Gunnar Skúli bloggar

Syndicate content
Ekki er allt sem sýnist...
Updated: 3 hours 6 min ago

Að skila auðu

Lau, 21/10/2017 - 00:00
Almenningur vill vita sem mest. Almenningur vill til dæmis vita allt um fjármál Bjarna Ben eins og Stundin hefur verið að upplýsa okkur um. Þegar yfirstéttin lokar svo á það upplýsingaflæði nennir almenningur ekki að standa upp úr sófanum til að mótmæla og skiptir bara um rás. Nei almenningur hefur alls ekki fundið vitjunartíma sinn enn í pólitísku tilliti. Áratuga áróður um að það sé púkó að mótmæla og krefjast réttar síns hefur haft áhrif. Hugtakið stétt er framandi almenningi í dag. Sennilega gerist lítið í huga almennings þegar talað er um yfirstéttina því almenningur gerir sér ekki fyllilega grein fyrir því að hann er lágstétt. Margir samsama sig með hástéttinni án þess að fatta það að þeim hefur aldrei verið boðið inn í Versalahöll. Enginn núverandi þingflokka hafa gengið erinda lágstéttarinnar af hörku og ósérhlífni. Líkurnar eru litlar að það breytist í bráð. Þeir þingflokkar sem segjast vilja gera það hafa alltaf tekið meira tillit til yfirstéttarinnar, annars væri hlutskipti almennings annað. Ef allir 63 þingmenn á Íslandi gengju erinda almennings þá væri engin fátækt, ekki húsnæðisskortur, enginn skortur í heibrigðiskerfinu, félagskerfinu, skólakerfinu og svo framvegis. Á meðan við sitjum föst í sófanum mun fátækt vera til áfram á Íslandi, einu ríkasta landi veraldar. Komandi kosningar munu bara staðfesta það. Þar með hefur almenningur skilað auðu.

 

Að verða afi

Fös, 13/10/2017 - 22:47

Þá er ég orðinn afi. Upplifunin er stórkostleg og hamingjuóskunum rignir yfir mann. Á facebook hverfur allur pólitískur eða annar ágrenningur og allir óska manni til hamingju. Sakleysi nýfædds barns ræður umræðunni. Það vitnar um að við erum öll í raun vinir þegar við speglum okkur í því sakleysi sem hið nýfædda barn býr yfir. Flestir menn eru góðir og vilja bara lifa í sátt við aðra menn.

Að verða afi veldur að sjálfsögðu líka heilbrotum. Hvað hef ég gert til að skapa barnabarninu mínu góða framtíð. Ég er ekki hluti af Engeyjarættinni og hef ekki tök á því að troða gullskeið upp í munninn á barnabarninu mínu. Bóka góða einkaskóla, lóð í Garðabænum og þægilega stöðu innann íslenskrar stjórnsýslu, eftir laganám að sjálfsögðu.

Nei ég er bara venjulegur millistéttagaur og trúi ekki á brauðmolakenninguna, á ættingja sem trúðu henni og kusu alltaf Sjálfstæðisflokkinn og hafa aldrei grætt neitt á því. Nei ég hef viljað fara aðra leið en að selja sálu mína elítu Íslands. Ég vil réttlæti. Að allir fái viðeigandi forgjöf þannig að allir standi jafnfætis á startlínunni.

Ég get ekki sagt að ég hafi haft árangur sem erfiði. Enn er Sjálfstæðisflokkurinn ráðandi í íslenskum stjórnmálum og Vinstri grænir orðinn stærsti flokkurinn sem aldrei hefur sett fótinn í veg fyrir auðvaldið. Þeir stjórnmálaflokkar sem sett sig hafa upp á móti auðvaldinu á Íslandi hafa aldrei náð langt.

Mitt pólitíska brölt hefur ekki skilað nýfæddu barnabarni mínu neinu auknu réttlæti, enn ræður ættarsamfélagið á Íslandi. Hingað til hefur eina lausn þingflokkanna verið að arðræna alþýðinu og koma sínu fólki að eða forða því frá umtali fjölmiðla. Hugtakið réttlæti hefur ekkert vægi í íslenskri pólitík. Það virðist ekki leita á íslenska kjósendur heldur.

Til allra hamingju býr barnabarnið mitt í Svíþjóð. Þar hefur orðið ”rettvisa” mjög mikið vægi, þegar það er sagt þarf ekki að rökstyðja það eða útskýra. Það hefur mikla eigin þyngd í umræðunni. Þar skilur á milli Íslendinga og Svía. Svíar hafa aldrei trúað á brauðmolakenninguna en þeir hafa krafist réttlætis í skjóli hugtaksins ”rettvisa”. Að krefjast ”rettvisa” í Svíþjóð setur jafnvel sænsku auðvaldsættirnar í varnarstöðu.

