Nýlendan Ísland 1 - til 1914

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stefnir að því að gera Ísland að hráefnanýlendu heimsauðvaldsins. Hér er m.a. mikið af "hreinni" orku, bæði vatnsorku, jarðhita og vindorku, fögur náttúra sem gæti hentað sem afslöppunarsvæði fyrir þreytta forstjóra alþjóðlegra stórfyrirtækja, og olía á Drekasvæðinu. Þetta eru þau not sem alþjóðaauðvaldið ætlar að hafa af Íslandi eftir bankahrunið. Gjaldþrota ríkisvald og nauðstödd alþýða er óskastaða AGS, en líklega hafa þeir ekki búist við uppreisn almennings. Ríkisstjórninni sem þeir sömdu við um þetta var einfaldlega velt í janúarbyltingunni, innan fjögurra mánaða frá bankahruninu. Þetta breytir allri stöðunni og gefur von um að AGS muni ekki veitast svo létt að innlima landið að fullu í heimskerfi arðránsins.

Í nokkrum greinum verður staða Íslands í heimskerfinu rædd. Tekið verður mið af greiningu Leníns á einokunarauðvaldinu í bók hans "Heimsvaldastefnan", sem fyrst kom út 1916. Þar stendur m.a.:

Fáeinir einokarar hrifsa til sín ráðin yfir verzlunar- og iðnaðarframkvæmdum alls auðvaldsþjóðfélagsins. Þeim gefst í fyrsta lagi kostur á því, vegna bankasambanda sinna, viðskiptareikninga og annarra fjármálaráðstafana - að öðlast nákvæma vitnesku um hag einstakra kapítalista, og því næst að hafa umsjón með þeim og láta áhrif sinna gæta gagnvart þeim með því að rýmka eða takmarka, létta eða torvelda lántökur þeirra, og loks að kveðja óskorað á um örlög þeirra, ákveða arðsemi fyrirtækja þeirra, svipta þá rekstursfé eða gera þeim kleift að auka það fljótlega og í stórum stíl o.s.frv. (Heimsvaldastefnan ísl. útg. bls. 43).

Þetta hljómar eins og lýsing á íslenska einokunarauðvaldinu, þeir sem upplifa nú afhjúpanir á "spillingu" í íslenska bankakerfinu kannast afar vel við þessa lýsingu. "Spillingin" er einfaldlega lykilþáttur í allri starfsemi bankanna.

Þessi greining er líka lykillinn að greiningu Leníns á því hvernig örfáir fjármálafurstar lögðu undir sig gervallt efnahagskerfi heimsvaldaríkjanna um 1900. Þeir mynduðu stórbanka og auðhringa sem tóku yfir allan iðnað, sérstaklega kola- og járniðnað, mikilvægustu iðngreinar þess tíma. Ríkin voru Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Frakkland. Á eftir fylgdi gríðarleg samkeppni þessara ríkja um áhrif og völd í öðrum heimshlutum, í Suður-Ameríku, Afríku, Asíu og Suðurhafseyjum. Afríku var á örfáum árum skipt upp í nýlendur þessara heimsvaldaríkja og tóku Bretland og Frakkland bróðurpartinn. Innfæddir vörðust hvarvetna af hörku en urðu að láta í minni pokann fyrir vélbyssum og skipulagi hvíta mannsins.

Þetta kerfi stendur enn. Einokunarauðvaldið stýrir heiminum frá miðstöðvum sínum í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Nýjar auðvaldsmiðstöðvar hafa myndast eða eru að myndast í Kína og víðar, en hafa ekki raskað valdajafnvæginu ennþá. Sovétríkin voru langmesta ógnun við heimsauðvaldið á meðan þau stóðu, og í skjóli þeirra urðu nær allar nýlendur heimsins frjálsar á 6. og 7. áratugnum. Eftir 1980 hefur jafnvel verið talað um endurnýjun nýlendustefnunnar í Afríku, hvítir menn nýta sér hrunið ríkisvald í sumum hinna nýfrjálsu ríkja til að rupla og ræna.

Fyrir tíma einokunarauðvaldsins og heimsvaldastefnunnar var við lýði eldri tegund af nýlendustefnu. Hvítir menn fóru um heiminn á seglskipum sínum og lögðu undir sig ákveðna hluta hans. Sums staðar námu þeir land og útrýmdu samfélögum innfæddra, eins og í Norður-Ameríku og Ástralíu, annars staðar blönduðust þeir innfæddum eins og Spánverjar í Suður-Ameríku. Í Karíbahafi útrýmdu hvítir menn samfélögum innfæddra og fluttu þangað í staðinn þræla, sem þeir höfðu keypt í Afríku. Svartir þrælar voru látnir vinna á plantekrum við hræðilegar aðstæður til að framleiða sykur og aðrar nýlenduvörur, sem seldar voru með stórgróða í Evrópu. Stærstur hluti Asíu og Afríku varð ekki nýlendur fyrr en á 19. öld. Kína var aldrei skipt upp á milli heimsvaldaríkjanna.

Meðal þeirra sem tóku þátt í þessari eldri tegund heimsvaldastefnu voru Danir. Þeir áttu þrjár eyjar á Karíbahafi, höfðu þar plantekrur og fluttu þangað þræla. Þar varð þrælauppreisn á 18. öld, sem Thorkild Hansen hefur skrifað um í bókinni Þrælaeyjan. Ekki er vitað um neina Íslendinga sem komu til Dönsku Vestur-Indía, enda hefur það ekki verið rannsakað. Það er ekki ólíklegt að einhver hafi slæðst þangað.

