahagseininga vera lögmál undir kapítalismanum vegna samkeppni og stjórnleysis markaðarins, og á skeiði einokunar og heimsvaldastefnu væri sú ójafna þróun sterkari og leiddi af sér átök milli landa og blokka. Sérstakt efni í jarðskjálfta sé það þegar upp komi óhjákvæmilegt misræmi á milli efnahagslegs styrks og yfirráðasvæðis: "Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluafla og samsöfunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendna og "áhrifasvæða" fjármálaauðmagnsins hins vegar?" (sama heimild, bls. 130) Til dæmis hafði Þýskaland þá meiri efnahagsstyrk en sem nam áhrifasvæðum þess og þær aðstæður voru eldsmatur, efni í jarðskjálfta.

4. Straumhvörfin eftir fall Múrsins

Heimurinn einkennist af þverstæðu: annars vegar af gífurlegu valdi Bandaríkjanna og nánustu bandamanna þeirra (USA + ESB = NATO-veldin = Vesturblokkin) og hins vegar af harðnandi samkeppni efnahagsblokka um áhrifasvæði og markaðshlutdeild þar sem nýir aðilar sækja fram á kostnað Vesturblokkarinnar.

Á tíma Kalda stríðsins var heimurinn "tvípóla", hann skiptist í grófum dráttum í tvær herbúðir (seinna raunar þrjár vegna sérþróunar Kína). Keppni risaveldanna gaf samt ákveðið svigrúm fyrir lönd sem kusu að vera óháð. Óhægt var um vik fyrir heimsvaldasinna að gleypa óháð smærri ríki án þess að raska með því valdajafnvægi og friði (það er ekki endilega nauðsynlegt hér að ræða eðli Sovétríkjanna svo ég sleppi því).

Eftir fall Múrsins og niðurlægingu Rússlands á 10. áratug varð heimurinn "einpóla" (hugtak sem m.a. Pútin hefur notað). Efnahagslegir, pólitískir og hernaðarlegir yfirburðir USA voru gífurlegir. Sovétríkin skildu eftir tómarúm og afbrigðilegt ástand skapaðist á vettvangi heimsvaldastefnunnar. Greið leið opnaðist fyrir bandaríska og vestræna auðhringa að sækja fram. Hernaðarlegri sókn USA var sérstaklega beint til hinna olíuauðugu Miðausturlanda. Nokkur lönd þar höfðu áður hallað sér að Sovétríkjunum og önnur reyndu að standa upprétt. Slík hegðun var ekki lengur líðandi. Eftir brotthvarf kommagrýlu settu hugmyndafræðingar heimsvaldasinna á flot kenningar um "átök menningarheima" og "alþjóðlegt samsæri íslamista"og USA gat aftur þétt net herstöðva sinna og leppstjórna og hóf síðan nokkur stríð á þessu dýrmæta svæði (tvö stríð í Írak, 1991 og 2003, eitt í Sómalíu 1992-3, eitt í Líbíu 2011 auk stríða gegnum staðgengla). Vestrænir heimsvaldasinnar tóku einnig að grafa undan hugmyndinni um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og fóru að boða "skylduna til að vernda" borgara í vandræðaríkjum. Beindu þeirri herferð ekki síst inn í SÞ. Hugmyndin um "mannúðarinnrásir" var í þróun.

Sókn heimsvaldasinna fór ekki síður fram með efnahagslegum aðferðum. Á 10. áratugnum þrýstu auðhringarnir mjög á um "hnattvæðingu" efnahagslífsins til að tryggja frjálst flæði hins vestræna fjármagns um allan heim, og beittu fyrir sig yfirþjóðlegum stofnunum eins og og AGS, GATT og Heimsviðskiptastofnuninni. Helsta verkefni þeirra stofnana var að brjóta niður efnahagslegt fullveldi þjóðríkja. Pólitískt og diplómatískt vald Bandaríkjanna varð meira á heimsvísu en dæmi eru um áður - gegnum stöðu dollarans, net af bandamönnum og skjólstæðingum, vald innan SÞ m.m. - svo ekki sé talað um hernaðarmáttinn.

5. Taflið um heimsyfirráð

Þrátt fyrir arðrán USA og Vestursins á öðrum heimshlutum gegnum háþróað heimsvaldakerfi sitt fékk Adam ekki langan frið í Eden. Aðrir fóru að banka á garðshliðin. Síðar fór Vesturblokkin að mæta hindrunum og nýrri samkeppni frá öðrum heimsvaldasinnuðum ríkjum og blokkum. Hin ójafna þróun kapítalismans gerði sig gildandi. Gamalt auðvald hefur sterkari tilhneigingu til stöðnunar, afætumeina og kreppu en yngri keppinautar. Allt er það eftir bókinni, og gömlum marxista sýnist kapítalisminn haga sér kórrétt eftir hinum kerfislægu hreyfilögmálum. Greining Leníns á heimsvaldastefnunni hefur aldri átt betur við.

Fremsti áskorandi Vestursins er Kína eftir að landið gekk á braut kapítalisma og hóf fulla samkeppni um heimsmarkaðinn. Á síðasta áratug fór Kína fram úr Japan sem næststærsta hagkerfi heims. Landið komst í fyrsta sætið sem iðnaðarframleiðandi og dregur ört á Bandaríkin í þjóðarframleiðslu. Ekki síst er Kína nú orðinn stærsti útflytjandi heims og næststærsti innflytjandinn. (http://en.wikipedia.org/wiki/Economy_of_the_People's_Republic_of_China)

Kína hefur getað notað sér það opna umhverfi um viðskiptin sem vestrænu auðhringarnir höfðu komið á í "hnattvæðingar"-kappi sínu. Framsókn Kína er eðlilega á kostnað keppinauta eins og Bandaríkjanna og ESB-ríkja.

