Nýlendan Ísland 2: Tímabilið 1900-1940

Í síðustu grein var rætt um stöðu Íslands í heimskerfinu um 1900. Bent var á að Ísland hefði ekki tilheyrt þeim meginhluta heimsins þar sem bjó fólk, dökkt, rautt eða gult á hörund, sem hvítir menn töldu sér rétt og skylt að kenna kristni og aðra góða siði með vélbyssur að vopni. Í þessum löndum ríkti grímulaust ofríki ofbeldisfullrar heimsvaldastefnu, kynþáttahyggju og kapítalisma. Megineinkenni íslenska samfélagsins voru hins vegar öflug smábændahreyfing, líkt og á öðrum Norðurlöndum, sjálfstætt, innlent auðvald og vaxandi verkalýðsstétt

Ísland var þó svo sannarlega á áhrifasvæði heimsvaldastefnunnar. Þær auðlindir sem heimsvaldaríkin ásældust hér um slóðir voru hvorki málmar né jarðarávextir heldur fiskur. Breska heimsveldið gerði út togara, sem frá því um 1890 fóru að veiða þorsk við Ísland í miklum mæli. Það hafði þau áhrif að íslenska yfirstéttin sá sér leik á borði að hætta að kúga mótþróafulla smábændur í bandalagi við danska burgeisa, og fór að gera út togara sem fengust fyrir slikk frá Bretlandi. Það var miklu gróðavænlegra og auðveldara, því smábændur voru orðnir hávær og kröfuharður þrýstihópur sem ekkert réðist við. Annar hluti yfirstéttarinnar skipulagði sig kringum innflutning, gerðist heildsalar.

Á tímabilinu frá 1900-1914 ríkti í heiminum hagvöxtur. Heimsvaldaríkin lögðu undir sig það sem eftir var af heiminum, og brátt kom upp hörð samkeppni milli þeirra. Við lá að styrjöld brytist út milli Breta og Frakka 1906. Samkeppni Þjóðverja og Breta fór harðnandi. Þjóðverjar voru orðnir öflugasta iðnveldi Evrópu um 1900, og komnir langt fram úr Bretum um 1914. Þeir voru bæði fjölmennari og réðu yfir nýtískulegri iðnaði en Bretar. Þjóðverjum gramdist að hafa aðeins fengið leifarnar af heiminum fyrir nýlendur á tíma nýlendukapphlaupsins 1885-1914. Þeir áttu fáar og fátækar nýlendur.

Samkeppni Þjóðverja og Breta leiddi að lokum til heimsstyrjaldarinnar miklu 1914-1918. Orsakir styrjaldarinnar má rekja beint til samkeppni milli tveggja einokunarauðvaldshópa, Þjóðverja annars vegar og Breta og Frakka hins vegar. Styrjöldin var uppskiptastyrjöld, Þjóðverjar ætluðu sér stærri bita af kökunni, þeir vildu fá frjálsar hendur í Miðausturlöndum og víðar. Markmið heimsvaldaríkjanna náðust engan veginn, því nú fór allt í vitleysu. Allt tímabilið 1914-1945 var samfelld kreppa og dauðastríð evrópsku heimsvaldastefnunnar, og stóð á vissan hátt alveg til 1980. Útfærsla landhelginnar á Íslandsmiðum var eins og táknrænn síðasti nagli í líkkistuna. Við vorum heppin að Thatcher var ekki komin til valda þá.

Meðal afleiðinga neyðarástandsins sem skapaðist á Íslandi í fyrra stríði var stofnun Landsverslunar. Henni var ætlað að tryggja landsmönnum lágmarks nauðsynjar, var eins konar neyðarstjórn þess tíma. Landsverslun var stofnuð í lok fyrri heimsstyrjaldar þegar mikill skortur varð á lífsnauðsynjum eins og kolum. Á þeim tíma sat bændahreyfingin í ríkisstjórn og hún skipulagði og hafði umsjón með uppbyggingu Landsverslunar. Samvinnuhreyfingin var þegar orðin öflug og hafði útrýmt dönskum kaupmönnum frá mörgum kaupstöðum, að minnsta kosti norðan lands og austan, á tímabilinu 1905-1914. Bændur gátu nú verslað við eigin verslanir, kaupfélögin, og eftir fyrra stríð tengdust kaupfélögin og Landsverslun þannig að samvinnuhreyfingin náði forræði í verslun á öllu landinu.

