Nýlendan Ísland 3: Tímabilið 1940-1950

Tveir auðmagnshópar voru á Íslandi á millistríðsárunum, ef svo má segja, samvinnuhreyfingin og heildsala/togaraauðvaldið. Báðir hóparnir voru í ýmsum tengslum við erlent auðvald, svo sem banka í Danmörku og Bretlandi. Í meginatriðum var þó um að ræða þjóðlegt auðvald, sem ekki gekk erinda erlendra auðhringa, einfaldlega vegna þess að slíkir hringar voru ekki í aðstöðu til að nýta sér auðlindir eða tækifæri á Íslandi á tímabilinu 1914-1940. Ástæðan var fyrst og fremst hin almenna kreppa auðvaldsins, uppskiptastyrjaldir, heimskreppa og framsókn sósíalismans. Auðvaldið var hálf lamað, sérstaklega í kreppunni miklu 1930-1940.

Árið 1939 hófst síðan evrópska borgarastyrjöldin, sem svo hefur verið kölluð, á ný eftir langt vopnahlé. Þjóðverjar hugðu á hefndir, með illvíga og afar ógeðfellda kynþátta- og útþensluhugmyndafræði að vopni. Sú hugmyndafræði var samt ekkert mjög ólík því sem var að finna meðal hvítra nýlendubúa í nýlenduveldum Frakka og Breta, en hennar varð sjaldnar vart með beinum hætti heima í þessum löndum. Í síðari heimsstyrjöldinni tókst bandalag með borgarastétt Bretlands og Bandaríkjanna og sósíalistastjórninni í Sovétríkjunum gegn útþenslustefnu nasismans. Meginþungi styrjaldarinnar hvíldi samt á Rússum. Sú óvænta niðurstaða að Sovétríkin, höfuðvígi verkalýðshreyfingar og baráttu gegn heimsvaldastefnu, skyldu nánast á eigin spýtur sigra eitt af kjarnalöndum heimsvaldastefnunnar í styrjöld var heimsauðvaldinu mikið áfall. Næstu 40 árin stóðu hrikaleg átök milli sósíalismans og frelsishreyfinga í nýlendum annars vegar og heimsvaldaríkjanna hins vegar. Heimsvaldastefnan fékk heldur betur á baukinn og heimsvaldaríkin Bretland og Frakkland misstu mikið af valdi sínu og áhrifum. Kína bættist í hóp andheimsvaldaríkjanna með sósíalisma að sovéskri fyrirmynd að leiðarljósi. Hörðustu átökin í kalda stríðinu (1947-1989) urðu einmitt á jöðrum Kínaveldis, í Kóreu og Víetnam.

Þann 10. maí árið 1940 réðist breski herinn á Ísland. Fátt varð um varnir, enginn her í landinu og Danmörk var hernumin. Danmörk átti jú að sjá um landvarnir hér en var að sjálfsögðu ekki í aðstöðu til að sinna því. Hernámið var í raun ekki hefðbundið heimsvaldahernám, menning og efnahagslíf heimamanna var látin í friði. Bretland hafði alltaf haft mikil áhrif á Íslandi og Íslendingar þekktu því vel til Bretlands. Ekki fór samt hjá því að umtalsverð þjóðfélagsátök yrðu vegna hernámsins. Ástæðan var sú að hernámið setti allt efnahagslífið á annan endann. Kyrrstaða kreppuáranna var rofin, og fjöldaflutningar hófust úr sveitinni á mölina. Vestfirðir urðu langverst úti, þar hrundi byggð á stórum svæðum og fækkaði mjög mikið í sveitum. Norðurland hélt sínu betur, sem og Suðurlandsundirlendið og Borgarfjörður.

Þannig færði heimsvaldastefna kapítalismans landinu mikinn skell eða áfall, sem var að ýmsu leyti ekki ólíkur þeim skelli sem landið varð fyrir 29. september 2008. Áfallið 1940 stafaði einfaldlega af því að mjög mikið peningamagn kom allt í einu inn í hagkerfi sem hafði náð ákveðnu jafnvægi eftir kreppuaðgerðir stjórnvalda. Þetta var á þeim tíma túlkað mjög jákvætt, en öllum var ljós spillingin sem fylgdi með hernámsliðinu, og margir skelfdust hana. Ekki skánaði ástandið þegar Bandaríkjaher tók við vörnum landsins af Bretum, Bandaríkjamenn voru miklu betur stæðir en Bretar og fjármagnið flæddi inn í landið. Afleiðingarnar í sjávarþorpum landsins voru t.d. þær að fólk hætti margt að rækta kartöflur, halda kýr og stunda annan smábúskap, það borgaði sig ekki lengur. Tekjurnar af vinnunni fyrir herliðið voru svo miklar.