Ef íslenskir kjósendur gætu bara tengt orðið réttlæti við orðið forgjöf í golfi þá væri mikið unnið.

 

Raddir fólksins

Þri, 26/09/2017 - 21:15

Hörður Torfa er kominn af stað aftur og er það vel. Hann hélt fyrsta fundinn núna á laugardaginn á Austurvelli. Hittingurinn var á við besta ættarmót, flestir þekktust frá fyrri tíð. Margir búnir að mæta frá haustdögum 2008 og enn að reyna að koma á réttlæti. Baráttan heldur áfram.

Einn draumur sem fæddist í Búsáhaldarbyltingunni var að stofna þverpólitískan flokk sem færi inná þing og breytti því nauðsynlegasta. Tveir slíkir flokkar hafa verið stofnaðir eftir hrun, Borgarahreyfingin og Dögun. Þrátt fyrir áralanga baráttu endurhljómuðu kröfur Búsáhaldarbyltingarinnar á laugardaginn úr munni Harðar. Það bendir til þess að árangurinn sé ekki mikill. Við í Dögun höfum þó reynt að bera þennann kyndil Búsáhaldabyltingarinnar sem endurspeglast í þeim kröfum sem Hörður taldi upp. Vinstri-græn, Samfó, Sjálfstæðisfl og Framsókn hafa öll stjórnað frá hruni en enn erum við langt frá markmiðunum. Hvað er það sem við viljum? Sjá xdogun.is/kjarnastefna/

Afnema völd bankakerfisins yfir lífi okkar.

Afnema fátækt.

Allir hafi þak yfir höfuðið á sanngjörnu verði.

Nýja Stjórnarskrá.

Þjóðin fái arðinn af auðlindunum sínum.

Stokka upp kvótakerfið.

Afnema spillingu.

Þetta er ekki flókið og sjálfsagt eru flestir Íslendingar sammála þessu en þrátt fyrir það erum við nánast í sömu sporum og þegar Búsáhaldarbyltingin hófst. Það er því augljóst að ”flestir Íslendingar” hafa ekki setið við völdin síðan þá. Þeir sem stjórnað hafa landinu er minnihluti Íslendinga og hafa mikla hagsmuni svo að kröfur Búsáhaldarbyltingarinnar nái ekki fram. Aftur á móti þegar ”flestir Íslendingar” hafa áttað sig á þessu og að þeir hafa verið hlunnfarnir af minnihlutanum þá verður kannski raunveruleg breyting. Góð byrjun væri að hætta að kjósa stjórnmálaflokka þessara ”fáu Íslendinga” sem hafa ráðið hér för í áratugi.

 

Ný Stjórnarskrá eða hvað

Fös, 22/09/2017 - 23:06

Bjarni Ben hefur sett stjórnarskrámálið á dagskrá í upphafi kosningabaráttunar. Hann leggur til 12 ára áætlun. Flestir telja að það sé pólitískur leikur. Hann gefur í skyn áhuga á breytingum en ætlar í raun að drepa málið í nefnd eins og hingað til. Helsti drifkraftur hans eru hagsmunir kvótagreifanna sem vilja festa sjávarauðlindina sem sína eign en ekki þjóðarinnar.

Þá gerist það að sumir stjórnarandsöðuflokkarnir taka undir með Bjarna og meðal annars Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Þess vegna hefur verið rifjuð upp snautleg framganga þingsins á lokametrum stjórnarskrarinnar 2013. Þá gerðist það sem allir raunsæir einstaklingar höfðu reiknað með. Auðvaldið sagði hingað og ekki lengra og þingið hlýddi. Að þjóðin hefði möguleika á meiri afskiptum var bannað, nógu erfitt var að hafa stjórn á þessum 63 þingmönnum.

Aðalgagnsemi stjórnarsrársmálsins hingað til var að skilja hafrana frá sauðunum.

Síðan keppast talsmenn þeirra flokka sem taka undir tillögu Bjarna að tala niður stjórnarskrárbreytingar. Þeim finnst sennilega að þingræðið sé enn í fullu gildi. Ef þeirra flokkur nær góðri stöðu muni kjör þeirra verst settu batna. Við sem aðhyllumst nýja stjórnarskrá erum þreytt á kosningasvikum en þar er algengasta afsökunin ”samsteypustjórn”. Við teljum að þingræðinu sé lífsnauðsynlegt að fá beint lýðræði annars verða þingkosningar með 12 mánaða millibili.

