Ég ákæri ykkur. Ræða Sólveigar Jónsdóttur á Austurvelli 15. maí 2010.

Þann 8. desember 2008 ætlaði ég ásamt öðrum svokölluðum hettuklæddum ungmennum að komast á almenningspalla Alþingishússins. Svo fór að aðeins tvö okkar komust alla leið, og tilkynntu þingheimi: Þetta hús þjónar ekki tilgangi sínum lengur, drullið ykkur út.

Það er snaggaralega útgáfan á áskorun þeirri sem nokkur okkar ætluðu að lesa.

Svona hljóðar hún í heild sinni:

„Alþingi á að vera vettvangur samráðs og lýðræðis. Hlutverk Alþingis er að setja lög, almenningi til verndar og heilla. Alþingi sem þjónar hagsmunum auðvaldsins og bregst skyldum sínum gagnvart almenningi er ekki Alþingi fólksins. Þetta hús þjónar ekki lengur tilgangi sínum, þessvegna skorum við á ykkur þingmenn að ganga héðan út.“

Já, svona hljómar hún, áskorunin, hálf meinleysisleg, ekki satt. En sönn engu að síður.

Því eins og alþjóð veit gættu þau sannarlega hagsmuna auðvaldsins: Þau voru ferjuð á milli í einkaþotum Marie Antoinette, þau afsöluðu sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar í hendurnar á brjálaðasta brunnmíg seinni tíma, þau greiddu innistæður vina sinna úr sameiginlegum sjóðum okkar, þau héldu dularfulla blaðamannafundi en sögðu samt aldrei neitt, þau kölluðu okkur ekki-þjóð, þau báðu guð að blessa Ísland, en gleymdu því að guð hjálpar þeim sem hjálpast að.

Þau eru svo undarlega innréttuð að það þurfti umsátursástand um Alþingishús og Þjóðleikhús til þess að þau fengju sjón og heyrn.

Kæru félagar.

Á einum stað segir Joe Strummer, maðurinn sem var allt sem sumir geta aldrei orðið:

Hafiði tekið eftir því hvernig dyrnar lokast þegar klukkur frelsisins hringja.

Og þær voru sannarlega fljótar að lokast, dyr hússins þarna hinumegin. Nú talar forseti Alþingis um að við höfum ráðist inn bakdyramegin, og ekki nóg með það, heldur skirrðumst við víst ekki við að beita líkamlegu ofbeldi til að komast í tæri við þingmenn.

Ég segi það satt, ég hélt að dyrnar sem við fórum inn um væru þær dyr sem ætlast er til að almeningur noti þegar hann bregður sér í kaupstaðaferð á pallana.

(Þannig að næst þegar þið gerið ykkur ferð í Alþingishúsið, muniði þá að við eigum víst að nota aðaldyrnar.)

Og ég segi það satt, ég ætlaði aldrei að henda mér fram af pöllunum til þess að króa af Siv Friðleifs eða Bjarna Ben.

Undanfarið hafa ýmsir rifjað upp pallabrall samlanda okkar.

Meðal annars fóru víst aðgerðasinnar úr röðum ungíhaldsmanna uppá á palla Alþingis, og otuðu sjálfvirkum hríðskotabyssum, að vísu keyptum í leikfangabúð, að þingheimi. Þá flissuðu allir góðlátlega, svona æ, þetta er ungt og leikur sér, og hefur að öllum líkindum komist inn aðaldyramegin.

En tímarnir breytast, nú er ákært fyrir hryðjuverkaárás og landráð.

Og aðför að sjálfræði þings sem augljóslega var ekki sjálfrátt.

Kæru félagar.

Undirstaða réttarríkisins er víst réttlæti.

En á Íslandi er undirstaða réttarríkisins bókstafstúlkun á lögum:

Hér stendur ekkert um að við megum ekki nota flókna fjármálagjörninga til þess að ræna bótasjóðum, og hér stendur allt um það að við megum ákæra ekkiþjóðina fyrir landráð.

Sama bókstafstúlkun kemur skýrt fram þegar styrkþegarnir á þingi bera því við að engar reglur hafi bannað þeim að þiggja miljónaframlög frá auðmönnum og fyritækjum, þegar öllum má vera ljóst að með því voru þau orðin eitthvað allt annað en gæslumenn hagsmuna amennings.

Á undanförnum árum missti ríkisvaldið sjónar á tilgangi sínum, sem er: Að gæta hagsmuna alls almennings og byggja hér upp, í samstarfi við þjóðina, réttlátt samfélag.

Já, þetta vorum við að hugsa 8. desember 2008:

„Þetta hús þjónar ekki lengur tilgangi sínum, þessvegna skorum við á ykkur þingmenn að ganga héðan út.“

Og í dag hugsa ég þetta og ákæri hér með:

Ég ákæri ykkur, kjörna fulltrúa íslensku þjóðarinnar, fyrir að standa ekki upp og ganga út þegar Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson blóðguðu hendur okkar og gerðu okkur samsek glæpahyski í ömurlegri morðför!

Ég ákæri ykkur fyrir að standa ekki upp og ganga út þegar stærsta varplendi evrópskra heiðagæsa var drekkt, í paþólógískri þjónkun við hagsmuni auðvaldsins!

Ég ákæri ykkur fyrir að standa ekki upp og ganga út þegar ljóst var að greiða átti Illuga Gunnarssyni og vinum hans í Sjóði Níu, úr sameiginlegum sjóðum okkar!

Ég ákæri ykkur fyrir að láta arðræningja kaupa handa ykkur þingsæti!

Ég ákæri ykkur fyrir að segja: Sama hvaðan gott kemur, jafnvel þegar það kemur frá lygurum og stórþjófum!

Ég ákæri ykkur fyrir að standa ekki upp og ganga út þegar ljóst var að ykkar eigin útvöldu auðmenn höfðu gengið svo langt í níhíliskri græðgi að hagkerfið var dautt!

Ég ákæri handahófskennt úrtak ykkar, sem felið ykkur alltaf bakvið vestrænar lýðræðishefðir, en hafið gleymt öllum hefðum og gildum, öllum nema einni: Að ásælast stöðugt meiri völd og auð!

Kæru félagar!

Við skulum ekki gleyma því sem gerðist þegar fánadrengurinn hugumstóri klifraði uppá þakið á húsinu þarna og dró nýju fötin keisarans að húni: Við komum honum undan.

Og þegar lögreglunni var svo beitt í pólitískum tilgangi og fánadregurinn sóttur og lokaður inni svo hann gæti ekki glatt okkur meira, þá var okkur svo misboðið að við barasta frelsuðum hann.

Og nú þegar lögreglunni er enn á ný beitt í pólitískum tilgangi, og forseti alþingis þykist valdalaus og meira svona uppá punt, þá segi ég: Ef nímenningarnir verða settir inn, skal ég lofa þér, yfirvald, í öllum þínum margvíslegu og vanhelgu myndum, að við tökum því ekki þegjandi!

Ef þú hefur ekkert lært, og þarft á endurmenntun að halda, þá er kennslustundinni langt því frá lokið.

Þú blekkir ekki börn byltingarinnar: Jafnvel þó að skilti og pottar séu komin á safn, endaði sagan ekki, við erum ennþá á Austurvelli, við erum þjóðin, ekki þú, og með því að koma fram við okkur af hroka og ósanngirni, uppskerðu ekkert annað en réttláta reiði.

Ef Alþingi heldur að hlutverk sitt sé að standa hjá meðan almenningur sætir pólitískum ákærum, þjónar það ekki tilgangi sínum, og þá er sannarlega kominn tími til að við fjölmennum á pallana!