Nú fór heldur betur að draga upp á himininn í viðureign Íslendinga við heimsvaldastefnuna. Bandaríski herinn fór af landi brott, en um allan heim hrönnuðust upp ófriðarský. Samstjórn Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks, fyrsta stjórn lýðveldisins, féll árið 1946 eftir tveggja ára setu. Ástæðan var ágreiningur um nýjan herverndarsamning sem færði Bandaríkjamönnum yfirráðin yfir Keflavíkurflugvelli. Enginn her átti að vera þar. Samningurinn var liður í undirbúningi Bandaríkjamanna fyrir átökin um Evrópu. Ein af höfuðborgum heimsauðvaldsins, Berlín, var að hálfu á valdi óvinarins og umkringd sósíalísku landi. Kapítalisminn háði baráttu upp á líf og dauða um yfirráð í Evrópu. Kommúnistar voru öflugir í Frakklandi og á Ítalíu og búist var við valdatöku kommúnista á meginlandi Evrópu á hverri stundu. Kommúnistar sigruðu í þingkosningum í Tékkóslóvakíu og tóku þar völdin. Sovétmenn lokuðu aðgangi að Berlín á landi og Bandaríkjamenn skipulögðu loftbrú til að sjá borginni fyrir nauðsynjum. Í Kína náðu kommúnistar völdum í fjölmennasta ríki heims. Heimsvaldastefna og kapítalismi beið þar með einn sinn stærsta ósigur á 20. öld.

Skelfingin ríkti í höfuðstöðvum einokunarauðvaldsins. Í Evrópu var sett af stað gríðarleg "hjálparstarfsemi", Marshallaðstoðin, sem fólst í því að dæla þangað miklum fjármunum frá Bandaríkjunum. Þetta er ekki ólíkt núverandi ástandi; fjármunum er dælt inn í hagkerfi kjarnaríkja auðvaldsins til að halda valdakerfi kapítalismans þar á floti, en munurinn er sá að nú njóta Íslendingar ekki neins af þessari gjafmildi. Það gerðu þeir hins vegar 1947-9.

Hervæðing hófst á ný í Bandaríkjunum. Þau réðu yfir kjarnorkusprengjunni, en ekki leið á löngu þar til Sovétmenn höfðu sína eigin sprengju. Ekki var um annað að ræða en hervæðast í alvöru, með herútboði, uppbyggingu flota, flughers og landhers, og þessi her þurfti að komast frá Ameríku til Evrópu. Ísland varð fyrir valinu, ásamt með Azoreyjum, sem lykilherstöð. Íslensk stjórnvöld voru beðin um aðstoð, og það sem nú gerðist verður ekki túlkað öðru vísi en að heimsvaldastefnan hafi lagt undir sig landið í óþökk almennings en með stuðningi fámennrar yfirstéttar og fylgismanna hennar. Íslandi var boðin innganga í Atlantshafsbandalagið, hernaðarbandalag heimsvaldastefnunnar, sérstaklega heimsvaldaríkjanna Bandaríkjanna og Bretlands. Stjórnvöld ákváðu að þiggja boðið, en Sósíalistaflokkurinn var á móti. Það var almenningur líka. Þúsundir manna mótmæltu á Austurvelli þann 30. mars árið 1949. Valdi lögreglu og hvítliða var beitt gegn mótmælendum, og andspyrnan hrundi. Menn lögðu ekki út í frekari beina andspyrnu gegn ofbeldinu, enda engin hefð fyrir vopnaðri baráttu í landinu.

Það sem á eftir fylgdi var hálfgerð martröð. Kalda stríðið lagði klakabönd á alla samfélagsumræðu og framsækna starfsemi næstu 20 árin. Bandaríkjamenn komu til landsins með mikið herlið árið 1951 og þaðan flutu dollararnir inn í þjóðlífið. Ísland varð eins og svo margar eyjar í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi herstöð á vegum Bandaríkjanna. Örlög Íslendinga urðu þó ekki eins slæm og örlög íbúa eyjarinnar Diego Garcia í Indlandshafi. Þeir voru allir fluttir á brott og hafa ekki fengið að snúa til heimkynna sinna enn þann dag í dag.

Nýlendan Ísland 1 - til 1914

Nýlendan Ísland 2: Tímabilið 1900-1940

Nýlendan Ísland 3: Tímabilið 1940-1950

Nýlendan Ísland 4: Tímabilið 1950-1990

Nýlendan Ísland 5: Um 1990