Staða Íslands innan Danaveldis var önnur. Danaveldi var eitt af samsteypuríkjum 16.-19. aldar, en svo má nefna þau ríki sem samanstóðu af ólíkum þjóðum og pólitískum einingum undir einu valdi. Slík ríki voru m.a. Austurríki, Ottómanska ríkið, Svíþjóð og Danmörk-Noregur. Hér á landi ríkti innlend yfirstétt sem átti allar jarðeignir og kúgaði leiguliða. Í ríkinu var einnig þýskur hluti sem nefndist Slésvík-Holstein, norskur hluti, færeyskur, grænlenskur og síðast en ekki síst danskur. Danir höfðu stöðuga minnimáttarkennd gagnvart Þjóðverjunum sem skipuðu margar stöður í stjórnkerfinu, en bæði Norðmenn og Íslendingar höfðu minnimáttarkennd gagnvart Dönum. Danir skipuðu margar æðstu stöður í Noregi en fáar á Íslandi. Innlend yfirstétt stóð tiltölulega sterkt hér á landi. Ísland hafði eigið tungumál og stjórnkerfið var mikið til rekið á því, með útgáfu Alþingistíðinda á íslensku frá 1630. Menning Íslendinga naut ákveðinnar virðingar í Danmörku, en því var sjaldnast fyrir að fara í nýlendum Evrópubúa í Afríku og Ameríku. Yfirleitt var fyrsta verk nýlenduherranna að leggja menningu innfæddra í rúst.

Staða Íslands var því fremur eins og staða héraðs í Evrópuríki en staða nýlendu. Það má ef til vill líkja Íslandi við Bretagne eða Baskaland í frönsku samhengi.

Sjaldan er hugað að mikilvægum þætti í þróun kapítalisma, en það er upphaf hagvaxtar í landbúnaði. Þegar það gerist hefur landið losað sig við yfirráð lénskerfisins og er komið á braut kapítalisma. Fyrstu löndin sem þetta gerðu voru Holland og England á 17. öld, með hollensku byltingunni um 1600 og þeirri ensku um 1650. 200 ár liðu þar til önnur lönd bættust í hópinn, Bandaríkin, Norðurlönd, Þýskaland, Frakkland og norðurhluti Ítalíu. Þetta gerðist um 1770-1800, með amerísku og frönsku byltingunni. Napóleon flutti frönsku byltinguna út til Þýskalands og Ítalíu, en á Norðurlöndunum gerðist þetta án beinnar valdbeitingar. Á Íslandi muna menn hann Jörund, hann var kannski meiri tímamótamaður en margur heldur.

Alla 19. öld hélst íslenska jarðeigendastéttin við völd. Hún átti allar jarðeignir og tók af þeim landskuld. En samhliða juku almennir bændur verslun sína stöðugt, í beinu sambandi við markaðinn og án þess að landeigendur næðu að hirða afraksturinn. Það var markaður erlendis fyrir fisk og fiskafurðir, hákarlalýsi, ull, tólg og kjöt. Bændur juku sauðfjárrækt og nutu hagnaðarins. Gufuskip fóru að sigla til landsins. Þar kom að bændur gerðu uppreisn gegn danska kaupmannavaldinu, fyrir áhrif frá enskum sauðakaupmönnum, og stofnuðu eigin verslunarfélög. Íslenska bændahreyfingin náði miklum pólitískum áhrifum og róttæk, alþýðleg þjóðernisstefna vann afgerandi sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu um Uppkastið árið 1908. Um svipað leyti hurfu síðustu leifar lénsskipulags í landinu þegar bændum var gert kleift að kaupa jarðir þær sem þeir sátu. Íslenska yfirstéttin, sem hafði beðið ósigur í Uppkastsslagnum, snéri sér að togaraútgerð og reyndi að selja fossa og norðurljós til erlendra auðfélaga. Nútímaþjóðfélagið skreið úr hamnum, varpaði af sér kristinni trú sem lykilþætti hugmyndafræði og tók upp í staðinn veraldlega þjóðernisstefnu. Tungumál nútímans á Íslandi var íslenska. Danska varð tákn hins gamla, kúgunarinnar, yfirráða lénsveldis og dansks kaupmannavalds. Þess vegna voru dönskuslettur illa séðar í málinu fram yfir 1970.

Ísland var um 1900 hluti af jaðarsvæði Evrópu. Það tilheyrði ekki evrópska heimsvaldakjarnanum, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi, en var eins og Norðurlöndin öll í nánu sambandi við þennan kjarna. Ísland tilheyrði ekki þeim meginhluta heimsins þar sem bjó fólk, dökkt, rautt eða gult á hörund, sem hvítir menn töldu sér rétt og skylt að kenna kristni og aðra góða siði með vélbyssur að vopni. Í þessum löndum ríkti grímulaust ofríki ofbeldisfullrar heimsvaldastefnu, kynþáttahyggju og kapítalisma. Megineinkenni íslenska samfélagsins voru hins vegar öflug smábændahreyfing, líkt og á öðrum Norðurlöndum, sjálfstætt, innlent auðvald og vaxandi verkalýðsstétt. Um 1913 fór sú stétt að skipuleggja sig.

Nýlendan Ísland 1 - til 1914

Nýlendan Ísland 2: Tímabilið 1900-1940

Nýlendan Ísland 3: Tímabilið 1940-1950

Nýlendan Ísland 4: Tímabilið 1950-1990

Nýlendan Ísland 5: Um 1990