Nýlendan Ísland 4: Tímabilið 1950-1990

Hinar miklu breytingar sem urðu á valdahlutföllum stéttanna á Íslandi árið 1949 settu mark sitt á næstu áratugi. Verkalýðsstéttin, almenningur, hafði beðið ósigur fyrir heimsvaldastefnunni. Íslendingar bjuggu undir hæl hennar á meðan hvert landið af öðru varð frjálst, í Afríku, Asíu og jafnvel í bakgarði Bandaríkjanna, á Kúbu. Andstaðan við hersetuna var gríðarleg og tvisvar sinnum náðu völdum stjórnir sem höfðu brottför hersins á verkefnaskrá sinni. Andspyrnan gegn heimsvaldastefnunni náði ekki að hagga við hernum, en leitaði útrásar í andheimsvaldasinnaðri pólitík í fiskveiðum. Landhelgin var færð út hvað eftir annað og varð það fyrirmynd sams konar aðgerða hvarvetna í þriðja heiminum. Breski togaraflotinn var sendur heim með skottið á milli fótanna. Breska heimsveldið varð að láta Íslandsmið af hendi.

Verkalýðsstéttin háði verkföll undir forystu sósíalista, en þau breyttu litlu um valdahlutföllin. Eins konar tvíveldi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var ríkjandi. Sjálfstæðisflokkur hafði stóreflst með tilkomu hernámsins og kalda stríðið færði honum marga sigra á sviði áróðurs og hugmyndafræði. Einnig marga ósigra, sérstaklega eftir að styrjöldin í Víetnam harðnaði fyrir alvöru. Framsóknarflokkur byggði valdakerfi sitt á samvinnuhreyfingunni og stóð fyrir rafvæðingu sveitanna á áratugnum 1950-1960. Gríðarlegar framfarir urðu í sveitunum, nýtt húsnæði byggt, tún ræktuð, heyskapurinn vélvæddur, framleiðnin jókst, bændur urðu jafnokar bæjarbúa hvað varðaði menningu og efnahag. Það var að minnsta kosti stefna stjórnvalda. Og opinber hugmyndafræði var að íslensk menning ætti heima í sveitinni.

Í þéttbýlinu urðu líka framfarir. Reykjavík óx ört og sérstaklega úthverfi hennar. Fátt var um nýjungar í atvinnulífi, þó voru tvær stórar verksmiðjur reistar fyrir Marshallfé: Áburðarverksmiðjan í Gufunesi og Sementsverksmiðjan á Akranesi. Einnig varð mikil útþensla í velferðarkerfinu. Menntakerfið óx hratt, heilbrigðiskerfið einnig og tryggingakerfið var smám saman bætt. Tækninýjungar eins sjónvarp breyttu öllu yfirbragði þjóðlífsins á 7. áratugnum. Hagvöxtur í kjarnalöndum auðvaldsins var umtalsverður á þessu tímabili, 1950-1970, miklu meiri en nokkurn tíma á tímabilinu 1970-2009. Ef til vill má rekja það til þess að árið 1945 stóð verkalýðshreyfing og réttindabarátta almennings tiltölulega sterkt í auðvaldsríkjunum. Naomi Klein hefur á einum stað lýst því hve samstaða og barátta almennings í Bandaríkjunum var öflug á kreppuárunum. Neyðin var mikil, en samhjálp og samstaða einnig. Þetta skilaði sér á eftirstríðsárunum. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur hefur haldið því fram að jöfnuður og tiltölulega miklar tekjur almennings séu lang líklegastar til að skila jöfnum og miklum hagvexti, og má það til sanns vegar færa út frá reynslu tímabilsins 1945-1970.

Ekki má gleyma því að Sovétríkin voru stöðug ógn og áminning borgarastéttinni um að haga sér nú almennilega. Þetta kom fram í því að hlutur verkalýðsstéttarinnar af framleiðsluverðmæti í kjarnaríkjum auðvaldsins, sem laun, hækkaði um 1930 og hélst tiltölulega hár allt fram yfir 1980. Þá lækkaði þessi hlutur.