Á sama tíma fór Jónas Jónsson frá Hriflu hamförum, stofnaði bæði Framsóknarflokk og Alþýðuflokk og hamaðist gegn íhaldssamri og dansksinnaðri yfirstétt landsins í harðorðum og óvægnum skrifum. Jónas var afar öflugur. Hann var vinur Hallgríms Kristinssonar, sem öllu réði í samvinnuhreyfingunni og hafði skipulagt Landsverslun. Saman gerðu þeir smábændahreyfinguna að stórveldi í íslensku þjóðlífi. Á millistríðsárunum varð Framsóknarflokkurinn að ríkisberandi flokk Íslands, líkt og bændaflokkurinn Venstre var í Danmörku áður en Sósíaldemókratar öðluðust þann sess. Framsóknarmenn stýrðu nútímavæðingu sveitanna með vegagerð, brúarbyggingum og mjólkursölulögum, og þeir voru í stjórninni sem setti lög um almannatryggingar. Hin íhaldssami hluti yfirstéttarinnar var samt mjög áhrifaríkur, og sat einn að framhaldsmenntun í höfuðborginni með yfirráðum yfir Menntaskólanum í Reykjavík. Stofnun Menntaskólans á Akureyri var á vegum Jónasar Jónssonar, sem vildi auka fjölda sveitamanna í hópi menntamanna.

Á millistríðsárunum var gengi borgarastéttarinnar fallvalt. Tímabilið 1923-1930 gengu þorskveiðar vel og togaraútgerð blómstraði. Reykjavík óx og óx, fyrst og fremst sem höfuðborg, miðstöð stjórnkerfis, verslunar og viðskipta, en auðvitað líka sem útgerðarborg. Lítil iðnvæðing varð og verkalýðsstétt höfuðborgarinnar hafði sitt höfuðvígi við höfnina, meðal félagsmanna í verkalýðsfélaginu Dagsbrún. Á tímabilinu 1930-1940 kvað við annan tón. Kreppan sótti Ísland heim og olli hruni þorskveiða og togaraútgerðar. Mikil þjóðfélagsátök urðu, með óeirðum árið 1932, Gúttóslagnum. Borgarastéttin lét undan. Um 1936 var svo komið að nær allt atvinnulíf úti á landi var annaðhvort í höndum samvinnufélaga eða sveitarfélaga, og í Reykjavík var stærsta félagið í togaraútgerð, Kveldúlfur, gjaldþrota. Til mála kom að þjóðnýta félagið. Nærri lá að kapítalisminn yrði sjálfdauður á Íslandi, og allt tímabilið 1934-1938 réði stjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks ríkjum með róttæk markmið að leiðarljósi. Hagur alþýðu til sjávar og sveita var í fyrirrúmi.

Kreppan gerði að verkum að iðnaður óx mjög í Reykjavík. Hagkvæmara varð að framleiða hlutina í bænum sjálfum heldur en að flytja þá inn. Verksmiðjur spruttu upp og framleiddu sápu, gos, smjörlíki og annað slíkt. Á þessum tíma hófst líka uppbygging iðnaðar á Akureyri. Þar varð til mikil verksmiðjusamsteypa, SÍS-verksmiðjurnar, sem unnu úr innlendu hráefni, ull og skinnum. Mjólkuriðnaður óx og dafnaði bæði á Akureyri og í Reykjavík.

Enn sem komið var hafði Ísland haft lítil bein kynni af heimsvaldastefnunni. Bretland og fleiri lönd sendu þó alltaf einhverja togara til veiða á Íslandsmiðum. Nasistar lögðu ást á Ísland, þar sem hinn hreini kynstofn bjó að þeirra mati. Hinn hreini kynstofn var hins vegar á fullri ferð við að endurskilgreina sig, rithöfundar eins og Halldór Laxness spruttu upp úr jarðvegi sósíalisma og verkalýðsbaráttu og gagnrýndu smábændahreyfinguna og hugmyndafræði hennar, jafnt sem kapítalistana og kúgun þeirra á verkalýðsstéttinni. Íslensk þjóðernisstefna varð íhaldssamari með árunum og rak til að mynda konur inn á heimilin um 1930 með hugmyndafræðilegri herferð. Hins vegar náði íslensk þjóðernisstefna varla að tengjast kynþáttahyggju traustum böndum á þessum tíma, meðal annars af því að Ísland var ekki öflugt heimsvaldaríki og stóð ekki beint að nýlendukúgun. Seint á 6. og sérstaklega á 8. áratugnum tók Ísland sér svo stöðu meðal baráttuafla gegn heimsvaldastefnu, þegar landhelgin var færð út.

Nýlendan Ísland 1 - til 1914

Nýlendan Ísland 2: Tímabilið 1900-1940

Nýlendan Ísland 3: Tímabilið 1940-1950

Nýlendan Ísland 4: Tímabilið 1950-1990

Nýlendan Ísland 5: Um 1990