Ömmur ættu allsekki og aldrei að borða hafragraut í öll mál!

Sólveig-Jónsdóttir-flytur-ræðu-sína-24.04.20103 cut.jpg

Kæru félagar!

Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði lokið sér af í suð-austur Asíu í kjölfar fjármálakreppunar þar, stóð vart steinn yfir steini. Tugir miljóna voru án atvinnu, barnavændi hafði aukist gríðarlega, og blessuð millistéttin, sem flestir þrá að tilheyra hafði nær þurkast út. Sumir töluðu um skipulagða eymd, planned misery.

En það veltust ekki allir um í eymd, öðru nær. Stóru fjárfestingarbankarnir, og fjölþjóðleg fyrirtæki voru á risaútsölumarkaði. Okkar gömlu vinir Donald Rumsfeld og Dick Cheney, voru á meðal þeirra sem græddu og grilluðu.

Síðan Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom til Íslands höfum við fengið að heyra að þeir séu hættir að skipuleggja eymd, og beiti sér nú aðallega fyrir betra mannlífi. Þeir hafi lært af mistökunum, Milton Freidman er líka löngu dauður og engin hræddur við hann lengur.

En við þurfum ekki að leita lengi, í bókum eða á netinu, og þá verða staðreyndirnar okkur ljósar:

AGS er fullkomlega ólýðræðisleg stofnun. Samningaviðræður fara fram bak við lugtar dyr: við, kjósendur, borgarar, erum svipt okkar lýðræðislegu réttindum, mannréttindum: að við fáum að vera upplýstir þátttakendur þegar ákvarðamir eru teknar sem varða alla tilveru okkar. Af þessum sökum er enginn sem gætir að hagsmunum okkar, fólksins, sem grillar kannski stundum, en hefur engin tök á að græða milljarða á braski!

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neitar að taka tillit til þarfa minni og fátækari ríkja,

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neitar að leggja til að gjaldeyrisbrask verði skattlagt,

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neitar að leggja til að skattaskjól verði bönnuð,

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill ekki takast á við raunverulega vandamálið, sem er:

Nýfrjálshyggjan og hömlulaus vöxtur fjármagnsmarkaða, sem hefur leitt til stjarnfræðilegra fjármagnsflutninga spákaupmanna, sem hafa það eitt að markmiði að hámarka skammtíma hagnað, en skeyta engu um velfarnað raunhagkerfisins, hvað þá hagsmuni almennings.

AGS gætir hagsmuna markaðarins og hinna auðugu, hvort við hin sökkvum eða syndum er ekki þeirra vandamál!

Kæru félagar!

Ekki aðeins á Íslandi hefur kasínó kapítalisminn í samvinnu við vanhæf stjórnvöld leitt efnahagslífið allt í ógöngur:

Í Grikklandi óttast almenningur nú afleiðingar aðkomu AGS,

92% Grikkja telja að frekari niðurskurður, launalækkanir, aukið atvinnuleysi séu á næsta leyti.

Og hér á Íslandi hefur önnur endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins loks verið afgreidd.

Og þá kemur meðal annars þetta í ljós:

  • Ríkisstjórn Íslands mun ekki hjálpa íbúðalánasjóði til að mæta afskriftum skulda!
  • Ríkisstjórnin ætlar ekki að framlengja frestun á nauðungarsölum!
  • Frekari úrræði fyrir þá sem eru á drukkna í afborgunarkviksyndinu verða engin!
  • Og Ríkisstjórnin lofar að borga Icesave, með sanngjörnum vöxtum…

Kæru félagar!

Sjaldan er lýðræðisleikritið lélegra og óskemmtilegra en þegar alþjóðasamfélagið fer af stað með hagsmuni markaðarins dulbúna sem hagsmuni þjóða.

Þá er allt í boði:

Tæmum ríkiskassan, gerum innrás, það er ykkur fyrir bestu. Einræðisherrarnir ykkar voru svo lélegir, kapítalistarnir ykkar svo mikilir asnar, stjórnmálaelítan svo löt, að það er ekki bara sanngjarnt heldur bráðnauðsynlegt að þið borgið brúsann!

Hér þjösnaðist kapítalisiminn áfram af svo miklu offorsi og fyrirhyggjuleysi að hann valt um koll… Og hér varð uppreisn. Uppreisnin treysti lýðræðinu og fékk kosningar. Uppreisnin treysti fólki sem sagðist vera vinstri og grænt. Uppreisnin treysti fólki sem sagðist hafa andúð á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að Icesave væri svívirða og að ömmur ættu allsekki og aldrei að borða hafragraut í öll mál!

Nú þurfa Vinstri Græn og og sá hópur fólks innan Samfylkingarinnar sem vill jafnrétti og fallegt mannlíf að stíga fram og segja:

'Kæru kjósendur, fyrirgefiði okkur. Við áttum bara svo bágt með að trúa því að þið vilduð alvöru vinstri stjórn! Við höfum verið leiðinleg og vond!

Við höfum hegðað okkur eins og hver annar Sjálfsæðisflokkur! En við höfum séð að okkur! Héðan í frá vinnum við fyrir ykkur, ekki Óla í Samskip eða Jón Ásgeir eða Bresk eða Hollensk yfirvöld eða hinn Alþjóðlega fjármálamarkað!

Við ætlum að beygja til vinstri, skarpt til vinstri og svo aftur til vinstri. Hittumst úti á horni og byrjum uppá nýtt.'

Kæru félagar!

Það er prinsippmál að eiga ekki í viðskiftum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn!

Við kaupum ekki bensín og snakk hjá N1, vegna þess að við höfum megnustu andúð á eigendunum.

Og við eigum ekki viðskifti við stofnun sem hefur á samviskunni fátækt og óhamingju systkina okkar um alla veröld!

Það er ekki bara einhver sófaradíkalismi, heldur partur af grunngildunum, grundvallarpólisíunni!

Að lokum langar mig að vitna í tvo af mínum uppáhalds ameríkönum: Martin Luther King, og Kommúnistann Boots Riley.

Fyrst Martin:

"Sönn bylting gilda mun fljótlega fá okkur til að efast um sanngirni og réttlæti stefnu þeirrar sem fylgt hefur verið til þessa.

Annars vegar er krafan sú að við séum Miskunsamir Samverjar. En það er aðeins upphafið!

Dag einn verðum við að gera okkur ljóst að sjálf leiðin til Jeríkó verður að breytast, svo að menn og konur séu ekki barin og rænd á ferð sinni um þjóðveg lífsins.

Sönn samkennd er annað og meira en að kasta smáaur til betlara, hún er ekki tilviljunarkennd og yfirborðskennd!

Hún fær okkur til að sjá að sú samfélagsmynd sem býr til betlarann þarfnast endurskipulagningar! Sönn bylting gilda mun brátt stara full óþæginda á hrikalega augljósar andstæður fátæktar og ríkidæmis!"

Og svo kommúnistinn Boots Riley:

"Take a look around, be for or against, cause you can't change shit if you ride the fence!"

Sem á íslensku hljómar einhvernveginn svona:

Horfðu í kringum þig, vertu með eða á móti, vegna þess að þú breytir engum andskotanum með afsöðuleysi!

Burt með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, ekki bara frá Íslandi, heldur frá Haiti, Grikklandi, og allstaðar þar sem hann gengur erinda auðvaldsins og krefst þess að almenningur borgi skuldir kasínókapítalismanns.

Takk fyrir.


Ræða flutt á útifundi á Austurvelli 24. apríl 2010

Mynd: Nikulás Einarsson