Ein nýjung í íslenska atvinnulífinu kom fram árið 1967 sem var á sinn hátt jafn ískyggileg og hernámið. Það var bygging álversins í Straumsvík. Heimsvaldastefnan hefur hvarvetna lagt hald á auðlindir, námur, orkuauðlindir og gróðurmold. Hér var fyrir forgöngu Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks farið út á þá óheillabraut að virkja íslensk fallvötn til að selja orkuna erlendum auðhringum. Sérstaklega í ljósi síðari tíma þróunar var þetta mikið óheillaskref. Hagfræðingurinn Þórólfur Matthíasson hefur lýst því svo að Austfjörðum hafi verið bjargað en Ísland sokkið með framkvæmdunum við Kárahnjúka. Orkusalan hefur alltaf verið mjög umdeild, því verðið sem fæst fyrir orkuna er svo lágt. Með þessu var Ísland í annað sinn innlimað í hráefnakerfi heimsvaldastefnunnar, en fyrri tilrauninni, þeirri að hernema fiskimiðinn, hafði verið hrundið með útfærslu landhelginnar. Álverið í Straumsvík er nú í eigu hins alræmda auðhrings Rio Tinto.

Annars einkenndist tímabilið 1950-1990 fyrst og fremst af vexti sjávarútvegs, útfærslu landhelginnar og almennum framförum á öllum sviðum. Sérstaklega reyndust vinstri stjórnir hagstæðar almenningi, svo sem eins og vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar árið 1971-1974. Raunar varð ýmislegt af því sem sú stjórn gerði til þess að styrkja stöðu auðmagnsins og búa í haginn fyrir alveldi þess á tímabilinu 1990-2008. Þar má nefna skuttogaravæðinguna, sem gerð var í nafni hagkvæmninnar en leiddi til mikillar samþjöppunar víða í sjávarbyggðum. Í landbúnaði hrúgaðist umframframleiðslan upp eftir 1970 og ljóst var að alls ekki var hægt að flytja neitt verulegt af framleiðslunni út, þrátt fyrir að um allan þriðja heiminn væri sveltandi fólk. Heimsmarkaðsverð var of lágt, var sagt. Um allan hinn ríka heim hlóðust upp smjörfjöll og kjötbirgðir, en ekki mátti senda það til sveltandi fólks í þriðja heiminum. Það hefði komið niður á heimsmarkaðsverðinu.

Staðan var sú um 1975 á heimsvísu að heimsvaldastefnan hafði beðið verulega ósigra. Bandaríkin höfðu tapað Víetnamstríðinu. Svo einfalt var það. Portúgalar höfðu tapað nýlendustyrjöldum sínum í Angóla, Mósambik og Guinea-Bissau. Bylting varð í Portúgal í framhaldi af því, eins og uppreisn hafði orðið í Frakklandi í framhaldi af ósigrinum í Alsír. Byltingin í Portúgal 1974 var um skeið mikið áhyggjuefni auðvaldsins, en leystist að lokum farsællega. Miðstöðvar heimsvaldastefnunnar í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi urðu allar fyrir miklum áföllum á tímabilinu 1968-1975, pólitískum, menningarlegum og efnahagslegum. Hugmyndafræði auðvaldsins lá undir árásum frá hippum og róttækum stúdentum, réttindabaráttu svartra, kvenréttindahreyfingunni, Nixon Bandaríkjaforseti varð að segja af sér, og um 1975 lauk hinu mikla hagvaxtarskeiði sem hófst um 1950. En auðvaldið átti eftir að ná sér aftur, í bili.

Á Íslandi ríktu Spilverk þjóðanna og Megas yfir kynslóð sem ennþá gekk í hippamussum og las Marx, Lenín, Maó og Trotskí. Það var róttæka æskulýðshreyfingin. Hún var kjarninn í nýrri róttækni, sem endurnýjaði baráttuna gegn heimsvaldastefnunni. Hún snerist gegn herstöðinni á Miðnesheiði, gegn þáttöku Íslendinga í því bandalagi heimsvaldaríkja sem háði styrjaldir í Víetnam og annars staðar, gegn auðvaldinu, gegn alþjóðaauðhringunum. Attundi áratugurinn var ákveðinn hápunktur róttækni hér á landi, og sterkast kom sú róttækni fram í sigrum kvennahreyfingarinnar. Þessi róttækni sáði fræjum, sem enn eru að koma fram. Róttækir þessara tíma tóku yfirleitt afstöðu gegn Sovétríkjunum, því þau virtust hafa breyst í nýtt heimsvaldaríki. Í raun ríktu risarnir fjórir eftir sem áður, Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Frakkland. Sovétríkin reyndu líklega að leika á sama velli og hið heimsvaldasinnaða einokunarauðvald um skeið, ca. 1970-1990, en tókst það afar illa.

Nýlendan Ísland 1 - til 1914

Nýlendan Ísland 2: Tímabilið 1900-1940

Nýlendan Ísland 3: Tímabilið 1940-1950

Nýlendan Ísland 4: Tímabilið 1950-1990

Nýlendan Ísland 5: Um 1990