Nýlendan Ísland 5: Um 1990.

Allt fram yfir 1990 var íslenska fjármálakerfið á hendi ríkisvaldsins. Bankarnir voru í eigu ríkisins og var stýrt af fulltrúum pólitískra afla, aðallega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fjárfest var í ýmiskonar atvinnutækjum, aðallega fiskiskipum og frystihúsum og atvinnulíf og útflutningur byggðist á því. Flugleiðir og Eimskip voru miðstöðvar hins svokallaða kolkrabba, auðhrings sem stýrði þeim hluta atvinnulífsins sem var undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, eða notaði þann flokk til að gæta hagsmuna sinna hjá ríkisvaldinu. Morgunblaðið var málgagn þessara afla og í því var hamast á móti samvinnurekstri, verkalýðsfélögum, sósíalisma og öðru slíku.

Um 1990 hrundi hinn auðhringur landsins, Samvinnuhreyfingin, Samband íslenskra samvinnufélaga. Þar með missti Framsóknarflokkurinn mikilvægasta bakhjarl sinn. Að vísu hvarf ekki öll sú starfsemi sem Sambandið hafði haft með höndum, en á Akureyri lögðust verksmiðjur Sambandsins næstum af. Hætt var að mestu að vinna úr hráefni frá landbúnaðinum, ull og skinnum. Úrvinnsla úr mjólk og kjöti hélt áfram og helst enn, en er ógnað ef Ísland gengur í Evrópusambandið.

Hrun Sovétríkjanna árið 1991 var mesti stórviðburður þessa tíma og markaði tímamót. Þótt Sovétríkin hefðu lengi verið gagnrýnd af vinstri mönnum fyrir heimsvaldatilburði og skrifstofubákn voru þau ákveðið tákn fyrir hreyfinguna. Þau höfðu líka verið brjóstvörn baráttunnar gegn heimsvaldastefnunni. Afstaðan til þeirra var nokkuð önnur í þriðja heiminum en í Vestur-Evrópu. Sá andkommúnismi og tortryggni út í Sovétríkin sem er svo áberandi í Bandaríkjunum og víða í Evrópu var ekki til staðar í sama mæli í þriðja heiminum, sem hafði notið mikillar hjálpar og stuðnings í frelsisbaráttu sinni frá Sovétríkjunum og Kína. Sú frelsisbarátta var einmitt háð gegn heimsvaldaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Tvö fyrrnefndu ríkin mynduðu ásamt Þýskalandi kjarnann í Evrópusambandinu. Þau fundu sér þar með nýtt hlutverk en voru áfram valda- og umsvifamikil í fyrrum nýlendum sínum, sérstaklega Frakkar.

Með hruni Sovétríkjanna fékk nýfrjálshyggjan frítt spil. Nú lá gjörvöll Austur-Evrópa fyrir fótum hennar, og í gang var sett mikið frjálshyggjuprójekt. Ríkisvaldið skyldi lagt af. Í reynd táknaði það að öll þjónusta við almenning á sviði heilsugæslu og almannatrygginga var skorin niður en fyrirtæki í eigu ríkisins seld óligörkum fyrir lítinn pening. Afleiðingin varð þjóðfélagshrun í Austur-Evrópu sem olli gífurlegi eyðileggingu í þessum samfélögum. Þegar um 1995 voru fyrrverandi sósíalistar búnir að ná völdum á ný í mörgum Austur-Evrópulöndum.

Staða heimsvaldastefnunnar og einokunarauðvaldsins um 1990 var í raun þannig að ekkert hafði breyst frá 1916, þegar Lenín gerði greiningu sína á því. Enn voru fjögur lönd kjarnalönd einokunarauðvaldsins, Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland og Bretland. Staðan er sú sama enn þann dag í dag. Löndin réðu að vísu ekki yfir nýlendum eins og 1916, heldur höfðu þær allar gert uppreisn og voru orðnar sjálfstæðar pólitískt séð. Þrátt fyrir það voru yfirráð heimsvaldalandanna í fyrrverandi nýlendum mjög mikil á nær öllum sviðum, menningarlega, efnahagslega og á stjórnmálasviðinu. Ræða má um að þriðja heims löndin séu mjög háð fyrrverandi nýlendukúgurum sínum, kjarnalöndum einokunarauðvaldsins. Í Suður-Ameríku skipuleggur yfirvaldið, Bandaríkin, morð á forsetum landanna ef þeir makka ekki rétt.