En efnahagsstyrkur er ekki allt. Pólitískur, diplómatískur og hernaðarlegur styrkur Kína er langt í frá í samræmi við hinn efnahagslega. Eins er um hernaðarmáttinn. Hernaðarlegir yfirburðir Bandaríkjanna eru óskertir. Þróun Kína er reyndar hliðstæð þróun Bandaríkjanna áður fyrr. Þau fóru fram úr öllum í efnahagsstyrk um aldamótin 1900 en ekki pólitískt og hernaðarlega fyrr en í seinni heimsstyrjöld. Samkvæmt Lenín var það misræmið milli efnahagsstyrks og áhrifasvæðis sem var efni í stórstyrjaldir. Og aðstæður nútímans eru mjög hliðstæðar. Pólitískur styrkur Vesturblokkarinnar annars vegar og hins vegar hlutfallslegt undanhald hennar á efnahagssviði er efni í landskjálfta. Stríðin eru eins og áður um áhrifasvæði þótt formleg skiptingin í yfirráðasvæði sé ekki með sama hætti og á nýlendutímanum. Annað sem er ólíkt er það að framan af 20. öld var það "nýja ljónið" í skóginum, Þýskaland, sem sýndi mesta árásarhneigð og sárvantaði áhrifasvæði. Nú eru "gömlu ljónin" herskáust en Kína byggir sókn sína á markaðslegum aðferðum.

Kína er ekki eitt og stakt. Fleiri iðnveldi sækja fram - Indland, Rússland, Brasilía - og hafa áhrif í sömu átt. Bandaríkin hafa m.a. brugðist við hinum nýju áskorunum, sem að miklu leyti koma frá Asíu , með því að byggja upp Kyrrahafsheraflann. Auk þess bregðast þau við með því að tengjast Evrópuveldunum nánari böndum. Það kemur fram í endursköpuðu NATO. Það kemur ekki síður fram í nýju stríðunum sem áður voru nefnd. Þar eru ESB-ríkin "Björn að baki Kára" og eru miklu meira innblönduð í þau stríð en þau voru í hernaðarbrölt Bandaríkjanna fram að því. EES-ríkið Ísland styður líka öll þessi stríð óháð stjórnarmunstri. Þjóðin er reyndar ekki spurð, hvorki í ESB-löndum né á Íslandi.

Eftir uppgangstíma eftirstríðsáranna hefur kapítalisminn sýnt vaxandi merki stöðnunar frá og með 8. áratug og dýpkandi kreppur sækja á hann reglulega. Dýpsta kreppan stendur yfir og dýpkar enn. Eitt þeirra lögmála sem Marx skilgreindi á kapítalismanum var að kreppur væru þar óhjákvæmilegar. Ekki skal ég útlista það lögmál hér en af því leiðir eðlilega af að kreppa eykur á árásrgirni. Fyrir því er líka söguleg reynsla, og síðari heimsstyrjöld var skilgetið afkvæmi kreppunnar miklu á 4. áratug. Reyndar var það ekkert annað en hervæðing og síðan styrjöld sem þá náði að leysa kapítalismann úr kreppunni. Kapítalisminn minnir á sturlaðan fjárhættuspilara. Kannski er stríð eina lausn kapítalismans á vandamálum sínum. En það er ekki lausn fyrir mannkynið.

6. Djöfullinn við stýrið

Herferðin gegn Sýrlandsstjórn hefur ekkert með mannréttindi í Sýrlandi að gera. Liðssafnaðurinn gegn Íran hefur ekkert með gjöreyðingarvopn að gera. En í báðum löndum eru þjóðernissinnaðar stjórnir, andsnúnar vestrænum heimsvaldasinnum og hnattvæðingarprógrammi þeirra. Enn fremur eru þetta nú einu löndin í Miðausturlöndum sem eru í bandalagi við helstu keppinautana, Kínverja og Rússa. Búið er að reka Kínverja út úr Líbíu eftir Líbíustríðið og olíuviðskipti þeirra við Íran eru þeim lífsspursmál. Ef Vesturblokkin nær fram sínum valdaskiptum í Íran hefur hún kverkatak á Kína. Íran og Sýrland eru peð í baráttunni um heimsyfirráð. Stefna USA og Vesturblokkarinnar undanfarin 20 ár er ekki skiljanleg nema sem sókn að fullum heimsyfirráðum.

Ef einhverjum finnst þetta vera samsærishugsun er það líklega af því hann/hún skilur ekki að heimsvaldasinnar geta ekki farið í stríð undir formerkjum sannleikans. Ef þeir segja hreinskilnislega t.d. "við þurfum í stríð til að viðhalda forræði Vesturlanda" eru þeir kjánar. Þeir verða að ljúga. Því meiri lygi því skynsamari eru þeir. Þeir þurfa á öllum sínum fréttastofum að halda og láta blekkingavaðalinn ganga linnulaust.

Kapítalisminn stefnir með okkur lengra út í voða og villimennsku. Næsti voði sýnist nú vera meiri háttar styrjöld í Miðausturlöndum. Djöfullinn er við stýrið. Djöfullinn heitir "gróðasókn". Það er naumur tími til að koma í veg fyrir þessi ósköp. Þeir friðarsinnar sem halda að ófriðarhættan stafi af illsku, þröngsýni eða fordómum fólks eða þá þjóðernishyggju og ofstæki einhverra smákónga á ófriðarsvæðum eru því miður nytsamir sakleysingjar í neti heimsvaldasinna.