Við almenningur bjóðumst til að taka af ykkur þingmönnum þennann kross við að innleiða það sem meirihluti þjóðarinnar vill hvort eð er og þið hafið lofað að gera marg oft en svikið jafn oft. Afnema fátækt, afnema verðtryggingu, afnema kvótakerfið, afnema lífeyrissjóðaruglið, afnema ægivald húseigenda/verktaka á leigumarkaðnum, afnema ægivald bankakerfisins á líi fólks og afnema óréttlát kosningalög. Í stuttu máli þá ætlum við að krefjast réttlætis og að auðnum og réttindum verði smurt jafnt yfir kökuna. Það ætlum við að gera með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Að kjósa síendurtekið sömu kosningaloforðin sem eru svo svikin segir okkur að sú leið er ófær. Þess vegna er öll töf á stjórnarskrá af hinu illa fyrir hagsmuni hins almenna borgara.

Sérhagsmunaöflin í þjóðfélagi okkar skilja þetta mæta vel og munu koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá með öllum ráðum. Þess vegna er það svo mikilvægt að stjórnmálamenn kljúfi sig frá sérhagsmunaöflunum og lýsi því yfir endurtekið að ný stjórnarskrá með auknum völdum almenning sé forgangsmál. Auk þess eiga Alþingismenn að sjá sóma sinn í því að skipta sér sem minnst af nýrri stjórnarskrá nema til þess að stuðla að framgangi málsins. Eiga lyfjaframleiðendur að semja lyfjalög?

 

G20 og Yanis Varoufakis

Lau, 08/07/2017 - 22:15
Núna er G20 fundurinn í Hamborg þar sem þjónar fjármálavaldsins koma saman og koma því í verk sem fjármálavaldið vill. Kjörnir þjóðhöfðingjar eru þrælar fjármálavaldsins. Það ætti að vera augljóst öllum að bankakerfið hefur notið sérkjara en allir aðrir hafa þurft að taka á sig miklar skerðingar á lífskjörum í kjölfar bankakreppunnar 2008. Yanis Varoufakis var fjármálaráðherra í Grikklandi 2015 og hefur gefið út endurminningar sínar frá þessum tíma, Adults in the Room: My Battle with Europe’s Deep Establishment. Hann lýsir því mjög vel í þessari bók hversu stjórnmálamenn eru valdalausir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabanki Evrópu hafa síðasta orðið á fundum fjármálaráðherra Evrópusambandsins. Gríska þjóðin hafnaði skilyrðum fjármálavaldsins í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Evrópusambandið fyrir hönd þess var að þvinga upp á grísku þjóðina. Ekki einu sinni þjóðaratkvæðagreiðsla var virt. Seðlabanki Evrópusambandsins kom til skjalanna og hætti að skaffa Grikkjum seðla og mynt sem er þó lagaleg skylda bankans. Án peninga stöðvast samfélagið. Yanis var tilbúinn með nýtt peningakerfi byggt á skattkortum því hann vissi vel að Seðlabanki Evrópsambandsins myndi gera þetta. Lausn Varoufakisar var aldrei notuð vegna þess að vinstri stjórnin sveik Varoufakis og kjósendur sína. Ef kerfi Yanisar hefði farið í gang og virkað þá hefðu vopnin verið slegin úr höndum fjármálavaldsins og Grikkir hefðu getað gefið fjármálavaldinu langt nef. Fjármálavaldið/bankakerfið/seðlabankakerfið framleiðir peningana okkar og stjórnar magni þeirra í umferð. Sá sem gerir það er með valdið. Þess vegna eru stjórnmálamenn og kjörnir þjóðarleiðtogar valdalausir þar sem þeir eltast við að þjóna fjármálakerfinu í stað þess að þjóna fólkinu sem kaus þá. Þegar bankarnir minnka magn peninga verður kreppa. Þegar þeir auka magn þeirra verður bóla og þegar þeir skrúfar fyrir þá eins og í dæmi Grikkja hrynur samfélagið. Pólitíkin í dag hversu falleg sem hún kann að vera getur ekki breytt ákvörðunum fjármálakerfisins. Pólitíkin í dag verður að snúast um að endurheimta valdið yfir framleiðslu peninga til að hún virki fyrir fólkið. Öllu þessu lýsir Yanis mjög vel í bók sinni og óskar eftir því að fullorðið fólk komi inní herbergið, þ.e. að við föttum þetta. Að öðrum kosti verðum við bara áhorfendur þegar allt draslið fer til helvítis eins og hann segir í lok bókar sinnar. Mæli eindregið með bókinni hans Varoufakisar svo menn skilji betur stóru myndina og hvernig fjölmiðlarnir eru misnotaðir.