Á níunda áratugnum hófst hnignun iðnaðar í kjarnalöndunum. Til varð það sem kallað er ryðbelti í Bandaríkjunum, svæði borga með hnignandi iðnaði og atvinnuleysi. Fólk flutti í stórum stíl frá iðnaðarborgum í norðvesturhluta Bandaríkjanna og til Florida eða Kaliforníu. Hinar nýju iðngreinar, tölvuiðnaður og fjölmiðlaiðnaður blómstruðu þar. Í Bretlandi réðist Margaret Thatcher á verkalýðsstéttina á 9. áratugnum og lagði niður nær allar kolanámur, þar sem kjarnaöreigar tímabilsins í kring um 1916 unnu. Kola- og stáliðnaður var ekki lengur strategískt mikilvægur fyrir yfirráð einokunarauðvaldsins. Á þeim tíma þegar Lenín skrifaði Heimsvaldastefnuna var stál nauðsynlegt til flestra hluta, ekki síst í járnbrautir, skip og vopn. Þá miðuðu verkalýðsflokkarnir strategíu sína við að ná áhrifum meðal kjarnaöreiga, þeirra sem framleiddu þessa mikilvægu vöru. Það fyrsta sem kommúnistar gerðu eftir að hafa náð yfirráðum í Rússlandi var að skapa slíkan iðnað, og það kom þeim líka vel í síðari heimsstyrjöld, T-34 skriðdrekarnir drápu fasista eins og gítar Woody Guthrie síðar. This machine kills fascists.

Um 1975 áttuðu stjórnendur auðvaldsríkjanna sig á því að þeir áttu við mjög alvarlega kreppu að stríða. Lenín talaði í bók sinni um heimsvaldastefnuna um hnignandi auðvald, rotnandi auðvald, almenna kreppu auðvaldsins sem hófst um 1900, og skapaði síðan sjálfur það sósíalíska ríki sem hélt lífi í von mannkyns á kreppu- og stríðstímum 20. aldar, má segja. Áhrif Sovétríkjanna voru ótrúleg, bæði í þriðja heiminum og þeim fyrsta. Öllum að óvörum féll þetta ríki, að líkindum að stórum hluta vegna þeirra miklu gagnrýni sem það varð fyrir í Evrópu eftir 17. júní 1953 í Austur-Þýskalandi, uppreisnina í Ungverjalandi 1956, vorið í Prag 1968 og Samstöðuhreyfinguna í Póllandi 1981. Það var alþýða Austur-Evrópu sem felldi Sovétríkin. En það breytir því ekki að það kerfi sem þetta fólk þráði var merkt dauðanum. Vestur-Þýskaland, Bretland, Norðurlönd voru eins og auglýsingagluggi fyrir kapítalismann, fólk í Austur-Evrópu þráði það sem það sá í sjónvarpinu og var fyrir vestan. Hluti af dauðateygjum hins hnignandi einokunarauðvalds var einmitt þróun auglýsinga- og kreditkortaiðnaðarins, sem lengdi örlítið í hengingaról auðvaldsins. Og það var þessi iðnaður sem átti talsverðan þátt í falli sósíalísku ríkjanna í Austur-Evrópu.

Bak við þessa framhlið var hræðilegur veruleiki: Kúgun í þriðja heiminum, hnignun í auðvaldslöndunum. Mjög hægði á hagvexti eftir 1975 í Evrópu og Bandaríkjunum. Margt var reynt til að koma honum af stað að nýju, en allt var það til einskis. Meðal þess sem einokunarauðvaldið reyndi var að flytja nær allan iðnað frá Bandaríkjunum og Bretlandi til ríkja eins og Kína, Indónesíu, Filippseyja og Víetnam. Þar var hægt að fá ódýrara vinnuafl en í heimalöndunum. Þar var líka komið á fót svokölluðum enklövum, svæðum sem voru í raun utan laga og réttar, og níðst var á vinnuafli Asíulandanna. Fólkið vann í verksmiðjum sem framleiddu til útflutnings og fékk lágmarkslaun, og eins og lýst er í riti Naomi Klein, No logo, fengust engar greiðslur til viðhalds vinnuaflsins, heilbrigðismála, skólamála og annars. Það áttu hin örfátæku lönd Suðvestur-Asíu að sjá sjálf um. Þetta var kallað efnahagsþróun. Heimsvaldastefnan hafði enn einu sinni tekið á sig viðbjóðslegt yfirbragð, og strigaskór, bolir og aðrar vörur fengust ódýrar í Wal-Mart og Hagkaupi.

Miklar mótmælaaðgerðir hófust gegn alheimsvæðingunni árið 1999 í Seattle í Bandaríkjunum. Þar voru að verki svokallaðir aktívistar, anarkistar, græningjar og annað róttækt fólk sem kunni ekki við það sem það sá. Mótmælaaðgerðirnar héldu áfram víða um heim allt fram til 2001, og raunar eftir það.

Heimsauðvaldið varð æ örvæntingarfyllra. Hvorki alheimsvæðing né netbóla gerði nokkuð til að örva hagvöxt. Brjálæðisleg einkavæðing á öllum sviðum heilbriðgismála, menntamála, samgöngumála, t.d. í Bretlandi, gerði það ekki heldur. Um 2001 hófst ný sókn einokunarauðvaldsins, nú á sviði fjármálaþjónustu. Risafjárhæðir voru skapaðar í tölvukerfum auðvaldsríkjanna og þær flugu æ hraðar um allan heim.

Nýlendan Ísland 1 - til 1914

Nýlendan Ísland 2: Tímabilið 1900-1940

Nýlendan Ísland 3: Tímabilið 1940-1950

Nýlendan Ísland 4: Tímabilið 1950-1990

Nýlendan Ísland 5: Um 1990